5. nóvember 2021
Könnunin Stofnun ársins 2021 er hafin
Þessa dagana er verið að senda út könnunina um Stofnun ársins og hvetjum allt okkar fólk til að gefa sér tíma til þess að svara. Könnunin mun einnig verða aðgengileg inni á Mínum síðum í næstu viku.
Könnunin er unnin af Gallup og er samstarfsverkefni Sameykis, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og fjölmargra stofnana og nær til um 25.000 manns á opinberum vinnumarkaði. Könnunin nær til alls starfsfólks, en þó er almennt miðað við að starfsfólk hafi starfað á vinnustaðnum í þrjá mánuði eða lengur, þ.e. hófu störf í ágúst 2021 eða fyrr. Það viðmið er notað svo svarendur geti metið starfsumhverfi sitt með áreiðanlegum hætti. Einnig er í flestum tilvikum miðað við a.m.k. 30% starfshlutfall.
Meðalsvartími er um 12 mínútur. Hægt er að gera hlé með því að loka könnuninni og svo getur þú haldið áfram að svara þegar þér hentar. Til að halda áfram að svara er einfaldlega smellt aftur á slóðina á könnunina sem er í tölvupósti.
Tilgangur könnunarinnar er í fyrsta lagi að velja Stofnun ársins og gefa þannig þeim stofnunum viðurkenningu sem skara fram úr í mannauðsmálum. Í öðru lagi að veita stjórnendum upplýsingar um hvað er vel gert og hvað megi bæta frá sjónarhóli starfsfólksins og þannig gera stjórnendum kleift að vinna að umbótum á starfsumhverfi vinnustaðarins.
Þú hefur allt að vinna
Könnunin gefur okkur mikilvægar upplýsingar um starfsánægju og samanburð sem nýtist bæði starfsfólki, stjórnendum og stéttarfélaginu. Auk þess geta allir þeir sem klára könnunina unnið veglegan vinning því þeir sem klára fara sjálfkrafa í happdrættispott og úr honum eru síðan dregnir 12 vinningar. Í verðlaun eru m.a. 60 þúsund króna gjafabréf frá Icelandair, miðar á Airwaves, helgardvöl í orlofshúsum félagsins og vikudvöl í orlofshúsum félagsins á Spáni.
Nánari upplýsingar um könnunina má finna á sameyki.is/kannanir/