21. febrúar 2022
Byggjum til að leigja
Jökull Sólberg Auðunsson.
Í grein á vef Stundarinnar vekur Jökull Sólberg Auðunsson frumkvöðull athygli á stöðunni á húsnæðismarkaðnum hér á landi. Í grein sinni Byggjum til að leigja og birtir hann samanburð á húsnæðismarkaðnum eftir löndum í Evrópu og mismundandi rétt leigjenda á húnsnæðismarkaði. „Samkvæmt nýjustu skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um stöðu og þróun húsnæðismála er hlutfall leigjenda 17% á Íslandi og hefur farið lækkandi. Um 10% búa í foreldrahúsum og 73% búa í eigin húsnæði.
Í Danmörku búa 59% í eigin húsnæði. Sviss er með hærra hlutfall leigjenda en íbúa í eigin húsnæði og í Þýskalandi er hlutfallið jafnt. Ísland hefur lægra hlutfall leigjenda en t.d. Frakkland, Svíþjóð, Austurríki og Holland. Meðaltal leigjenda í Evrópusambandsríkjunum er 30%. Þar sem hlutfall leigjenda er hátt í Evrópu er öllu jafna sterkari réttur leigjenda. Leigjendur geta oft endurnýjað leigusamninga sína án þess að leigan hækki mikið. Víða er komið á svokallaðri leigubremsu til að auka fyrirsjáanleika fyrir báða aðila. Eins og með alla markaði þá blómstra þeir þegar hlúið er að þeim með eftirliti, sanngjörnum reglum, fyrirsjáanleika og réttindum kaupenda sem og seljenda.“
Þá varpar hann ljósi á þá staðreynd hvernig lífeyrissjóðir fjárfesta og segir að Íslenskir lífeyrissjóðir fjarfesti mun minna en aðrir lífeyrissjóðir á meginlandinu í húsnæði til leigu en í Evrópu sé það meginstefið nú að fjárfesta í svokallaðri byggja-til-að-leigja stefnu. „Þar sem hlutfall leigjenda er hvað hæst, t.d. Sviss, Þýskalandi og Austurríki, eru stórir lífeyrissjóðir að byggja hús með a.m.k. 50 íbúðum, sérstaklega fyrir útleigu. Með þessu skapast stærðarhagkvæmni og samfella í rekstri eignanna.“
Enn fremur segir Jökull Sólberg í grein sinni að lífeyrissjóðirnir þurfi að hugsa til framtíðar og fjárfesta í stefnunni byggja-til-að-leigja og þannig eigi beinan þátt í því að hemja þennslu á húsnæðismarkaðnum til að jafna leikinn nær eðlilegum húsnæðishækkunum. „Hækkanir umfram verðlag ár eftir ár eru ekki sjálfbærar. Slíkar hækkanir eru fleygur sem er rekinn dýpra og dýpra milli kynslóða og þeirra sem eiga og eiga ekki. Til að jafna leikinn og færa húsnæði nær eðlilegum verðlagshækkunum er frábært fyrsta skref að auka hlut leiguhúsnæðis á Íslandi.“
Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis tekur í svipaðan streng í leiðara tímarits Sameykis, Barátta er framundan, sem nýkomið er út. Þar segir hann að krafan um að húsnæðiskerfinu verði stýrt með hagsmuni almennings að leiðarljósi verði ávallt háværari og bendir á að það sé meðvituð ákvörðun stjórnvalda að stýra ekki húsnæðismarkaðnum.
„Það er meðvituð ákvörðun að stýra ekki húsnæðismarkaðnum og láta frumskógarlögmálið ráða. Það er einnig meðvituð ákvörðun stjórnvalda að heimila fjármagninu að mergsjúga fjölskyldur landsins reglulega. Við það er ekki lengur hægt að una. Í komandi kjarasamningum verður margt undir. Launahækkanir, tryggingar á vaxandi kaupmætti, réttmæt skipting sameiginlegra auðlinda, breytingar á skattkerfinu þannig að hinir vel stæðu greiði meira til samneyslunnar og margt fleira.“