Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

28. apríl 2022

Við viljum kröftugt og öflugt samfélag

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu.

Stjórnvöld fjársvelta okkar mikilvægustu almannaþjónustu og vinna að því markvisst að koma almannaeignum með afslætti í hendur sérútvaldrar og spilltrar fjármálaelítu. Þetta er hættuleg, óheilbrigð og andfélagsleg þróun sem hefur ekkert annað í för með sér en niðurbrot á samfélagi samstöðu og jafnræðis.

Á 1. maí fögnum við alþjóðlegum baráttudegi launafólks. Það er gleðilegt að við getum öll sem eitt komið saman í lok faraldursins, gengið kröfugöngu og haldið áfram baráttunni fyrir bættum kjörum opinberra starfsmanna og almennings alls.

Við sem samfélag höfum lagt áherslu á að vera hluti af norræna velferðarkerfinu, enda standa norrænu löndin fremst þegar kemur að velferð og jöfnuði. Til að standa undir nafni þá ætlumst við til að stjórnvöld svari lágmarkskröfum um að gæta réttlætis og jafnréttis og verndi eigur og auðlindir þjóðarinnar svo fjármálahýenur skyndigróðans geti ekki látið greipar sópa um sameiginlegar eigur okkar. Við krefjumst réttlætis og krefjumst þess að velferðarkerfin okkar séu efld en ekki svelt. Almenn siðleg viðhorf eins og réttlæti og umhyggja fyrir almenningi virðist því miður ekki alltaf eiga upp á pallborðið hjá þeim sem hafa valist til að sitja í æðstu embættum. Hvaða ástand blasir við? Stjórnvöld fjársvelta okkar mikilvægustu almannaþjónustu og vinna að því markvisst að koma almannaeignum með afslætti í hendur sérútvaldrar og spilltrar fjármálaelítu. Þetta er hættuleg, óheilbrigð og andfélagsleg þróun sem hefur ekkert annað í för með sér en niðurbrot á samfélagi samstöðu og jafnræðis. Ef íslensku ólígarkarnir fá að valsa um samfélag okkar munum við á endanum búa við sérhagsmunaréttindi „éáetta - émáetta“ frekjunnar, þar sem almenningur getur bara étið það sem úti frýs. Bókstaflega.

Sala, eða réttara sagt gjöf Íslandsbanka, sem er á ábyrgð stjórnvalda, réttara sagt fjármálaráðherra, er glöggt dæmi um spillingu og sérhagsmunagæslu stjórnvalda. Við höfum fylgst með þessari einkavinavæðingu í mörg ár og þetta gengur ekki lengur. Staðan segir okkur að þessi ríkisstjórn ber ekki hag almennings fyrir brjósti, heldur hag sérútvalinna vina og ættingja ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Við verðum að bregðast við og stöðva einkavæðingu á eignum ríkisins – eignum okkar allra, og munum að Samtök atvinnulífsins leika þar stórt hlutverk. SA rekur einkavæðinguna áfram með siðlausum og óheiðarlegum áróðri gegn opinberum starfsmönnum og þar með innviðunum og almenningi öllum eins og Sameyki hefur oft fjallað um. Einkavæðing almannaþjónustunnar hefur neikvæð keðjuverkandi áhrif. Þjónustan verður dýrari og hún dregst saman vegna arðsemiskrafna. Kapítalisminn er óseðjandi skrímsli og smásálarlega peningahyggjan er í eðli sínu skólplögn samfélagsins, því hún hefur ekki siðferðisgildi mannlegrar reisnar að leiðarljósi, heldur peningagróða grútarpungsins.

Í Evrópu á sér nú stað hræðilegt stríð. Rússar fremja grimmdarverk og stríðsglæpi í Úkraínu. Skotmörkin eru almenningur og innviðir landsins eru miskunnarlaust sprengdir í öreindir. Milljónir eru á flótta, aðallega börn, mæður og eldra fólk. Ungu mennirnir eru í stríði og þjóðin stendur saman gegn kúgaranum í Kreml. Við höfum öll fylgst með stríðinu og við finnum til með bræðrum okkar og systrum í Úkraínu sem nú ganga í gegn um helvíti á jörð. Það er skylda okkar sem þjóð á meðal þjóða að gera það sem í okkar valdi stendur að styðja við flóttafólk og þá bæði við þau sem koma frá Úkraínu og annars staðar frá.

Samtök norrænna ríkisstarfsmanna, NSO, sendu frá sér yfirlýsingu vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Þar kom fram fullkomin samstaða með Úkraínu og einnig á fundi PSI, Alþjóðlegra samtaka opinberra starfsmanna, og EPSU, Samtaka opinberra starfsmanna í Evrópu. Dave Prentis forseti PSI sagði hjarta okkar slá með Úkraínu í baráttu þjóðarinnar við hið illa. Sameyki leggur áherslu á að stjórnvöld taki vel á móti flóttafólki frá Úkraínu og öðrum stríðsþjáðum löndum. Við megum ekki gleyma því að í fjölbreytileika samfélagsins felst mikill auður sem ber að fagna og fordómar gagnvart öðrum þjóðernum, húðlit, kyni og trúarbrögðum eru ólíðandi.

Á aðalfundi Sameykis samþykkti félagsfólk með miklum meirihluta í atkvæðagreiðslu að hækka félagsgjaldið til að styrkja Vinnu-deilusjóð félagsins. Við megum búast við að kröfugerð okkar í næstu kjarasamningum verði kröftug og Sameyki verður tilbúið fyrir þær deilur með sterkari Vinnudeilusjóð. Við verðum að vinna að betri kjörum okkar félagsmanna og við krefjumst betra samfélags fyrir alla, þar sem gildi um heiðarleika, jafnrétti og jöfn tækifæri eru í hávegum höfð. Krafan um jöfnun launa á milli markaða er skýr af hálfu Sameykis auk þess sem við krefjumst þess af stjórnvöldum að þau lögleiði styttingu vinnuvikunnar. Aðeins með öflugri baráttu félagsfólks stéttarfélaga fyrir bættum kjörum og réttindum er hægt að ná fram breytingum.

Leiðaragreinin birtist fyrst í tímariti Sameykis 2. tbl. 2022