Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

3. maí 2022

Hjá okkur ríkir jafningjastjórnun og jafnrétti

Guðrún Kaldal framkvæmdastjóri Frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar.

Guðrún Kaldal er framkvæmdastjóri Frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar sem hlaut viðurkenninguna Stofnun ársins 2021. Tjörnin hefur áður sýnt góðan árangur í mannauðsstjórnun og verið í efstu sætunum í könnuninni Stofnun ársins undanfarin ár. Frístundamiðstöðin Tjörnin var valin Stofnun ársins árin 2017 og 2019 og hefur alltaf hlotið tilnefninguna fyrirmyndarstofnun. Þessi góði árangur í mannauðsmálum er eftirsóknarverður í ljósi þess að könnunin varðar vellíðan og ánægju meðal starfsfólks.

„Í frístundastarfi skiptir öllu máli að samstarfið við börn og unglinga sé gott og þau finni að þau njóta trausts og virðingar. Einnig að starfsmenn frístundamiðstöðvarinnar læri að vinna eftir lýðræðislegum leiðum með börnum og unglingum. Þetta er þroskastarf. Ég er búin að vera í þessum bransa í 30 ár og hef unnið næstum í öllum störfum hjá frístundamiðstöðvum á þessum tíma. Í dag vinnum við mannauðsmálin jafnt með starfsfólki og skjólstæðingum. Það er mjög mikilvægt vegna þess að með þeim hætti lærir starfsfólkið einnig að nýta sér mannauðsmál fyrir sjálft sig og hafa þannig áhrif á framgang í sínum störfum.“

Guðrún segir að mikilvægt sé að stjórnendur séu heiðarlegir, standi við það sem sagt er og fylgi eftir ákvörðunum af heiðarleika og hugrekki.

„Hjá okkur ríkir jafningjastjórnun og jafnrétti, hjá okkur starfar fólk af ólíkum uppruna af 28 mismunandi þjóðernum á mjög dreifðu aldursbili og við fögnum því. Þetta fólk er með fjölbreytta menntun, allt frá háskólamenntun yfir í grunnskólamenntun, sumir jafnvel ekki lokið grunnskólaprófi. Hér eru þó allir jafnir burt séð frá menntun, kyni, aldri o.s.frv. Hjá frístundamiðstöðinni er hefð að búa til vinnustaðarsáttmála sem er virtur.

Lestu viðtalið við Guðrúnu Kaldal hér.