Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

27. apríl 2022

Endurmat á störfum kvenna og hagfræði rædd á fundi fulltrúaráðs Sameykis

Ásgeir Brynjar Torfason, doktor í fjármálum.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur hjá BSRB, og Ásgeir Brynjar Torfason, doktor í fjármálum, fluttu erindi um endurmat á störfum kvenna annars vegar og hins vegar hagfræðikenningar Mariana Mazzucato um breytta hagfræði til bjargar heiminum á fundi fulltrúaráðs Sameykis sem haldinn var í gær.

Skýrsla starfshóps um endurmat á störfum kvenna
Sigríður Inibjörg, hagfræðingur hjá BSRB, fjallaði um endurmat á störfum kvenna. Fór hún yfir hlutverk starfshóps sem settur var á laggirnar af forsætisráðherra til að leggja fram tillögur um endurmat á virði kvennastarfa og innihald skýrslu sem hópurinn hefur skilað til ráðherrans. Í skýrslunni er farið ítarlega yfir endurmat á störfum kvenna ný nálgun kemur þar fram á þessu málefni.

Sagði Sigríður Ingibjörg að vinnumarkaðurinn sé mjög kynskiptur og í umræddri skýrslu er fyrst og fremst verið að fjalla um skiptingu vinnumarkaðarins og hvernig sú skipting skýrir kynbundinn launamun.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur hjá BSRB.

 

„Hjá hinu opinbera er um 80-90 prósent starfsfólks í heilbrigðis- og menntakerfunum konur. Er í raun verið að greiða fyrir virði starfanna? Eru ákveðnir þættir í karlastörfum metnir hærra en í kvennastörfum og getur verið að sé í raun rótin að kynbundnum launamun? Þegar þarf að endurmeta virði starfs þarf að miða við hliðstætt starf í karlastörfum. Það þarf að virkja jafnlaunanálgunina þrátt fyrir jafnvirðisnálgunina. Þarf að gæta þess vandlega að leiðrétting hjá einni stétt rýri ekki virði annarra stétta.“

Sigríður Ingibjörg ræddi þróun jafnréttis á undanförnum áratugum og sagði að staðan núna sé sú að hópurinn er tekinn til starfa og lagt hafi verið af stað með þróunarverkefni til að þróa aðferðina til að meta virði starfa. Það þarf kerfisleiðréttingu til að leiðrétta kynbundinn launamun.

Hún skýrði fyrir fundarmönnum þau hugtök sem gott er að þekkja til varðandi hugtökin um endurmat á störfum kvenna í skýrslunni.

Jafnlaunanálgun (e. equal pay) er hugtak um jöfn laun fyrir sömu störf. Jafnvirðisnálgun (e. pay equity) er hugtak um jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf, ólík störf geta verið jafn verðmæt. Virðismat starfa er hugtak um kerfisbundið mat á þeim kröfum sem gerðar eru til starfsmanna í tilteknum störfum. Jafnlaunavottun er hugtak til að framfylgja gildandi lögum sem leggja bann við því að konum og körlum séu greidd mismunandi laun fyrir sömu eða jafn verðmæti störf.


Breytt hagfræði til bjargar heiminum
Ásgeir Brynjar Torfason, doktar í fjármálum, fjallaði um í sínu erindi um hagfræðikenningar Marana Mazzucato og fleiri þekktra hagfræðinga og kenningar þeirra. Sagði hann að hagfræði væri í raun ekki hrein vísindagrein heldur félagsvísindagrein sem fæst við það hvernig samfélög, einstaklingar og fyrirtæki skiptu á milli sín takmörkuðum auðlindum og gæðum þeirra. Benti hann á að í hagkerfi nútímans væri virði peninga talið meira en flest annað. Sagði hann að markvisst væri grafið undan virði félagsafla til að auka virði markaðs- og peningaafla. Það bitnaði illa á samfélaginu. Adam Smith, faðir hagfræðinnar, sagði að markaðurinn virkaði ekki almennilega nema vegna hinnar reglubundnu umgjarðar sem yrði að vera til staðar. Markaður án reglna er óskapnaður segir Mazzucato enda byggi grundvöllur hans á réttarríkinu; dómstólum, samkeppniseftirliti, neytendavernd og stofnunum sem sjá til þess að leikvöllurinn sé sanngjarn.

„Ísland hefur aðgang að hinum sameiginlega markaði Evrópusambandsins. Ísland fær aðild að honum í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið gegn því að innleiða allar reglur og lög sem um markaðinn gilda. Frjáls viðskipti sem því fylgja geta eflt alla dáð, en þau viðskipti eru möguleg og frjáls vegna þeirrar reglubundnu umgjarðar sem tryggir að leikreglurnar nái yfir alla aðila markaðarins og fyrirbyggir að fáir geti dregið til sín of mikinn auð út úr kerfinu. Marga undanfarna áratugi hefur kapítalisminn vaxið á kostnað hins opinbera. Covid-19 faraldurinn hefur breytt ásýnd heimsins og orsakað frost í efnahagskerfum heimsins. Öll ríki heimsins fóru í hallarekstur vegna stríðs og heimsfaraldurs, og það eina sem getur bjargað efnahagskerfum heimsins er ríkið. Heimsfaraldurinn hafi verið möguleikinn fyrir endurreisn hins opinbera. Þegar átti svo að vinda ofan af efnahagskerfunum skall á stríð í Evrópu.“

 

Ríkið skapar verðmæti og þekkingu
Ásgeir Brynjar ræddi um nokkrar lykilspurningar um hvert er hlutverk hins opinbera væri í endurreisn efnahagskerfa heimsins, m.a. m.t.t. loflagsmála, sem er líklega stærsta áskorunin.

„Viðbrögð við loftlagsvandanum kallar á gífurlega fjármuni. En er það lausn á öllum vandamálum að ausa gengdarlaust peningum í einhver ákveðin verkefni eða þurfum við að hugsa hlutina upp á nýtt? Endurreisn kallar á samvinnu, en hvernig á samvinnan að eiga sér stað? Einkafyrirtæki og hið opinber þurfa að vinna saman.“

Tók hann dæmi um Kalda stríðið, hvernig ríkið hafi haft frumkvæði að hagvexti og aukinnar þekkingar sem svo einkaaðilar nýttu sér í framhaldi og kemur fram í þeirri tækni sem við nýtum okkur í dag í símunum okkar og tölvum o.s.frv.

„Það er staðreynd að Rússar voru komnir lengra með geimferðaáætlun sína en Bandaríkjamenn á tíma Kalda stríðsins og Bandarísk stjórnvöld brugðust við þessu með þeim hætti að forseti Bandaríkjanna, John F. Kennedy, ákvað hrúga peningum í geimferðaáætlun NASA. Sagði Ásgeir Brynjar að í dag grundvallast t.d. grundvöllur menntastefnu Bandaríkjanna, hagvaxtar og þekkingar á þeim gjörningi sem einkageirinn hafi byggt sinn auð á. Þannig hafi einkaaðilar ávallt byggt sinn auð á þekkingu og verðmætasköpum ríkisins.

„Stjórnvöld þurfa að fjárfesta í innviðum til að vera tilbúin fyrir t.d. stríð, hvort sem það verður náttúruvá, nýr heimsfaraldur eða styrjöld. Í því sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga tvær hagfræðijöfnur sem eru mikilvægur grunnur markaðsmála. Jafna 1: r >g. r = fjármagn og g = hagvöxtur. Fjármagn vex hraðar en hagvöxtur. Jafna 2: S > M => S = samfélag og M = markaður. Samfélagið er stærra en markaðurinn,“ sagði Ásgeir Brynjar að lokum.