Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

25. maí 2022

BSRB krefst þess að stjórnvöld marki sér stefnu um jöfnuð og stöðugleika

Viðhorf ríkisstjórnarinnar er að engra breytinga sé þörf þrátt fyrir að misskiptingu tekna og eigna hafi farið vaxandi.

Aðalfundur BSRB krefst þess að stjórnvöld marki sér stefnu í ríkisfjármálum með jöfnuð og félagslegan stöðugleika að leiðarljósi.

Aðalfundur BSRB var haldinn í gær í félagamiðstöðinni að Grettisgötu 89. Fundurinn ályktaði um að stjórnvöld vinni gegn auðsöfnun og auðræði. Kallað er eftir því að fjárhagur ríkis og sveitarfélaga verði treystur og velferð borgaranna tryggð. Þá telur fundurinn að náttúruauðlindir landsins verði nýttar almenningi til hagsbóta og að fjárhagur ríkis og sveitarfélaga verði treystur og velferð borgaranna tryggð.

Þá er þess krafist að stjórnvöld marki sér stefnu í ríkisfjármálum með jöfnuð og félagslegan stöðugleika að leiðarljósi.

 

Ályktun BSRB
Kjarni fjármálaáætlana undanfarinna ára endurspegla það viðhorf ríkisstjórnarinnar að engra breytinga sé þörf þrátt fyrir að misskipting tekna og eigna hafi farið vaxandi, um þriðjungur launafólks búi við erfiða fjárhagsstöðu, sífellt erfiðara sé fyrir ungt fólk að koma undir sig fótunum á erfiðum húsnæðismarkaði, hagur millistéttarinnar hafi staðnað og starfsfólk almannaþjónustunnar sendi ítrekað neyðarkall til stjórnvalda vegna undirmönnunar og gríðarlegs álags í störfum.

Áætlun ríkisstjórnarinnar um ríkisfjármál næstu 5 árin sendir skýr skilaboð um að ekki standi til að auka jafnræði meðal fólks þegar kemur að tekjum og eignum, né bæta þjónustu við almenning, létta á álagi þeirra sem veita þjónustuna eða fjárfesta í mikilvægum innviðum nema að óverulegu leyti, sé tekið tillit til mannfjölda og verðmætasköpunar.

Aðalfundur BSRB kallar eftir því að stjórnvöld leggi áherslu á eftirfarandi meginatriði í efnahags- og ríkisfjármálastefnu á komandi árum:

• að jöfnuður og sanngirni ríki í skattheimtu
• að fjárhagur ríkis og sveitarfélaga verði treystur og velferð borgaranna tryggð
• að efnahagslegar afleiðingar af náttúruvá, COVID-19 og ófriðarástandi verði ekki að mestu lagðar á herðar launafólks, öryrkja og lífeyrisþega
• að unnið verði gegn auðsöfnun og auðræði
• að náttúruauðlindir landsins verði nýttar almenningi til hagsbóta
• að skattframkvæmd komi í veg fyrir undanskot og skattasniðgöngu

Ef ríkisfjármálum verður ekki beitt til að tryggja að vöxtur í hagkerfinu falli í skaut launafólks og auka almenna velferð landsmanna mun það grafa undan stöðugleika og samfélagslegri samhygð. Það mun ótvírætt hafa áhrif á kröfur launafólks við gerð næstu kjarasamninga.

Lesa má skýrslu stjórnar BSRB hér.