2. maí 2022
Gleðilegt að koma saman á ný
Sameyki í kröfugöngunni 1. maí. Ljósmynd/Haraldur Jónasson.
Fyrsti maí í gær var ánægjulegur dagur, ekki síst i ljósi þess að félagsfólk í Sameyki kom saman í fyrsta sinn eftir heimfaraldurinn. Komið var saman eins og venjan er í BSRB húsinu á Grettisgötu 89 og kröfugangan skipulögð og fánum dreift til félagsfólks. Svo var haldið af stað gangandi niður Laugaveginn að Ingólfstorgi. Formaður Sameykis, Þórarinn Eyfjörð, var aðalræðumaður á baráttufundinum á Ingólfstorgi þar sem hann m.a. hvatti til samstöðu í verkalýðshreyfingunni og samstöðu almennings gegn spillingu.
Eftir baráttufundinn var boðið til kaffisamsætis í félagamiðstöðinni á Grettisgötu 89 þangað sem fjöldi fólks kom og naut góðra stunda saman yfir ljúfengum kræsingum sem Kvennakór Reykjavíkur útbjó og hafði umsjón með. Lúðrasveit verkalýðsins heimsótti félagamiðstöðina og lék nokkur vel valin lög fyrir gesti.
Þórarinn Eyfjörð sagði það vera gleðilegt að félagsfólk í Sameyki gætu hist á ný. Þessum degi hefði fylgt kraftur og samstaða.
Í myndasafni Sameykis má skoða ljósmyndir sem ljósmyndararnir Haraldur Jónasson og Birgir Ísleifur Gunnarsson tóku í baráttugöngunni og frá fundinum á Ingólfstorgi.