Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

17. mars 2022

„Við þurfum hjálp“

Flóttamenn á lestarstöð í Kyiv í Úkraínu. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Á fundi NSO (Norræn samtök ríkisstarfsmanna) sem haldinn var í morgun var rætt um stríðið í Úkraínu ásamt stuðningi stéttarfélaga ríkisstarfsmanna á Norðurlöndunum við Úkraínu. Oksana Huz sem vinnur hjá stéttarfélagi ríkisstarfsmanna í Úkraínu en er nú stödd í Svíþjóð sagði á fundinum frá ástandinu vegna innrásar Rússlands í Úkraínu og störfum ungliðahreyfingar stéttarfélgs síns sem berjast gegn stríðinu og falsfréttum sem streyma inn í landið frá stjórnvöldum í Rússlandi. Hún sagði mikilvægt að finna þá samstöðu gegn innrásinni sem ríkir meðal stéttarfélaga opinberra starfsmanna á Norðulöndunum og Evrópu allri.

Stríðið snýst líka um áróður
Oksana sagði að rússar bera út áróður um að Úkraína sé gervi lýðveldi. Þeir hafa tekið borgarstjóra og bæjastjóra höndum í Úkraínu og reyna að telja þeim trú um að stjórnvöld í Kreml séu að stofna nýtt lýðveldi í Úkraínu. „Við reynum að hafa samband við almenning og stjórnendur ríkisstofnana til deila réttum upplýsingum um stöðuna, þeir [rússar] dreifa lygum um að forsetinn okkar sé að gefast upp og þeir séu að frelsa Úkraínu og stofna nýtt lýðveldi. Þeir halda áfram að sprengja sprengjur á stöðum þar sem fólk hefst við í skjóli frá þeim. Takmarkið þeirra er að sprengja þá staði sem fólk hefst við í skjóli frá sprengjuárásum, reyndar sprengja rússar sprengjur allsstaðar, og almenningur er skotmamarkið ásamt stofnunum ríkisins. Þeir ráðast á innviði Úkraínu með því markmiði að lama alla þjónustu við almenning; lyf, mat, fatnað, rafmagn og jafnvel vatn er erfitt að fá og því þurfum við alla mögulega hjálp sem hægt er að veita,“ sagði Oksana.

Hún segir að verið sé að byggja upp upplýsinganet fjölda ungs fólks sem hefur starfað í stéttarfélögum ríkisstarfsmanna ásamt stúdentum í landinu. „Við reynum að byggja upp net samskipta ungs fólks innan stéttarfélaganna hjá hinu opinbera, við höfum líka verið í sambandi við stúdenta í Svíþjóð til að hjálpa við að deila réttum upplýsingum um stríðið og undirbúa hópa sjálfboðaliða til að koma þeim upplýsingum áfram til annarra stofnanna, eins og heilbrigðisstofnana og þeirra sem starfa t.d. í kjarnorkuverum og öðrum stofnunum ríkisins. Við reynum einnig að dreifa lyfjum til fólks á vettvangi og erum einnig í sambandi við fjölmiðla til að halda söguþræðinum sönnum um stríðið. Réttar upplýsingar af stríðinu og þessum árásum Rússlands eru gríðarlega mikilvægar.“

Rússar vilja eyða markvisst gögnum
Oksana sagði á fundinum að öll stéttarfélög á opinbera vinnumarkaðnum reyna að sýna þeim samstöðu. „Félagar okkar í Svíþjóð hafa heimsótt okkur til að sýna samstöðu í þessari hryllilegu stöðu sem við erum í. Við vitum það vel að í öllum bæjum og borgum í Úkraínu eru félagar í verkalýðsfélögum og þannig eru ungliðahreyfing þessara félaga að eflast vegna þess að við höfum markvisst unnið í því að finna okkar fólk á þessum stöðum og reyna að virkja það enn frekar og búa til þétt net á meðal okkar. Við vissum það frá því innrás Rússa hófst á Krímskaga 2014 að lífið í Úkraínu myndi breytast og hefur ungliðahreyfing opinberra starfsmanna unnið að því síðan þá að rafvæða öll skjöl stéttarfélagsins í landinu því Rússar vilja eyða markvisst öllum upplýsingum og staðreyndum um störf opinberra stofnana.

Nú höfum við fengið reynslu í því hvernig við getum brugðist við stríði og við getum miðlað þeim upplýsingum til annarra stéttarfélaga og sambanda sem áfram geta miðlað þeim upplýsingum til stofnana og stjórnvalda annars staðar. Við erum hjálparþurfi og ég vil benda á örugga leið til að senda styrki til hjálpar almenningi sem notað er í að útvega nauðsynjar eins og lyf, mat og fatnað og aðra neyðarhjálp í gegnum vefsíðuna Union to Union.“ sagði Oksana Huz að lokum.

Yfirlýsing NSO sem samþykkt var á fundi sambandsins á fimmtudaginn sl.