Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

14. febrúar 2022

BSRB fagnar 80 ára afmæli bandalagsins í dag!

Það væri sannarlega tilefni til að blása í lúðra í tilefni af 80 ára afmæli BSRB en staðan á heimsfaraldrinum býður ekki alveg upp á það.

Sameyki óskar BSRB til hamingju með 80 ára afmælið í dag.  Á vef BSRB segir að í dag sé full ástæða til að óska rúmlega 23 þúsund landsmönnum til hamingju með afmælið. BSRB á 80 ára afmæli í dag, 14. febrúar. Bandalagið samanstendur af 19 öflugum stéttarfélögum með rúmlega 23 þúsund félagsmenn og það eru þeir sem eiga þennan dag enda er bandalagið til fyrir félagsmennina.

BSRB hefur í 80 ár verið samstarfsvettvangur opinberra starfsmanna og þeirra leið til að virkja samstöðuna til að berjast fyrir betri kjörum. Það eru fjölmargir ólíkir hópar sem eiga aðild að bandalaginu. Í okkar röðum er fólk sem starfar við umönnun, í grunnskólum, leikskólum, í löggæslu, við slökkvistörf og sjúkraflutninga, flugsamgöngur, heilbrigðisþjónustu, þjónustu við fatlað fólk, póstþjónustu, stjórnsýslu og ótal margt fleira.

„Við höfum þurft að berjast fyrir öllum þeim árangri sem hefur náðst í gegnum þessa 80 ára sögu BSRB og sú barátta hefur stundum verið harkaleg. En árangurinn er líka eftir því,“ skrifar forysta bandalagsins í bréfi til félagsmanna í tilefni af þessum tímamótum. Til stóð að fagna þessum tímamótum með félagsmönnum en sökum heimsfaraldursins verður það að bíða betri tíma.

„Nú styttist í að kjarasamningar verði lausir enn á ný og undirbúningurinn að hefjast hjá aðildarfélögunum. Við vitum ekki hverjar áherslurnar verða í kjaraviðræðunum. Það eru okkar frábæra félagsfólk sem varðar þá leið. En hverjar sem kröfurnar verða er ljóst að til þess að ná árangri verðum við að vera tilbúin í baráttuna saman. Það er gríðarlegur styrkur að vita til þess að rúmlega 23 þúsund félagar í aðildarfélögum BSRB standa saman og séu tilbúnir í baráttuna fyrir bættum kjörum og betri starfsaðstæðum,“ segir jafnframt í bréfi forystu BSRB til félagsmanna þar sem þeim er þakkað fyrir samvinnuna, stuðninginn og samstöðuna.

Lestu bréf forystu BSRB til félagsmanna aðildarfélaga bandalagsins hér.