9. desember 2021
Seigla og lífsgæði rætt á jólafundi trúnaðarmanna Sameykis
Sigríður Hulda Jónsdóttir t.v. segir að margt fólk sé þreytt í vinnunni en helstu aðferðir til að endurheimta ró og hvíld er ómanngerð náttúra.
Jólafundur trúnaðarmanna Sameykis var haldinn í dag. Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, bauð alla trúnaðarmenn velkomna á jólafundinn sem var haldinn í fjarfundarformi vegna sóttvarnarlaga. Mættir voru 190 trúnaðarmenn.
Jöfnun launa á milli markaða
Þórarinn hóf fundinn með því að fjalla í stuttu máli um stöðuna á verkefninu um jöfnun launa á milli opinbera og almenna launamarkaðarins sem BSRB, BHM og KÍ undirrituðu við ríkið.
Sagði Þórarinn að framganga SA í umræðu um laun á milli markaða hafi einkennst af áróðri og fara fram með rangtúlkunum í fjölmiðlum um stöðu launa hjá opinberum starfsmönnum annars vegar og launafólki á almenna launamarkaðnum hins vegar. Áróður SA gangi út á að opinberir starfsmenn leiði launahækkanir á milli þessara markaða. Það er alrangur málflutningur af hálfu SA og komið hefur margsinnis fram í ræðu og riti hið gangstæða hjá formanni Sameykis og BSRB og lesa má um í tímariti Sameykis og á vef félagsins.
Seigla og lífsgæði
Sigríður Hulda Jónsdóttir sérhæfir sig í fræðslu og ráðgjöf fyrir vinnustaði með áherslu á starfsmannamál og stjórnun, starfsánægju og starfsárangur, álag og krefjandi aðstæður. Hún vinnur með hópa frá Virk og Vinnumálastofnun með áherslu á starfshæfni og persónlega stefnumörkun, lífsviðhorf og trú á eigin getu. Einnig er Sigríður Hulda sérhæfð í færniþáttum atvinnulífsins á 21. öldinni í tengslum við þróun vinnumarkaðar og starfshæfni einstaklinga. Hóf hún sitt erindi á því að segjast ætla opna fyrir trúnaðarmenn einskonar konfektkassa af möguleikum hvernig skal nýta sér lífsgæði í leik og starfi.
Fyrsti molinn í konfektkassanum snérist um hvernig má efla seiglu og hversu mikilvægt er að rækta seiglu og tengsl sem þarf að hlúa að, og því sterkari sem tengsl og félagsstaða er veitir það samkennd, öryggi og ánægju innra með fólki. Góðir samningamenn búa að seiglu og þeir eiga það sameiginlegt að þekkja sjálfa sig, eru opnir fyrir að þiggja og veita aðstoð. Þeir þekkja eigin styrkleika og virði þeirra.
„Hæfileikar eins og yfirvegun og yfirsýn er ekki meðfæddir hæfileikar heldur þarf að rækta þá. Allir geta gert það með því að sigla t.d. ekki beint inn í storminn heldur að bregðast við með því að draga úr ferðinni og finna lausn til að fara framhjá honum. Það skapast öryggi innra með fólki sem fer að temja sér yfirvegun og yfirsýn í stað þess að demba sér ekki inn í vandamál sem komast má hjá. Það getur verið erfitt að rækta með sér yfirvegun en engu að síður mikilvægt. Hver lítill sigur á þessu sviði er mikils virði. Yfirvegun, yfirsýn eru mikilvægir meðvitaðir eiginleikar hjá góðum stjórnendum,“ sagði Sigríður Huld.
Sjálfsábyrgð og sjálfsrækt
Þá fjallaði Sigríður Huld um að taka ábyrgð á sjálfum sér sem mannseskju er mikilvæg öllu launafólki. Ábyrgðin felist ekki síst í að rækta sjálfa sig; hreyfa sig reglulega og huga að eigin þörfum og skoða hugarfar sitt og skapshöfn, gott hollt mataræði osv.frv. Því meðvitaðri um jákvæða þætti og byggja á þeim aukast persónuleikaþættir eins og jákvæðni, sjálfsstjórn, og jákvæðara lundarfar. Það tekur tíma að rækta og byggja með sér þessa persónueiginleika.
Heilsufarsógnir nú á tímum
Ógnir við heilsu okkar í dag, og er andsæðan við það sem rætt var um hér að ofan, er langvarandi streita, einmanaleiki og tilgangsleysi. Þetta ástand hrjáir marg launafólk og við þessu þarf að sporna við. „Margt fólk er þreytt í vinnunni en helstu aðferðir til að endurheimta ró og hvíld er ómanngerð náttúra, slökun, hugleiðsla og hreyfing eins og göngutúrar. Allt ræktar þetta hugann og þá tilfinningu að tilheyra alheiminum. Mikilvægast samkvæmt rannsóknum er þó samveran með ástvinum og fjölskyldu sem nærir fólk á margvíslega vegu og bætir heilsu og líðan,“ sagði Sigríður Huld að lokum.
Orlofsmál
Þóarinn kynnti fyrir trúnaðarmönnum uppbyggingu á orlofssvæðunum í Munaðarnesi og Úlfljótsvatni. Sameyki hefur verið að sækja í sig veðrið í orlofsmálum á orlofssvæði sínu í Munaðarnesi. Mikil uppbygging hefur verið á svæðinu, orlofshús byggð og fjárfest í byggingu á nýjum húsum á fallegasta staðnum í Munaðarnesi, á neðra svæðinu í Eyrarhlíð með útsýni yfir Norðurá.
„Eins hefur félagið hafið endurskipulagningu á lóðum á orlofssvæðinu við Úlfljóstvatn. Ný orlofshús verða byggð í stað þeirra eldri og stefnt verður að álíka glæsilegri uppbyggingu þar eins og í Munaðarnesi. Orlofshúsin verða með öllum helstu þægindum og heitum potti við hvert hús,“ sagði Þórarinn Eyfjörð, fomaður Sameykis að lokum.