Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

20. október 2021

Enn fleiri sveitarfélög vilja í samstarf með Bjargi

Frá ársfundi Bjargs íbúðafélags.

Reykjavíkurborg mun taka frá lóðir fyrir rúmlega 1.100 íbúðir fyrir Bjarg íbúðafélag á næstu tíu árum og ný sveitarfélög hafa óskað eftir samstarfi í kjölfar frétta af góðu gengi félagsins. Þetta kom fram á ársfundi Bjargs íbúðafélags sem haldinn var í gær.

Bjarg er óhagnaðardrifin sjálfseignarstofnun stofnuð af ASÍ og BSRB sem ætlað er að byggja upp og leigja út íbúðir fyrir tekjulægstu félagsmenn heildarsamtakanna.

Árni Stefán Jónsson, formaður stjórnar Bjargs, sagði bjarta tíma framundan hjá Bjargi í ávarpi sínu á ársfundinum. Þá sé ekki síður mikilvægt að nú sé loksins að komast hreyfing á málefni Blævar leigufélags, sem allir félagsmenn BSRB og ASÍ eiga aðild að, án tekjuviðmiða. Það hafi tekið tíma að koma starfseminni af stað en nú sé búið að vinna undirbúningsvinnu og kjósa stjórn og því verði þess ekki langt að bíða að Blær hefji sína uppbyggingu.

Árni Stefán Jónsson, formaður stjórnar Bjargs.

 

„Við höfum náð öllum okkar markmiðum,“ sagði Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs, á ársfundinum. Félagið hefur afhent rúmlega 500 íbúðir og er með rúmlega 800 í byggingu eða undirbúningsferli. Samhliða því að byggja fyrir leigutaka Bjargs er samkomulag við Reykjavíkurborg að Félagsbústaðir kaupa 20 prósent íbúðanna. Það hefur haft þau áhrif að biðlisti eftir íbúðum Félagsbústaða hefur helmingast á tveimur árum.



Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs.

 

Björn sagði það mikilvægt að Bjarg hafi náð að standa við allar sínar áætlanir. „Við göngum frá leigusamningi sex mánuðum áður en við afhendum íbúðina og það hefur aldrei klikkað að fólk hafi fengið íbúðina á réttum tíma.“

Hann sagði það orðið mjög eftirsóknarvert að leigja hjá félaginu, enda fái leigjendur nýjar og góðar íbúðir á hagstæðu verði og njóti mikils húsnæðisöryggis. Jákvæð afstaða leigjenda sé meðal annars staðfest í nýrri rannsókn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem sýnir að leigjendur hjá óhagnaðardrifnum félögum eru ánægðari en þeir sem leigja á almenna markaðinum.

Félagið náði nýverið samningum við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um endurfjármögnun lána á þeim húsum sem þegar er búið að byggja. Í kjölfarið skilaði Bjarg þeirri hagræðingu beint til leigjenda með því að lækka leiguna um að meðaltali 14 prósent. „Að meðaltali vorum við að lækka leiguna um kannski 30 þúsund. Þetta eru stórir peningar fyrir leigutaka okkar,“ sagði Björn.


Raunveruleg lífsgæðabreyting
„Við viljum að fólk eigi þak yfir höfuðið og að það sé öruggt,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í ávarpi sínu á ársfundi Bjargs. Hann sagði meðal annars frá því að við undirbúning aðalskipulags borgarinnar til næstu tíu ára hafi Bjarg óskað eftir lóðum fyrir eitt þúsund íbúðir. Dagur sagði borgina hafa brugðist við þessu og eyrnamerkt félaginu lóðir fyrir alls 1.135 íbúðir, heldur meira en óskað var eftir til að hafa svigrúm ef vinna við einhverjar lóðir tefjist.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.


„Við erum að hugsa um góðar staðsetningar. Við viljum gott aðgengi að almenningssamgöngum en við viljum líka að þetta sé ekki allt á einum stað. Við viljum að þetta sé dreift um borgina,“ sagði Dagur.

„Ég vil hrósa verkalýðshreyfingunni, ég vil hrósa ASÍ og BSRB og öllum sem vinna hjá Bjargi og hafa komið að þessum verkefnum,“ sagði Dagur. „Ég hvet ykkur til að lesa viðtölin við fólk sem hefur verið að fá úthlutað hjá Bjargi. Lesa um léttinn og raunverulega lífsgæðabreytingu í lífi fjölskyldna sem kemst í öruggt húsnæði óhagnaðardrifinna félaga um alla Reykjavík.“


Lítil velta í hópi leigjenda
Það er ekki aðeins uppbygging húsnæðis sem hefur gengið vel hjá Bjargi heldur hefur útleiga á húsnæðinu einnig gengið afar vel. Björn segir það afar gott merki að lítil velta sé í hópi leigjenda hjá stofnuninni. Sú velta sem þó sé til staðar tengist einkum því breyttu fjölskyldumynstri leigjenda, því að fólk fari í það að kaupa sína fyrstu íbúð og svo að fólk sem hafi flutt í íbúð Bjargs úr foreldrahúsum flytji aftur til foreldranna.

Nánari upplýsingar um Bjarg íbúðafélag má finna á vef stofnunarinnar.