8. febrúar 2022
Félagsfundaherferð Sameykis um land allt hafin
Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis, Guðmundur Freyr Sveinsson deildarstjór kjaradeildar og Jakobína Þórðardóttir deildarstjóri félagsdeildar.
Þórarinn Eyfjörð setti fyrsta félagsfund Sameykis á Vesturlandi og Vestfjörðum í gegnum fjarfundarbúnað í dag. Haldnir verða líkir fundir um land allt þar sem ýmiss réttinda- og kjaramál verða rædd. Erindi þessa fundar var stytting vinnuvikunnar, áhrif COVID-19 faraldursins á félagsfólk og umræða um jöfnun launa á milli markaða, ásamt umfjöllun formanns Sameykis um fjölmiðlaumræðu Samtaka atvinnulífsins um opinbera starfsmenn.
Kjaramálin rædd
Í upphafi fundarins fjallaði Guðmundur Freyr Sveinsson deildarstjóri kjaradeildar um styttingu vinnuvikunnar í dagvinnu og vaktavinnu sem tók gildi fyrir dagvinnufólk 1. maí á síðasta ári og hjá vaktavinnufólki 1. janúar sl. Greindi hann frá því að ríkisstofnanir og Reykjavíkurborg eru nú komar í 36 stunda vinnuviku en misjafn er hvernig gengur hjá sumum sveitarfélögum með verkefnið því víða vantar upp á að vinnuvikan þar sé fullfrágengin.
„Nú er komin reynsla á þetta og hægt er að horfa bæði í baksýnisspegilinn og fram á veginn og ná þannig í mikilvæga reynslu og þekkingu af verkefninu. Áskorun hefur verið á sumum vinnustöðum að stytta vinnuvikuna þar sem þjónustan snýr að leik- og grunnskólum og í fangelsum t.d. Á leik- og grunnskólum er vinnufyrirkomulagið á sumum vinnustöðum eins og væri um vaktavinnu að ræða. Einnig er oft mikill miskilningur varðandi neysluhléin. Í samkomulaginu um styttingu vinnuvikunnar á fólk að hafa hefðbundin neysluhlé án þess að skerða laun. Það er alveg á hreinu,“ sagði Guðmundur Freyr.
Mætingarskylda og skrepp
„Í átta tíma vinnukerfum hefur verkefnið gegnið vel en síður vel í tólf tíma kerfunum. Launafólk upplifir að það mætir oftar vegna þess að mætingarskyldan eykst þó að vinnutímafjöldinn hafi ekki aukist. Einnig er óánægja meðal fólks í vaktavinnu yfir því að ekki er hægt að sjá inn í vaktavinnukerfin sem eru skipulögð og því hafa starfsmenn ekki sömu yfirsýn og yfirmenn sem skipuleggja vinnutímann og vegna þess vantar gagnsæi í kerfin,“ sagði hann.
Talaði Guðmundur Freyr um skrepp frá vinnu í vinnutímanum og hvað heyrði undir eðlilegt skrepp í vinnutíma. „Margir hafa sett niður viðverustefnu á sínum vinnustað sem er gott að gera svo allt sé á hreinu hvað skrepp varðar. Eðilegt þykir að fara til læknis, í útfarir, fara með börn til læknis og þess háttar en síður þykir eðlilegt að sinna persónulegum þörfum eins og að fara í heilsurækt, sund, klippingu og þess háttar í vinnutímanum.“
Sagði hann að útfærsla á styttingu vinnuvikunnar á vinnustaðnum sé háð vinnustaðasamkomulagi. Ef ágreiningur kemur upp við atvinnurekanda vegna hennar ráðlagði Guðmundur Freyr launafólki að hafa samband við félagið til að vera vel upplýst áður en farið í samtalið um fyrirkomulagið.
Áhrif COVID-19 á félagsmenn í Sameyki
Jakobína Þórðardóttir deildarstjóri félagsdeildar Sameykis fór yfir könnun sem félagið lét gera fyrir sig um áhrif COVID-19 faraldursins á félagsfólk. Ráðhúsið sá um könnunina sem var ítarleg og fór fram sl. vor. Var hún byggð á svörum frá rúmlega þrjú þúsund félögum í Sameyki. Spurt var um áhrif á andlega og líkamlega líðan félagsfólks í faraldrinum. Sagði Jakobína frá efni könnunarinnar en greinar hafa verið birtar úr niðurstöðum hennar í tímariti Sameykis undanfarið og sú nýjasta er birt í blaðinu sem er nú á leið í pósti til félagsmanna.
Árásir Samtaka atvinnulífsins á opinbera starfsmenn
Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis sagði það alvarlegt hvernig Samtök atvinnulífins halda því ranglega fram að laun opinbera starfsmanna séu alltof há, þeir séu of margir, og þeir leiði launaþróunina. Einnig hefur SA haldið því fram að ríkið sé að taka til sín opinbera starfsmenn af almenna vinnumarkaðnum. Fór hann yfir umfjallanir fjölmiðla um þessi mál og benti á að framsetning þessara hagsmunasamtaka er þannig sett fram að laun ríkisstarfsmanna séu að meðaltali um ein milljón króna á mánuði en staðreyndin sé sú að þau eru í kringum sex hundruð þúsund krónur að meðaltali á mánuði samkvæmt gögnum kjaratölfræðinefndar.
„Launatöflur kjaratölfræðinefndar sýna allt aðrar launatölur en SA heldur fram og í gögnum hennar sést svart á hvítu að sveitarfélögin eru alltaf með lægstu launin. Hæstu launin eru aftur á móti á almenna markaðnum. Þá hefur fjöldi opinberra starfsmanna fækkað frá því 2011 að meðaltali þegar þeir voru 52,8 á hverju þúsund íbúa en eru í dag 50,2 að meðaltali á hverja þúsund íbúa. Í skýrslu kjaratölfræðinefndar kemur fram að í september 2020 fækkaði starfsmönnum um 12 þúsund á almenna markaðnum vegna hruns ferðaþjónustunnar og því er rangt sem haldið er fram af SA að opinberi markaðurinn hafi sogað til sín starfsfólk. Tölurnar tala sínu máli um það,“ sagði Þórarinn.
Einkavæðing innviðanna
Skuldir ríkisins hafa vaxið vegna faraldursins og greindi Þórarinn frá því að hagsmunaaðilar Samtaka atvinnulífsins sjái sér leik á borði að komast yfir innviði þjóðarinnar með því að taka yfir skuldsettar stofnanir sem þjóna almenningi. „Það er greinilegt að SA talar fyrir því að hefja skal einkavæðingu innviða Íslenska ríkisins; vatns- og rafmagnsveitur, félagslega þjónustu, heilbrigðisþjónustu og menntakerfi. Það er þróun sem Sameyki mun berjast gegn að fullum krafti með vitundarvakningu og upplýsingum um þau áform,“ sagði hann.
Jöfnun launa á milli markaða
Þórarinn fjallaði um laun á milli markaða. „Atvinnurekendur sem undirrituðu samkomulagið vilja að taka inn í launaútreikning önnur kjör eins og styttingu vinnuvikunnar, fæðingarorlof o.sv.frv. til að jafna launamuninn á milli opinbera og almenna launamarkaðarsins og þannig ná fram launajöfnun opinberra starfsmanna. Samkomulagið kveður ekki á um það. Slíkir útreikningar teljast ekki til launahækkana. Samkomulagið hvað á um að jafna laun opinberra starfsmanna við almenna launamarkaðinn og var undirritað árið 2016. Launaleiðréttingin á almenna markaðnum hefur að fullu verið framkvæmd með þeim hætti að opinberir starfsmenn lækkuðu rétt sinn til lífeyristöku en áfram er launamunurinn á milli opinbera og almenna launamarkaðarins tæp 17 prósent og hallar á opinbera starfsmenn. Viðræður um þessa launaleiðréttingu er í fullum gangi af hálfu Sameykis þó viðsemjendur vilja túlka samkomulagið með sínum hætti,“ sagði Þórarinn að lokum.
Næsti félagsfundur verður haldinn með fjarfundarbúnaði fyrir félagsfólk á Norðurlandi á morgun 9. febrúar klukkan 10:00. Skráðu þig hér á fundinn.