Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

7. desember 2021

Jöfnun launa milli markaða

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis.

Einn mikilvægasti þáttur í samskiptum manna er traust. Fjölmargir þættir í hinu daglega lífi byggja á því og við hegðum okkur og bregðumst við verkefnum dagsins í ljósi þess hversu vel við treystum samferðafólki okkar. Samskipti aðila á vinnumarkaði lúta sömu lögmálum. Í kjarasamningum og við framkvæmd þeirra verður að ríkja traust. Þannig verða samningsaðilar að geta átt í samskiptum sín á milli og unnið að verkefnum sem tengjast framkvæmd kjarasamninga í þeirri vissu að samningar séu virtir.

Um langa hríð hafa laun opinberra starfsmanna verið töluvert lægri heldur en laun á almennum markaði. Að meðaltali eru þau um 16,7 prósent lægri. Í umræðu áranna hafa ýmsir haldið því fram að það væri réttlátur munur því opinberir starfsmenn væru með svo rík réttindi í lífeyrisgreiðslum. Þegar kæmi að greiðslu lífeyris myndi jafnræði nást í ævitekjum vegna hærri lífeyrisgreiðslna til opinberra starfsmanna.

Árið 2016 tókst samkomulag milli ríkis, Reykjavíkurborgar og sveitarfélaga annars vegar og allra opinberra starfsmanna hins vegar um að jafna kjör, bæði hvað varðar launasetningu á starfsævinni og einnig hvað varðar lífeyrisgreiðslur. Fyrir hönd ríkisins undirrituðu forsætisráðherra og fjármálaherra samkomulagið.

Samkomulagið gengur út á að jafna lífeyrisréttindin þannig að réttur launafólks verði sambærilegur hvort heldur sem um er að ræða starfsfólk sem unnið hefur hjá hinu opinbera eða á almenna markaðnum. Leiðréttingu á lífeyrisréttindum starfsfólks á almennum markaði átti að framkvæma á þremur árum og gekk það eftir upp á punkt og prik. Leiðréttingin til opinberra starfsmanna, sem fólst í jöfnun launa á milli markaða, átti að framkvæma á 6 - 10 árum. Launabilið á milli markaða væri að meðaltali um 16,7 prósent og til að jafna það launabil fæli í sér kostnað. Í tímasettri áætlun átti fyrsta skrefið í leiðréttingunni að koma til framkvæmdar þann 1. janúar síðastliðinn. Ekkert bólar á því skrefi enn sem komið er. Og því skyldi það nú vera? Því hefur verið fleygt fram að hjá hinu opinbera sé ekki mikill áhugi á að keyra verkefnið áfram. Að fulltrúar hins opinbera séu að teygja lopann og drepa málinu á dreif innan starfshópsins sem ábyrgðina bera á verkefninu.

Í aðdraganda samkomulagsins frá 2016 varð mikil umræða um hvort ríkinu og sveitarfélögunum væri treystandi til að virða samkomulagið. Í hugum ýmissa félagsmanna lék mikill vafi á því. Margir héldu því hins vegar fram að vinnumarkaðurinn stæði á tímamótum og það væri úrelt fyrirkomulag að launakjör vinnandi fólks væru betri á almenna markaðinum og að lífeyrisrétturinn væri betri hjá opinberum starfsmönnum. Það væri nauðsynlegt að jafna lífeyrisréttindin þannig að jafnræði ríkti á milli launafólks á Íslandi. Réttast væri að gera það strax. Og það var gert. Hins vegar væri jöfnun launa tæknilega flóknara verkefni og því yrði að gefa því verkefni 6-10 ár og ríkinu og sveitarfélögunum væri vel treystandi til að standa við sitt. Nú eru 6 ár liðin og ekkert bólar á framkvæmdinni.

Það er algerlega ljóst að nú er komið að því að taka fyrstu skrefin í framkvæmdinni. Opinberir starfsmenn munu ekki undir neinum kringumstæðum una við það að svæfingalæknum fjármálaráðuneytisins og sveitarfélaganna takist að eyðileggja þetta mikilvæga verkefni. Opinberir starfsmenn krefjast þess að staðið verði að fullu og öllu við jöfnun launa milli markaða og að fyrstu skref í framkvæmdinni verði stigin án tafar. Munum að það voru helstu ráðamenn þjóðarinnar sem skrifuðu undir samkomulagið um þessar gagngeru breytingar. Nú er nýtt þing að hefja störf og nú er tími til kominn að opinberir atvinnurekendur standi við sitt.