27. desember 2021
Vendipunktar líðandi árs
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu.
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis segir í skoðanagrein sinni sem birtist á Kjarnanum að Samtök atvinnulífsins halda úti áróðri gegn velferðarkerfinu og opinberum starfsmönnum. „Það hefur varla farið fram hjá neinum að Samtök atvinnulífsins og taglhnýtingar þeirra halda úti áróðri gegn velferðarkerfi okkar og opinberum starfsmönnum. Samtökin ráðast á opinbera starfsmenn heimtandi að launum hins opinbera starfsmanns verði haldið niðri og helst lækkuð. Þetta er gert með völdum talnabrellum og útúrsnúningum og því haldið fram að laun á opinbera markaðnum séu hærri en á almenna markaðnum. Stærstu fjölmiðlar landsins taka síðan, gagnrýnislaust að því er best verður séð, undir áróðurinn og halda málflutningi Samtaka atvinnulífsins og fleiri hagsmunaaðila á lofti. Við þessum áróðri þarf að bregðast.“
Þá segir Þórarinn að þrátt fyrir samkomulagið sem undirritað var 2016 á milli heildarsamtaka opinberra starfsmanna og ríkisins hafi ríkið og sveitarfélögin ekki staðið við sinn þátt í því að leiðrétta launamuninn milli markaða. „Nú eru 6 ár liðin og ríkið og sveitarfélögin hafa dregið lappirnar við að leiðrétta áðurnefndan 16,7% meðaltals launamun, á meðan opinberir starfsmenn hafa staðið við sinn hluta að fullu – og Samtök atvinnulífsins halda áfram falsfréttum sínum um laun opinberra starfsmanna með stuðningi bæði ráðherra og helstu fjölmiðla landsins.“
Formaður Sameykis segir að stjórnvöld vinni að því að veikja lýðræðislegt samningsumboð launafólks með því að efla vald ríkissáttarsemjara eins og kemur fram í sáttmála ríkisstjórnarinnar. „Það verður ekki annað séð en að þau stjórnvöld sem nú sitja við ríkisstjórnarborðið ætli sér að veikja verkalýðshreyfinguna með því að gefa ríkissáttasemjara boðvald í kjarasamningsviðræðum. Hugmyndin virðist vera sú að kokka upp einskonar yfirvald sem felst í myndun gerðardóms eins og lesa má í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarfið.“
Að lokum segir Þórarinn Eyfjörð að ríkisstjórnin skorti framtíðarsýn í húsnæðismálum og bendir á að heildarsamtök opinberra starfsmanna hafi með frumkvæði sínu hafið þá nauðsynlegu uppbyggingu á húsnæði fyrir tekjulágt fólk. „Íslensk stjórnvöld hafa ekki markað sér stefnu til framtíðar varðandi húsnæði fyrir tekjulágt fólk á vinnumarkaði. Þess vegna brugðust samtök launafólks við og hófu mikla uppbyggingu á húsnæðismarkaði þar sem þörfin fyrir óhagnaðardrifin leigumarkað var aðkallandi. Bjarg íbúðafélag afhenti á haustmánuðum íbúð númer 500 og er með annan eins fjölda í undirbúningi á ýmsum byggingarstigum.“
Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.
Lesa pistilinn hér undir Pistlar og greinar.