Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

15. nóvember 2021

Ekki enn búið að efna loforð um jöfnun launa á milli markaða

Árni Stefán Jónsson, fv. formaður Sameykis kynnti störf nefndar um jöfnun launa á milli markaða.

Fundur í Fulltrúaráði Sameykis fór fram í Gullhömrum 12. nóvember sl. Í upphafi fundar bauð Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, fundargesti velkomna og kynnti fyrir þeim efni fundarins sem voru erindi um jöfnun launa á milli opinbera og almenna launamarkaðarins í umsjón Árna Stefáns Jónssonar, fv. formanns Sameykis. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB, kynnti í erindi sínu efni skýrslu Kjaratölfræðinefndar sem kom út í október sl.


Launamunur á milli markaða enn mikill
Í upphafi fór Árni Stefán Jónsson, sem hefur setið í nefnd um jöfnun launa milli markaða, yfir stöðu mála. Kynnti hann fyrir fundargestum stöðuna á verkefninu og fór yfir störf nefndarinnar. Sagði hann að í kjölfar bankahrunsins 2009 hefði verið stofnað til nefndar sem átti að fara yfir lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna til að kanna hvernig hægt væri að jafna lífeyrsréttindin á íslenskum launamarkaði – opinbera launamarkaðarins og almenna launamarkaðarins. Fór hann ofan í kjölinn á stöðunni í þessu verkefni sem stofnað var til hins vegar af stjórnvöldum, fjármála- og efnahagsráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir hönd ríkisins og BSRB, BHM og KÍ annars vegar. Markmiðið var að komast að samkomulagi um breytingu á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna. Fram kom í máli Árna Stefáns að ágreiningur sé um samkomulagið sem undirritað var því samningsaðilar ríkis og sveitarfélaga hafi ekki lagt sig fram við að veita fjármunum til að jafna launamuninn milli markaðanna.

Fyrir lok ársins 2023 á að vera búið að ganga frá 2/3 greiðslum vegna leiðréttingarinnar. Til að framkvæma þetta hefur komið fram sú hugmynd að skipta launafólki upp í hópa; heilbrigðisstarfsfólk, skrifstofufólk, tæknifólk osv.frv. í stað þess að eiga það á hættu að valda launaskriði innan stofnana með því að gera þetta í gegnum stofnanasamningana.


Ágreiningur um aðferðir
Þá kom fram á fundinum að eins væri sú leið fær fyrir sveitarfélögin að fara með leiðréttinguna í gegnum starfsmatið. Hægt væri að bæta við þætti í launamatið sem gæti heitið; leiðrétting launa á milli markaða. Ljóst er að atvinnurekendur hafa dregið lappirnar í þessum efnum og finna ávallt eitthvað nýtt til að tefja þessa mikilvægu leiðréttingu. Viðsemjendur hafa farið fram á breytingu á sjöundu grein samkomulagsins sem kveður á um sameiginlega stefnu fulltrúa opinberra launagreiðenda og bandalaga opinberra starfsmanna og að laun og önnur kjör hjá hinu opinbera séu samkeppnisfær.

Árni Stefán sagði að áfram væri mikil óánægja hjá ýmsum pólitískum öflum með lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. Eftir að opinberir starfsmenn sömdu upp á nýtt um lífeyrisréttindi sín hafa stjórnvöld fallist á að jafna launin eins og samið var um. Þá tók Ríkissáttasemjari við stjórnun verkefnisins á grundvelli samnings í kjarasamningsviðræðum árið 2019 og var ákveðið að fyrsta greiðsla til einhverra hópa yrði 1. janúar 2021. Fyrir lok ársins 2023 á að vera búið að leiðrétta 2/3 af þeim hópum sem fá leiðréttingu, og fyrir lok ársins 2026 á að vera búið að ljúka verkefninu um jöfnun laun á milli markaða.

 

Nefnd sem á að dýpka skilning á launaþróun
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB, kynnti í erindi sínu efni skýrslu Kjaratölfræðinefndar sem kom út í október sl. Í Kjaratölfræðinefnd, sem skipuð er af
félagsmálaráðherra, sitja fulltrúar heildarsamtaka launafólks, fulltrúar Samtaka atvinnulífsins, ríkis og sveitarfélaga og forsætisráðuneytisins, ásamt fulltrúa frá Hagstofunni og situr Ingibjörg Sigríður í nefndinni fyrir hönd BSRB. Nefndin var stofnuð í kjölfar síðustu kjarasamninga á almenna launamarkaðinum og fjallar hún um launatöflur launafólks. Hagstofa Íslands heldur utan um tölulegt starf nefndarinnar og markmið hennar eru að dýpka skilning á hagtölum launafólks á Íslandi. Í skipunarbréfi kemur fram að nefndin á að stuðla að sameiginlegum skilningi á eðli, eiginleikum og þróun hagtalna og að auki að fylgjast með gerð og þróun kjarasamninga þar sem launaliðurinn skiptir mestu máli.

 

Lægstu launin hækkuðu mest
Sigríður Ingibjörg fór yfir breytingu á launavísitölu hópa á vinnumarkaði og vísitölu neysluverðs á tímabilinu mars 2019 til júlí 2021. Þar kom fram að opinberir starfsmenn fengu launahækkanir umfram launafólk á almenna markaðnum um 4,8 prósent en þar skipti mestu hækkun á launum þeirra sem eru á lægstu laununum. Hækkaði launavísitalan á þessu tímabili um 17,2 prósent og að meðaltali um 8,2 prósent.


Vinnustímastyttingin vegur þungt í launavísitölu hjá hinu opinbera því þær mælast inn í launahækkanir eins og um markaðslaun væri að ræða og munar þar um að á almenna markaðnum var stytting vinnuvikunnar að meðaltali 9 mínútur á dag en á opinbera markaðnum 13 mínútur á dag, allt að 4 klukkustundir á viku, og jafnvel 8 klukkstundir á viku hjá vaktavinnufólki. Sigríður Ingibjörg áréttaði að þetta þyrfti að hafa í huga þegar launaþróunin er skoðuð, þ.e. að það sé eðli krónutölusamninga að lægri laun hækki hlutfallslega meira en hærri laun. Þegar launatöflur séu skoðaðar komi í ljós, eins og vitað er, að launafólk á opinbera launamarkaðnum sé á lægri launum en á almenna launamarkaðnum.

Í máli Sigríðar Ingibjargar kom fram að stytting vinnuvikunnar reiknast inn í launatöflur um 6,8 prósent á opinbera markaðnum en alls ekki, eða í miklu minna mæli, á almenna markaðnum. Það segir sína sögu.

Í lok fundarins fór Þórarinn Eyfjörð yfir rekstraruppgjör félagssjóðs og orlofssjóðs yfir átta mánaða tímabil.