Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

14. mars 2022

Sálrænt öryggi í heimsfaraldri

„Því það er þannig, að ein af okkar grundvallar þörfum er þörfin fyrir sálrænt öryggi. Hún er jafnmikilvæg og þörfin fyrir mat, drykk og húsaskjól.“

Eftir Þórkötlu Aðalsteinsdóttur

Nú hafa vinnustaðir verið að kljást við veiruna í tæp tvö ár. Það þýðir að öll höfum við þurft að sveigja okkur og beygja, breyta siðum og venjum, vera langtímum saman einsömul í okkar vinnu eða vera í vinnunni og spritta hendur og bera grímur dagana langa. Ekki síst höfum við þurft að þrauka án náinna tengsla við vinnufélaga, sjá framan í hvort annað og njóta gleðistunda utan vinnunnar. Þetta hefur áhrif á móralinn – það er óhjákvæmilegt.

Við höfum þörf fyrir að spegla okkur milliliðalaust í samskiptum við aðra, þannig fáum við að vita að það sé í lagi með okkur. Þannig komum við í veg fyrir misskilning, sköpum traust og eigum auðveldara með að hlaupa saman í takti í krefjandi verkefnum. Þannig uppfyllum við þörf okkar fyrir sálrænt öryggi. Fáum tilfinningu fyrir því að það verði í lagi með okkur og við sjálf séum í lagi. Því það er þannig, að ein af okkar grundvallar þörfum er þörfin fyrir sálrænt öryggi. Hún er jafnmikilvæg og þörfin fyrir mat, drykk og húsaskjól. Það er þessi þörf fyrir að vita að það verður í lagi með okkur. Að uppfylla þessa þörf hjálpar okkur að halda lífi og minnir okkur á að gæta okkar, taka ekki óþarfa áhættu, sýna ekki fífldirfsku og skipuleggja líf okkar af skynsemi út frá þekktum forsendum. Þegar við náum illa að uppfylla þessa þörf er stutt í vanmátt, reiði, ótta og pirring.

 

Óvissan, kvíði – einelti
Covidbylgjurnar henda okkur fram og til baka. Og þessi reynsla reynir á taugar, eykur kvíða og styttir pirringsþráðinn. Orkan er minni og leiðir til að ná í orku færri og flóknari. Við vorum heima að vinna, við fengum svo að fara í vinnuna og fórum svo aftur heim að vinna. Og margir hafa misst vinnuna, hafa enga vinnu að fara til. Og þetta ástand skapar spennu, eykur tortryggni og setur okkur frekar í vörn gagnvart öðrum. Við missum okkur frekar í baktal, búum til samsæriskenningar og verðum neikvæð gagnvart verkefnum og fólki. Hér liggur sú hætta að til verði jarðvegur fyrir samskiptaerfiðleika og jafnvel einelti innan vinnuhóps.

Einelti er eins og við vitum neikvæð og niðurlægjandi framkoma sem er erfitt að verjast og leiðir til vanlíðunar hjá þeim sem fyrir því verður. Í aðstæðum og ástandi sem hefur skapast í faraldrinum á mörgum vinnustöðum er meira óöryggi, meiri þreyta og meiri óvissa en í venjulegu árferði. Þá þarf að vanda sig meira og vera meðvitaðri um það hvernig við erum í samskiptum og hvað árangursrík og jákvæð samskipti fela í sér.

 

Virðing, vörn gegn einelti
Gott er að hafa þrennt í huga sem forvörn gagnvart einelti og niðurrífandi samskiptum. Í fyrsta lagi að muna að bera virðingu fyrir hvert öðru þó við stundum skiljum ekki hvort annað eða erum hjartanlega ósammála í grundvallaratriðum. Öll eigum við rétt á því að borin sé virðing fyrir okkar sjónarmiðum, fyrir okkar upplifunum og líðan. Það þýðir ekki að við setjum ekki mörk ef okkur finnst að vaðið sé yfir okkur. Það er skylda hverrar manneskju gagnvart sjálfri sér að að setja skýr, heilbrigð mörk þó þau þurfi auðvitað að vera sveigjanleg og breytileg miðað við aðstæður. Í öðru lagi að muna að við berum ábyrgð á okkar hegðun, okkar þætti í samskiptum og okkar líðan. Engin önnur manneskja getur borið ábyrgð á öðrum en sjálfri sér, sinni líðan, viðbrögðum eða samskiptum. Ef fólk vandar sig í samskiptum við aðra eru auknar líkur á að þau verði bæði árangursrík og jákvæð. Í þriðja lagi að muna að halda í lausnarmiðuð viðhorf. Sama hvað bjátar á, við þurfum að sannfæra okkur um að við finnum leið, vitum kannski ekki hvaða leið eða hvenær en ef við höldum áfram að reyna þá kemur lausn. Að vinna með fólki sem er lausnarmiðað og til samvinnu reiðubúið er ótrúlega gefandi og skemmtilegt, líka í mótbyr. Reynum að vera í þeim flokki.

Sem sagt – virðing, ábyrgð og lausnarmiðuð viðhorf bera okkur langt og er besta forvörnin gegn einelti, árekstrum og vanlíðan á vinnustað.

 

Umhyggja fyrir öðru fólki og okkur sjálfum
Höfum líka samúð og samlíðan með hvert öðru og ekki síst okkur sjálfum. Við þurfum að hlusta á andlega og líkamlega líðan. Andlega þreytan er lúmsk. Að lifa með utanaðkomandi ógn sem hefur ógnað okkar heilsu tekur af okkur lúmskan toll. Að ná ekki að næra okkur með þeim leiðum sem við erum vön, ferðalögum, halda veislur, hitta vini, fara í leikhús, tónleika, gerir lífið fábreyttara og getur svo sannarlega aukið innilokunarkennd, einmanaleika og depurð.

En við höfum þó lært alveg heil ósköp á þessu ári. Við höfum lært að það er gott að búa í fjölskylduvænu samfélagi og eiga „jólakúlur“ og „páskaegg“ að hverfa til. Við höfum lært að við höfum meiri sveigjanleika en við trúðum að væri hægt að búa yfir. Við höfum verið rækilega minnt á hvað list í öllum sínum formum er okkur mikilvæg – bæði vegna þess að það er þrengt að þessum formum sem við söknum mikið en líka vegna þess að þá sækjum við í önnur form listar og hún hjálpar okkur svo sannarlega að lifa af.

Hvert og eitt okkar hefur líka lært að við búum yfir eiginleikum, þrautseigju, þolgæði og hæfni til að hafa ofan af fyrir okkur með nýjum leiðum. Mörg okkar hafa fengið að kynnast því hvað við eigum duglega og lausnarmiðaða vinnufélaga. Við höfum líka kynnst því hvað við eigum framúrskarandi gott og sterkt fagfólk á svo mörgum sviðum í okkar röðum. Það eykur sálrænt öryggi svo sannarlega. Þessari reynslu búum við að, svo framundan eru fróðlegir og frjóir tímar!


Höfundur er framkvæmdastjóri og sálfræðingur hjá Lífi og sál sálfræði- og ráðgjafastofu.

Greining birtist í tímariti Sameykis.