6. desember 2021
STANZ - VERKFALLSVERÐIR!
Verkfallsverðir settu upp vegatálma inn til Reykjavíkur. Ljósmyndin er eftir Jón Bjarnason, fyrrverandi blaðamanns á Þjóðviljanum.
Í tímriti Sameykis sem er á leið til félagsmann er umfjöllun um heimildamyndina Korter yfir sjö. Þar segir frá verkfallinu 1955 í Reykjavík sem var eitt harðvítugasta verkfall í sögu landsins. Verkalýðsfélögin lögðu áherslu á félagsleg réttindi en pólitískir straumar réðust oft af kalda stríðinu. Reykjavík var sett í herkví, hafnir lokaðar og vegatálmanir settar upp við alla vegi til borgarinnar með skiltum sem á stóð stórum stöfum STANZ - VERKFALLSVERÐIR. Í þessu verkfalli lagði verkalýðshreyfingin grunninn að því velferðarkerfi eins og við þekkjum það í dag.
Verkfallsverðir tóku olíuskip í gíslingu til að stöðva dælingu úr þeim í Keflavík, úti á Faxaflóa og inni í Hvalfirði. Líkkistur voru meðal annars notaðar undir smygl á vörum til borgarinnar. Smygl var daglegt brauð og oft kom til átaka við vegatálmanirnar en mörg heimili voru þó nánast matarlaus áður en yfir lauk.
Tímarit Sameykis er prentað á umhverfisvænan og svansvottaðan pappír. Einnig er blaðið prentað með svansvottuðum jurtalitum en ekki með jarðolíulitum.