25. desember 2021
Ljós og skuggar líðandi árs
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis státtarfélags í almannaþjónustu.
Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu er stærsta stéttarfélag opinberra starfsmanna á Íslandi með um 12 þúsund félagsmenn þannig að fjölmargt gerist á vinnumarkaði sem snertir svo stóran hóp. Af mörgu er að taka og ætla ég að minnast hér á nokkur atriði.
Bylting á vinnumarkaði
Á árinu sem nú er senn á enda stendur upp úr sá áfangi sem samið var um í síðustu kjarasamningum, þ.e. að vinnuvikan hjá flestum félagsmönnum var stytt í 36 vinnustundir hjá dagvinnufólki og allt niður í 32 stundir hjá vaktavinnufólki. Stytting vinnuvikunnar er mikið framfaraskref og bylting á íslenskum vinnumarkaði. Styttri vinnuvika er mikilvægur áfangi til að styrkja velferð almennings með betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Styttri vinnuvika verður til heilla fyrir allt launafólk sem gefst nú tækifæri til að njóta meiri frítíma í einkalífi og með fjölskyldum sínum. Þessi aðgerð er einhver sú mesta og jákvæðasta kerfisbreyting sem gerð hefur verið síðustu fimmtíu ár á íslenskum vinnumarkaði.
Herferðin gegn opinberum starfsmönnum
Það hefur varla farið fram hjá neinum að Samtök atvinnulífsins og taglhnýtingar þeirra halda úti áróðri gegn velferðarkerfi okkar og opinberum starfsmönnum. Samtökin ráðast á opinbera starfsmenn heimtandi að launum hins opinbera starfsmanns verði haldið niðri og helst lækkuð. Þetta er gert með völdum talnabrellum og útúrsnúningum og því haldið fram að laun á opinbera markaðnum séu hærri en á almenna markaðnum. Stærstu fjölmiðlar landsins taka síðan, gagnrýnislaust að því er best verður séð, undir áróðurinn og halda málflutningi Samtaka atvinnulífsins og fleiri hagsmunaaðila á lofti. Við þessum áróðri þarf að bregðast. Staðreyndin er sú að launafólk á opinbera markaðnum er að meðaltali með 16,7 prósent lægri laun en á almenna markaðnum.
Samtök atvinnulífsins halda því einnig fram að opinberum starfsmönnum fjölgi stjórnlaust. Sá málflutningur er auðvitað út úr öllu korti. Velferðarkerfið okkar og opinberir starfsmenn halda innviðum samfélagsins gangandi sem er grunnur að allri almennri velsæld. Öflugt heilbrigðiskerfi, menntakerfi, öflug samtrygging og öll sú fjölþætta opinbera þjónusta sem tryggir öryggisnet okkar allra, skapar réttar forsendur fyrir traust og vöxt í samfélagi siðaðra. Staðreyndin er síðan sú að opinberum starfsmönnum fækkar sé tekið mið af ársverkum miðað við hverja 1000 íbúa landsins. Árið 2011 voru opinberir starfsmenn þannig 52,8 á hverja 1000 íbúa en árið 2020 voru þeir 50,3.
Staðreyndir máls um laun
Árið 2016 tókst samkomulag milli ríkis, Reykjavíkurborgar og sveitarfélaga annars vegar og heildarsamtaka opinberra starfsmanna hins vegar um að jafna kjör, bæði hvað varðar launasetningu á starfsævinni og einnig hvað varðar lífeyrisréttindi. Fyrir hönd ríkisins undirrituðu forsætisráðherra og fjármálaherra samkomulagið, en fyrir hönd allra sveitarfélaga í landinu undirrituðu formaður og framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga. Nú eru 6 ár liðin og ríkið og sveitarfélögin hafa dregið lappirnar við að leiðrétta áðurnefndan 16,7% meðaltals launamun, á meðan opinberir starfsmenn hafa staðið við sinn hluta að fullu – og Samtök atvinnulífsins halda áfram falsfréttum sínum um laun opinberra starfsmanna með stuðningi bæði ráðherra og helstu fjölmiðla landsins. Markmiðið með þessu er augljóslega að veikja stéttarfélög og baráttu launafólks fyrir betra samfélagi og réttlátari skiptingu auðsins.
Reynt að draga úr mætti stéttarfélaga
Barátta næstu ára mun áfram felast í því að vernda réttindi og bæta kjör launafólks bæði á opinbera og almenna vinnumarkaðnum. Það verður engin sátt um þá stefnu stjórnvalda og hagsmunaaðila atvinnurekenda að reyna að draga úr mætti stéttarfélaga í landinu. Það verður ekki annað séð en að þau stjórnvöld sem nú sitja við ríkisstjórnarborðið ætli sér að veikja verkalýðshreyfinguna með því að gefa ríkissáttasemjara boðvald í kjarasamningsviðræðum. Hugmyndin virðist vera sú að kokka upp einskonar yfirvald sem felst í myndun gerðardóms eins og lesa má í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarfið, en þar segir á bls. 50: „Styrkja þarf hlutverk ríkissáttasemjara til að bæta undirbúning og verklag við gerð kjarasamninga, fækka málum sem lenda í ágreiningi og tryggja að kjaraviðræður dragist ekki úr hófi fram, til að mynda með standandi gerðardómi í kjaradeilum sem eykur fyrirsjáanleika og réttaröryggi deiluaðila.“
Þetta verður varla skilið á annan hátt en að stjórnvöld ætli sér að veikja mátt og lýðræðislegan rétt stéttarfélaganna, sem fara með samningsumboð launafólks í kjaraviðræðum. Samtök atvinnulífsins ljóma af hrifningu og hylla þessi áform. Ljóst er að markviss herferð er hafin gegn réttindum launafólks, stéttarfélögum og heildarsamtökum þeirra á Íslandi.
Húsnæðismarkaðurinn
Sameyki er í heildarsamtökum opinberra starfsmanna innan BSRB, sem ásamt ASÍ stofnaði Bjarg íbúðafélag til að vinna gegn þeirri miklu kreppu á leigumarkaði sem margar fjölskyldur búa við. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.
Íslensk stjórnvöld hafa ekki markað sér stefnu til framtíðar varðandi húsnæði fyrir tekjulágt fólk á vinnumarkaði. Þess vegna brugðust samtök launafólks við og hófu mikla uppbyggingu á húsnæðismarkaði þar sem þörfin fyrir óhagnaðardrifin leigumarkað var aðkallandi. Bjarg íbúðafélag afhenti á haustmánuðum íbúð númer 500 og er með annan eins fjölda í undirbúningi á ýmsum byggingarstigum. Bjarg hefur þess utan lækkað húsaleigu leigjenda sinna um allt að 14 prósent á árinu. Áfram verður unnið með þessa hugmynda- og aðferðafræði og hún höfð að leiðarljósi hjá Bjargi.
En betur má ef duga skal. Það þarf að tryggja áfram uppbyggingu á óhagnaðardrifnum íbúðafélögum og þar eru BSRB og ASÍ að teikna upp fyrstu skrefin að nýrri hugmynd um íbúðafélag sem náð getur til fjölmennari hóps launafólks. Á sama tíma er nauðsynlegt að stjórnvöld og regluverkið tryggi kaupendum fasteigna festu og öryggi þannig að stjórnleysi og græðgi markaðarins og vísitölutrygging húsnæðislána setji fjölskyldur ekki út á guð og gaddinn. Í það verk þarf stjórnvöld sem hafa dug og þor til að bera hag almennings fyrir brjósti og setja upp regluverk sem heldur utan um almenning á þessum truflaða markaði.
Baráttan fyrir bættu samfélagi og réttindum launafólks, bæði á opinbera- og almenna markaðnum, heldur áfram.
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu
Greinin birtist fyrst á vef Kjarnans.