Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

14. desember 2021

Stjórnvöld boða stöðnun í fjárlagafrumvarpinu

BSRB kallar eftir auknu fé í heilbrigðisþjónustuna í umsögn um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Ljósmynd/BSRB

Í stað þess að fara í kraftmikla sókn til að vaxa úr efnahagslegri niðursveiflu af völdum heimsfaraldursins boða stjórnvöld stöðnun í nýju fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2022, að því er segir í umsögn BSRB.

Of mikil áhersla er á að stöðva skuldasöfnun þrátt fyrir að skuldaaukning hins opinbera hér á landi vegna faraldursins sé minni en meðal flestra vestrænna ríkja. Þá er hlutfall opinberra skulda langt undir meðaltali vestrænna hagkerfa sem ætti að gefa svigrúm til að blása til sóknar í stað þess að einblína á að stöðva frekari skuldasöfnun.

„Lausnina við langvinnum skaða af Covid-kreppunni er að finna í norræna velferðarlíkaninu. Með eflingu jöfnunarhlutverks skattkerfisins, fullfjármagnaðri almannaþjónustu, sterkri afkomutryggingu og öflugri atvinnuuppbyggingu stuðlum við að velsæld og verðmætasköpun,“ segir meðal annars í umsögn BSRB.

Þar er kallað eftir því að farið verði í aðgerðir til að auka tekjur ríkissjóðs, til dæmis með skattlagningu fjármagns og eigna og frekari gjaldtöku fyrir auðlindir, til að mynda í sjávarútvegi. Þá þarf sérstaklega að efla tekjustofna sveitarfélaga til að þau geti staðið undir nauðsynlegri þjónustu við íbúa.

„Ákalli eftir auknu fé í heilbrigðisþjónustuna, þar sem mönnunarvandinn er víða gríðarlega alvarlegur, er ekki svarað,“ segir í umsögninni. Aukning á fjárheimildum til sjúkrahúsa séu að hluta til viðbrögð við heimsfaraldrinum og að hluta til framlög til byggingar á nýju húsnæði Landspítalans.

Þá eru það vonbrigði að engin breyting sé boðuð á framlögum til almenna íbúðarkerfisins þrátt fyrir erfiða stöðu leigjenda, sér í lagi einstæðra foreldra á leigumarkaði.

Endurskoða þarf barnabótakerfið
BSRB fagnar því að barnabætur séu hækkaðar en kallar eftir því í umsögn sinni að ráðist verði í heildarendurskoðun á barnabótakerfinu. Þar verði að líta til barnabótakerfa á hinum Norðurlöndunum þar sem allir fá sömu bætur óháð efnahag, enda sé barnabótum ætlað að jafna ráðstöfunartekjur innan svipaðra tekjuhópa með ólíka framfærslubyrði.

Bandalagið styður loftslagsmarkmið stjórnvalda en bendir á að nauðsynleg forsenda þess að þau náist sé náið samstarf við verkalýðshreyfinguna um réttlát umskipti. Stórauka verði fjárheimildir til málaflokksins til að metnaðarfullt markmið stjórnvalda um samdrátt í losun náist á næstu níu árum.

Hægt er að lesa umsögn BSRB í heild sinni hér.