Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

27. október 2021

Stjórn Sameykis ályktar um uppsögn trúnaðarmanns Eflingarfélaga

Á stjórnarfundi Sameykis sem fram fór síðdegis í gær var samþykkt ályktun um uppsögn trúnaðarmanns Eflingarfélaga á Reykjavíkurflugvelli svo hljóðandi:

 

Ályktun Sameykis um uppsögn trúnaðarmanns Icelandair

Trúnaðarmanni Eflingarfélaga á Reykjavíkurflugvelli, Ólöfu Helgu Adolfsdóttur, var sagt upp störfum í miðjum viðræðum um réttindamál meðal starfsmanna fyrirtækisins. Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu mótmælir harðlega uppsögn trúnaðarmanns Icelandair ehf. á grundvelli laga um réttindi og skyldur trúnaðarmanns á vinnustað þar sem óheimilt er að segja upp trúnaðarmanni sem starfar í trúnaðarsambandi fyrir hönd launafólks og stéttarfélags á vinnustað. Í elleftu grein laga um stéttarfélög og vinnudeilur frá Alþingi 1938 nr. 80 11. júní segir: Atvinnurekendum og umboðsmönnum þeirra er óheimilt að segja trúnaðarmönnum upp vinnu vegna starfa þeirra sem trúnaðarmanna eða láta þá á nokkurn annan hátt gjalda þess, að stéttarfélag hefur falið þeim að gegna trúnaðarmannsstörfum fyrir sig. Nú þarf atvinnurekandi að fækka við sig verkamönnum, og skal þá trúnaðarmaður að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni. Að auki er ekki heimilt að beita uppsögnum eða hótunum hjá launafólki vegna þátttöku í starfi stéttarfélaga.

Með uppsögninni hefur Icelandair brotið lög um réttindi trúnaðarmannsins á vinnustaðnum og þannig komið í veg fyrir að hann geti rækt skyldur sínar gagnvart launafólki og gætt réttinda starfsmanna Icelandair ehf.

Ennfremur mótmælir Sameyki harðlega framgöngu Samtaka atvinnulífsins í málinu og að það reki málið fyrir hönd Icelandair ehf. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og fyrrum stjórnandi hjá Icelandair, hefur lýst stuðningi við uppsögn trúnaðarmannsins. Með þeim stuðningi gengur SA hart gegn réttindum trúnaðarmannsins, réttindum launafólks og lögum um trúnaðarmenn.

Það er skylda yfirmanna viðkomandi trúnaðarmanns hjá Icelandair ehf að vera upplýstir um réttindi, skyldur og hlutverk trúnaðarmanna á vinnustöðum. Ekki gengur að bera fyrir sig þekkingarleysi á hlutverki þeirra í eigin fyrirtæki.

Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu krefst þess að uppsögnin verði dregin til baka og Icelandair ehf. tryggi innanhússþekkingu á mikilvægi trúnaðarmanna á vinnustöðum og sambandi þeirra við launafólk og stéttarfélög í landinu.