6. maí 2022
Húsnæðislán er ekki neyslulán
Ásgeir Jónsson, seðlabankstjóri. Skjáskot/RÚV.
Eftir Þórarinn Eyfjörð
Seðlabankastjóri Íslands, Ásgeir Jónsson, kynnti nýja stýrivaxtahækkun bankans um 1,0 prósentustig þann 4. maí sl. og eru stýrivextir nú 3,75 prósent. Um er að ræða sjöundu stýrivaxtahækkun bankans frá því í maí 2020. Á einu ári, frá því í maí 2021 þegar stýrivextir voru 0,75 prósentur, hafa stýrivextir bankans hækkað um 3 prósentustig.
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri færir þjóðinni þau rök, að ástæðan fyrir stýrivaxtahækkun 4. maí sé m.a. vegna hennar sjálfrar; vegna krafna verkalýðshreyfingarinnar um hærri laun, vegna húsnæðiskaupa almennings og svo einnig út af hækkandi hrávöruverði vegna stríðsins í Úkraínu. Seðlabankastjóri hefur varað við launahækkunum og hefur sagt í fjölmiðlum að stöðva þurfi partíið á meðan laun forstjóra hafa hækkað um hundruði þúsunda á mánuði.
Óstöðugleikinn á ábyrgð stjórnvalda
Launafólk á Íslandi neyðist til að taka gríðarlega há lán til að fjármagna húsnæðiskaup sem ríkisstjórn Íslands og Seðlabanki Íslands eru ábyrg fyrir. Í raun leggja þau blessun yfir og tryggja, að fasteignaverð hækki svo gríðarlega eins og raun ber vitni sem bitnar verst á ungum fjölskyldum á vinnumarkaði. Einn mikilvægasti þátturinn í kröfum verkalýðshreyfingarinnar um launahækkanir byggir á því að launafólk verður að geta greitt afborganir af hækkandi húsnæðislánum sínum án þess að missa fótanna. En ástæðan fyrir hækkandi afborgunum er óstöguleiki í efnahagsmálum og skertur kaupmáttur. Fyrir þeim óstöðugleika eru stjórnvöld og Seðlabanki Íslands ábyrg.
Önnur ástæða stýrivaxtahækkunarinnar er af stjórnmálalegum toga þar sem ákvörðun um rekstur húsnæðismarkaðarins er tekin af stjórnvöldum, sem ákváðu að láta bankana sjá um að fjármagna húsnæðismarkaðinn í stað þess að beita hagstjórn og setja sér langtímastefnu í húsnæðismálum. Auk þess boðar ríkisstjórnin 2 milljarða króna niðurskurð á stofnframlögum til uppbyggingar húsnæðis í fjármálaáætlun sinni til 2026.
Bankarnir hafa hagnast um tugi milljarða á stýrivaxtahækkunum sem hvetja til hækkana á húsnæðismarkaði. Bankarnir greiða svo hagnaðinn til eigenda sinna, og launafólk og íslenskar fjölskyldur borga brúsann beint úr vasa sínum. Ákvarðanir seðlabankastjóra hafa áhrif á alla landsmenn því með hækkun stýrivaxta hækka lán, lífskjör skerðast, ójöfnuður eykst og velferð á Íslandi er ógnað. Á meðan hagnast fjármálastofnanir í boði stjórnvalda. Arion banki tilkynnti uppgjör bankans fyrir fyrsta ársfjórðung á sama degi og stýrivaxtahækkunin var tilkynnt. Þar kom fram að bankinn hagnaðist á fyrsta ársfjórðungi þessa árs um 5,8 milljarða króna og greiddi 26,7 milljarða til hluthafa. Þeir græða á stýrivaxtahækkunum Seðlabanka Íslands á meðan almenningur tapar.
Húsnæðislán almennings eru ekki neyslulán
Verðbólga á Íslandi mælist nú 7,2 prósent og býst Seðlabankinn við að hún muni aukast næstu misserin sem þýðir að stýrivextir munu halda áfram að hækka. Stýrivextir koma í bakið á launafólki og verst koma þessar stýrivaxtahækkanir við ungt fólk og láglaunastéttir. Heimilin í landinu hafa lítið sem ekkert svigrúm vegna hækkunar vaxta á lánum og ört vaxandi vanda vegna hækkandi fasteignaverðs. Hækkun stýrivaxta gefur launafólki ekki aukið svigrúm til sparnaðar þar sem greiðslur af afborgunum húsnæðislána hækka og hefur ávinningurinn sem náðist í síðustu kjarasamningum máðst út. Ekki er hægt að beita fyrir sig þeim rökum að hækkun verðbólgu sé vegna ákvarðana fjölskyldna í landinu um að fjárfesta í húsnæði og koma sér upp þaki yfir höfuðið. Það þarf að taka húsnæðisliðinn út úr neysluvísitölunni.
Vísitala neysluverðs mælir breytingar á verðlagi einkaneyslu. Hagstofa Íslands mælir vísitölu neysluverðs mánaðarlega en þá er verð allra vara og þjónustu sem tilheyra neyslukörfunni kannað og inni í neysluvísitölunni eru húsnæðislán almennings – fasteignaverð. Húsnæðislán eru ekki neysla. Þá er einnig augljóst að stjórnvöld hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að færa frekar fjármuni til tekjuhæstu íbúðareigenda en að styðja við tekjulægri og yngri íbúðareigendur. Aðferðin er meðvituð um að færa framtíðarskatttekjur til þeirra sem hafa hærri tekjur og með því er ungu fólki og þeim sem eru á lægri launum, sem er að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið, gert erfiðara fyrir. Þeim sem minnst hafa milli handanna er þannig gert ómögulegt að komast inn á fasteignamarkaðinn.
Ríkisstjórn Íslands á að tryggja almenna velferð. Til þeirra verka voru þingmenn sem síðar urðu ráðherrar kjörnir. Ef þeir geta ekki tryggt grunnþarfir almennings eins og þeir voru kjörnir til, eiga þeir að segja af sér þingmennsku. Og við höfum ekkert að gera með ríkisstjórn sem lætur grundvallar hagsmuni almennings sig ekki neinu varða.
Höfundur er formaður Sameykis.