Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

1. desember 2021

Bakar sörur og gætir fanga

Victor Gunnarsson er formaður Fangavarðafélags Íslands. Ljósmynd/BIG

Victor Gunnarsson er formaður Fangavarðafélags Íslands. Við spjöllum við hann í nýjasta tímariti Sameyki sem fer í póst til félagsfólks á mánudaginn kemur. Þar spjallar hann um störf fangavarða og við skyggnumst aðeins á bak við tjöldin í lífi hans og einnig starfi sínu sem formaður Fangavarðafélagsins. Við komumst að því að hann listagóður bakari og bakar ávallt sörur fyrir jólin sem þykja svo góðar að frægt er orðið meðal félaga hans í Fangavarðafélaginu.

En fyrst og fremst er Victor fangavörður sem hefur starfað við það í 20 ár. Hann segir að honum finnist Fangavarðafélagið hafa verið í mikilli ládeyðu í tengslum við COVID-19 faraldurinn og að fangaverðir almennt ættu að standa þéttar saman um félagið og nýta það til að gæta að kjaramálum sínum og réttindum almennt. Mikilvægi þess að eiga slíkt fagfélag hefði sýnt sig þessi misserin í tengslum við styttingu vinnuvikunnar og allt það starf sem Fangavarðafélagið hefði þurft að sinna til að gæta að réttindum félagsfólks með Sameyki sem bakhjarl.

„Við vorum bara þrjú eftir í félaginu og ég ákvað, ásamt félögum mínum þar, að reyna að rífa það á lappirnar og fara að gera eitthvað. Stjórnin sem þá var hætti, eða kannski má segja að hún hafi fjarað út, svo kosið var til nýrrar stjórnar þar sem ég var kosinn formaður eftir stuttan umhugsunarfrest.“

Tímarit Sameykis er prentað á umhverfisvænan og svansvottaðan pappír. Einnig er blaðið prentað með svansvottuðum jurtalitum en ekki með jarðolíulitum.