Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

7. apríl 2022

Í áfalli eftir uppsagnir hjá Vinnumálastofnun

Unnur Sverrisdóttir er forstjóri Vinnumálastofnunar

Kon­urnar lýsa þess­ari fram­komu þannig að komið hafi verið fram við þær eins og saka­menn. Yfir­menn hafi lokað sig af áður en til upp­sagn­anna kom, við­mót þeirra hafi verið kulda­legt og þeim sýnd van­virð­ing.

Í frétt sem Kjarninn birtir í dag segir að Vinnumálastofnun hafi sagt upp upp fimm konum í lok mars og segja þær að uppsagnirnar hafi verið óvæntar og framkoma stjórnenda hafi verið ofbeldiskennd, ógnandi og niðurlægjandi í þeirra garð.

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis segir í viðtali á vef Kjarnans að ekki hafi verið farið eftir leiðbeiningum til stjórnenda um uppsagnir ríkisstarfsmanna vegna rekstrarlegra ástæðna heldur „vaðið í starfsmennina“ án nokkurs aðdraganda með órökstuddum fullyrðingum um að ástæða uppsagnanna væri hagræðing í rekstri og uppsagnir nauðsynlegar til að mæta aðhaldskröfu, eins og segir í fréttinni.

Þá kemur fram í frétt Kjarnans að Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar hafi í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans, þar sem hún er spurð hvort rétt hafi verið staðið að þessum uppsögnum og öllum ferlum fylgt, að hún sem forstjóri sé bundin þagnarskyldu um allt sem lýtur að málum einstakra starfsmanna hjá stofnuninni og sé henni því ómögulegt að svara þeim spurningum sem blaðamaður setur fram í fyrirspurninni.

Þórarinn segir að konunum hafi verið gert skylt að yfirgefa vinnustaðinn samstundis og reynt að sjá til þess að þær yfirgæfu vinnustað sinn til margra ára til þess að koma í veg fyrir að þær hittu starfsfélaga sína. Óskum um að ljúka vinnudeginum hafi verið hafnað og öllum aðgangi þeirra að tölvukerfum, póstforritum og innra samskipta­neti sem starfi þeirra tengdist hafi verið lokað um leið og þeim var vísað út.

Frétt birtist á Kjarninn.is