Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

20. maí 2022

„Eru ekki allir í stuði?“

Ingrid Kuhlman, framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar.

„Þakklæti fer illa saman við neikvæðar tilfinngar. Gott er að iðka meðvitað hugsanir um þakklæti.“

Ingrid Kuhlman, framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar, hélt erindi um andlega líðan og gleði undir heitinu, Eru ekki allir í stuði!, á Trúnaðarmannaráðsfundi Sameykis sem haldinn var í gær. Sagði hún mikilvægt að nefna neikvæðar tilfinningar um leið og þær kræla á sér og þannig leyfa þeim ekki að taka yfir andlega líðan viðkomandi.

 

Máttur tungumálsins
„Hafið þið prófað að taka frá hálftíma til að nýta sem tíma í áhyggjur? Eða hafið þið hvílt ykkur á fréttatímum? Þetta er mikilvægt því eins og í frumskóginum erum við lík dýrunum sem þar búa, gerð til að fylgjast með áreitinu í kringum okkur. Það er gott að snúa þessu við og setja fókusinn á það sem er jákvætt í stað þess að horfa á hætturnar í kringum okkur. Það er neikvætt að einblína á neikvæðar fréttir um ógn og skelfingu og því sem við höfum ekki stjórn á. En við getum stjórnað því hvort við sökkvum okkur í neikvæðar fréttir, umtal og viðbrögðum okkar við þeim. Það er betra fyrir líðan okkar að horfa á það sem er jákvætt og deila því með öðrum en að sökkva ofan í það sem er neikvætt. Þetta er val,“ sagði Ingrid.

Sagði hún að ein leið til að bæta líðan er að beita tungumálinu með þeim hætti að byggja upp jákvæða líðan. Dæmi: Við segjum gjarnan við okkur; ég verð að hreyfa mig í dag, í stað þess að segja, mikið er ég ánægð(ur) með að hreyfa mig í dag. Þannig komust við hjá því að dæma okkur fyrir, með neikvæðum hætti, fyrir að hafa ekki hreyft okkur.

 

Að iðka meðvitað þakklæti
„Þakklæti fer illa saman við neikvæðar tilfinningar. Gott er að iðka meðvitað hugsanir um þakklæti. Hægt er að hefja hvern morgunn með því að hugsa um það sem við getum verið þakklát fyrir, og að kveldi þakkað fyrir það sem við höfum. Þessi æfing eykur vellíðan og breytir viðhorfum smátt og smátt okkar til lífsins. Hægt er að skrifa líka niður þrjú atriði á blað, minningar eða atburði, sem við erum þakklát fyrir á hverjum dagi. Við getum líka skrifað niður hjá okkur jákvæðar minningar sem vekja upp góðar tilfinningar sem dregur úr neikvæðum tilfinningalíðan og spornar gegn þunglyndi.

 

Að gera öðrum góðverk
Félagsleg tengsl skipta einnig miklu máli. Samkvæmt rannsóknum er mest gefandi að vera í jákvæðum samskiptum við annað fólk, bæði á vinnustaðnum og í einkalífinu. Það er mikill máttur sem liggur í því að velja það að vera frekar í jákvæðum samskiptum en að vera í neikvæðum samskiptum á andlega líðan okkar. Einnig hefur mataræði, hreyfing og svefn mikilvæg áhrif á andlega líðan.

„Ef við fáum ekki nægan svefn getum við þróað með okkur ýmsa aðra slæma ávana tengda mataræði og hreyfingu, jafnvel sjúkdóma eins og áunna sykursýki. Við verðum þreyttari og við hverfum frá núvitund með þeim afleiðingum að við förum á svokallaða sjálfstýringu, við munum ekki eftir t.d. ökuferðinni í og úr vinnu. Núvitund er að vera í beinu sambandi við það sem við erum að gera, erum með athyglina á því. Góðverk er líka góð aðferð til að auka lífgleðina. Það þarf ekki að vera stórt eða mikið. Betra er líka að láta aðra ekki vita, heldur njóta þeirrar líðan sem skapast af því til að byggja með okkur sjálfum gleði og vellíðan,“ sagði Ingrid Khulman að lokum.