27. apríl 2022
Það bera sig allir vel
„Þekkingarleysið sem felst í þeirri nálgun að hið opinbera sé silalegt bákn er ærandi.“
Við skulum þó hafa það alveg á hreinu að launafólk ber ekki ábyrgð á hækkandi vöxtum og aukinni verðbólgu, en mun gjalda fyrir með verri kjörum. Við munum því ekki gefa neinn afslátt í kjarabaráttunni í þágu almennings.
Eftir Sonju Ýr Þorbergsdóttur
Kæru félagar, til hamingju með alþjóðlegan baráttudag verkalýðsins þann 1. maí!
Vorið flæðir inn um gluggana og loksins getum við fagnað þessum merkisdegi saman í raunheimum eftir tveggja ára heljartak heimsfaraldurs án baráttufunda og kröfugangna.
Við í BSRB höfum líka sérstakt tilefni til að fagna því að við eigum 80 ára afmæli. Frá árinu 1942 hefur samstarf, samstaða og barátta launafólks í almannaþjónustu skilað okkur bættum lífskjörum og betra samfélagi fyrir alla.
Í heimsfaraldrinum sáum við úr hverju framlínufólk í almannaþjónustu er gert og þau færðu gríðarlegar persónulegar fórnir til að sinna heilsu okkar og verja lífsgæðin. Þetta er fólkið sem starfar í heilbrigðisþjónustu, með börnunum okkar í skólunum, þjónustar fólk í viðkvæmri félagslegri stöðu og fólk með fötlun, starfar við þrif til að halda umhverfi okkar heilnæmu og hreinu, og svo mætti lengi telja. Faraldurinn leiddi svo berlega í ljós mikilvægi þessara starfa og þakklæti almennings var mikið á meðan á honum stóð.
Þó er hætt við að nú þegar við höfum mörg endurheimt eðlilegra líf og daglegt amstur tekur við að þá gleymist mikilvægi þessara starfa jafnóðum. En opinberir starfsmenn munu áfram gegna lykilhlutverki í gangverki samfélagsins og íslensk fyrirtæki geta ekki haldið uppi eðlilegri starfsemi og verðmætasköpun án þeirra.
Rangt gefið
Styrkur hvers samfélags birtist í stöðu viðkvæmustu hópa þess. Þó flestir beri sig vel eru því miður ákveðnir hópar að koma töluvert verr út úr þessum faraldri en aðrir, bæði andlega og fjárhagslega. Könnun Vörðu - rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins og gögn frá Hagstofunni sýna að ójöfnuður hefur aukist og staða ungra og einstæðra foreldra, innflytjenda og lágtekjuhópa hafi versnað vegna tekjufalls, dýrtíðar og stóraukins álags bæði heima fyrir og við vinnu. Á sama tíma hafa eignir þeirra ríkustu aukist um hundruð milljarða.
Hækkandi vextir og aukin verðbólga koma verst við þau sem hafa minnst milli handanna því matarkarfan verður sífellt dýrari og húsnæðiskostnaður hækkar. Þessu verður að bregðast við því langvarandi fjárhagsáhyggjur og álag valda alvarlegum heilsufars- og velferðarvanda sem bitnar ekki bara á einstaklingunum heldur samfélaginu öllu.
Áróður gegn launafólki
Nú í aðdraganda kjarasamninga heyrum við raddir þeirra sem segja að launafólk eigi að sýna ábyrgð og ekki gera of miklar launakröfur. Við skulum þó hafa það alveg á hreinu að launafólk ber ekki ábyrgð á hækkandi vöxtum og aukinni verðbólgu, en mun gjalda fyrir með verri kjörum. Við munum því ekki gefa neinn afslátt í kjarabaráttunni í þágu almennings.
Staðreyndin er nefnilega sú að þó heimsfaraldurinn hafi hitt fyrirtæki í ákveðnum atvinnugreinum illa standa önnur betur en nokkru sinni fyrr og þeim ber siðferðileg skylda að nýta hagnað sinn til að bæta lífskjör þeirra sem hafa skapað hann.
Stærstu samtök atvinnurekenda og einstaka stjórnmálafólk hefur undanfarið haldið uppi áróðri um meinta gríðarlega fjölgun opinberra starfsmanna og halda því fram að laun og kjör séu orðin betri á opinbera vinnumarkaðnum en þeim almenna.
Hið rétta er að opinberum starfsmönnum fjölgaði vegna viðbragða við heimsfaraldri, fólksfjölgunar og vegna þess að fleiri aldraðir þurfa þjónustu. Krónutöluhækkanir skiluðu lægstu launum hlutfallslega mestri hækkun. Fjölmargir á opinberum vinnumarkaði tilheyra sannarlega þeim hópi en launin þar eru þó enn langt undir meðaltali. Mögulega er ástæðuna fyrir áróðrinum að rekja til þess að þau vita sem er að BSRB mun sækja fast jöfnun launa milli markaða og endurmat á launum kvennastétta.
Hið opinbera skapar verðmæti
Rótina að umræðunni um fjölda og laun opinbers starfsfólks má væntanlega einnig finna í 40 ára gömlum kreddum Reagan og Thatcher um að hið opinbera leysi ekki vandamál heldur sé sjálft vandamálið. Þetta er þvættingur sem því miður er undirstaða hugmyndafræði sem of margir aðhyllast enn. Og það þrátt fyrir að margoft sé búið að sannreyna mikilvægi hins opinbera og hlutverk þess við að skapa velsæld og verðmæti. Nú síðast í baráttunni við heimsfaraldur.
Þekkingarleysið sem felst í þeirri nálgun að hið opinbera sé silalegt bákn er ærandi. Þessar mýtur afmennska þau mikilvægu störf sem unnin eru í almannaþjónustunni og eiga ekkert erindi í nútímasamfélagi. Í stað þess að nálgast opinbera þjónustu eins og útgjöld þarf að beina sjónum að því hvernig samfélagi við viljum búa í og fastsetja hvernig við ætlum að ná því markmiði. Sterk almannaþjónusta er fjárfesting í fólki og friði.
Lífið er gott sem betur fer
Ísland er ríkt land og líf flestra er gott sem betur fer. Við höfum því alla burði til að byggja upp sterkara velferðarsamfélag sem lyftir undir með þeim sem standa verr. Það margborgar sig fyrir stjórnvöld að stíga fast til jarðar nú og styrkja stoðir velferðarsamfélagsins til framtíðar. Mannsæmandi afkoma, heilbrigt starfsumhverfi, öruggt húsnæði, jöfnun launa milli markaða, leiðrétting launa kvennastétta, sérstakur stuðningur við barnafólk er sá vegvísir sem BSRB leggur áherslu á fram á við.
Nú reynir á baráttuanda og samstöðu launafólks. Við skulum sýna þá samstöðu í verki og fjölmenna í kröfugöngur og á baráttufundi um allt land 1. maí.
Höfundur er formaður BSRB.