Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

24. febrúar 2022

Húsnæðismál, kjaramál, vellíðan rætt á trúnaðarmannaráðsfundi

Félagsfólk í Sameyki.

Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis setti fund í trúnaðarmannaráði Sameykis í dag og kynnti fyrir ráðinu íbúafélagið Blæ sem er í eigu BSRB og ASÍ. Sagði hann að Blær sé hugsað sem leigufélag fyrir félagsmenn og ætlað að byggja hægkvæmt leiguhúsnæði með áherslu á litla arðsemi eigenda þess. „Það á að vera ódýrt og hagkvæmt fyrir leigjendur til langs tíma. Leiguverðið mun vera fast við vísitölu en ekki munu koma upp einhverjar ófyrirséðar geðþóttahækkanir á húsaleigunni,“ sagði Þórarinn.

Blær er án hagnaðarmarkmiða í þeim skilningi að fjárfestingin sem sett er í uppbygginguna skili sér á löngu tímabili með hóflegri um arðsemi.

Vellíðan og vöxtur á vinnustað
Jakobína Þórðardóttir kynnti könnun Stofnun ársins en hátíðin verður sett 16. mars klukkan tvö þar sem verðlaun og viðurkenningar verða veittar þeim stofnunum og vinnustöðum sem sköruðu framúr í könnuninni fyrir árið 2021. Í kjölfarið sama dag verður sett málþing sem nefnist Vellíðan og vöxtur um betri vinnutíma. Þeir sem halda þar erindi verða Sóley Kristjánsdóttir og nefnist erindi hennar Rödd starfsmanna, Bára Hildur Jóhannsdóttir fjallar um Betri vinnutíma, Guðrún Snorradóttir um vellíðan og vöxt á vinnustað og loks ræðir Auðunn Arnórsson um efni meistararitgerðar sinnar Heilindi og þátttökustjórnun.

Fjölbreytt fræðsla á vegum Sameykis
Jóhanna Þórdórsdóttir kynnti fræðslumál Sameykis og hvatti trúnaðarmenn til að auka við þekkingu sína með því að taka þátt í þeim námskeiðum og námi sem Sameyki í samstarfi við Framvegis og Fræðslusetursins Starfsmennt býður. Kynnti hún ennfremur þau fræðslunámskeið sem verða í boði síðar á þessu ári. Jóhanna sagði að Gott að vita námskeiðin séu hugsuð út frá áhugamálum fólks og markmiðið sé að bæta við þekkingu og auka ánægju félagsfólks við sín áhugamál. Margt nýtt er einnig hægt að læra á þessum námskeiðum og ekki síst eru slík námskeið frábær leið til að kveikja áhuga á nýjum áhugamálum.

Heimavinna og áróður
Guðmundur Freyr Sveinsson deildastjóri Kjaradeildar fór víða yfir kerfisbreytinguna sem hefur orðið með styttingu vinnuvikunnar. Hann fjallaði um þá reynslu sem nú hefur skapast síðan þessi kerfisbreyting var innleidd á vinnustöðunum. Sagði Guðmundur Freyr að 40 prósent hefði verið að vinna heima í heimsfaraldrinum, 60 prósent af þeim hefðu verið jákvæðir en minna bar á þeim sem voru neikvæðir gagnvart því að vinna heima. Má nefna að fólk saknar vinnustaðarins, hitta vinnufélaga og það tapar hreyfingu og einnig þeim fjölbreytileika tilverunnar sem það er að fara á vinnustaðinn. Þá sagði Guðmundur Freyr að málflutningur þeirra sem leiða almenna vinnumarkaðinn sé ekki réttur þegar þeir halda því fram að opinberi launamarkaðurinn leiði launaþróunina. „Þetta sé áróður sem Sameyki hefur verið að bregðast við. Það sama á við þegar Samtök atvinnulífsins halda því fram að opinberum störfum hafi verið að fjölga. Hið rétta er að þeim hefur verið verið að fækka miðað við hverja þúsund íbúa frá árinu 2011 eins og fram kemur í tímariti Sameykis.“
Sagði Guðmundur Freyr að lokum að félagsfundum verði fjölgað núna í mars þar sem bætt verður nýjum fundartíma við til að mæta óskum félagsfólks. Verða þeir haldnir 8. mars og 11. mars.