14. júní 2022
Frumvarp ríkisstjórnarinnar grefur undan samtryggingarmætti lífeyriskerfisins
Sú ráðstöfun tilgreindrar séreignar sem um ræðir hér mun að mati BSRB leiða til rýrnunar á samtryggingarþætti lífeyriskerfisins.
Leggst bandalagið alfarið gegn tillögu um heimild til sparnaðar í formi tilgreindrar séreignar sem mun augljóslega fela í sér aukna áhættu og getur leitt til lakari tryggingaréttar úr sjóðum.
BSRB segir í umsögn við frumvarp ríkisstjórnarinnar sem leggja á fram á Alþingi um breytingar á lífeyriskerfinu grafa undan samtryggingamætti þess og verið sé með frumvarpinu að breyta lífeyriskerfinu í húsnæðisstyrk og verði nýtt til að fólk geti keypt húsnæði sem nýtist helst þeim tekjuhæstu. Í umsögninni segir að stjórnvöld hafa lítið sem ekkert gert til að tryggja önnur stuðningsúrræði og hafa þau dregið verulega úr möguleikum fólks að fjárfesta í húsnæði í gegnum vaxtabótakerfið á liðnum árum.
Þá segir í umsögninni að með frumvarpinu séu stjórnvöld að ganga þvert á þau markmið að jafna lífeyrisréttindin á milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins sem voru að samræma lífeyrisréttindin og auka sjálfbærni kerfisins. Lögfesting tilgreindrar séreignar gengur þvert á þau markmið.
Leggst bandalagið alfarið gegn tillögu um heimild til sparnaðar í formi tilgreindrar séreignar sem mun augljóslega fela í sér aukna áhættu og getur leitt til lakari tryggingaréttar úr sjóðum ef einstaklingur verður t.d. fyrir áfalli ungur að árum.
Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs (lágmarkstryggingavernd, tilgreind séreign o.fl.), 690. mál.
I. BSRB hefur fengið til umsagnar ofangreint frumvarp um breytingu á ýmsum lögum þar sem lagt er til að lögfest verði að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs verði a.m.k. 15,5% af iðgjaldsstofni í stað 12% og að lágmarkstryggingavernd hækki úr 1,4% í 1,8% af iðgjaldsstofni á ári. Með frumvarpinu er lagt til að mælt verði fyrir í lögum um svokallaða tilgreinda séreign, sem geti numið allt að 3,5% og að sjóðfélögum verði heimiluð skattfrjáls ráðstöfun tilgreindrar séreignar til kaupa á fyrsta íbúðarhúsnæði, til viðbótar við gildandi úrræði um ráðstöfun séreignarsparnaðar. Einnig er lagt til að sjóðfélögum sem ekki hafa verið eigendur að íbúðarhúsnæði í fimm ár frá því að umsókn um ráðstöfun kemur fram verði heimilað að nýta sömu séreignarsparnaðarúrræði og kaupendum fyrstu íbúðar.
Drög að frumvarpinu voru lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda í mars sl. og skilaði BSRB þar umsögn þar sem bandalagið lagðist gegn því að tilgreind séreign verði lögfest. Fyrir afstöðu bandalagsins liggja margþætt rök en þau sem vega þyngst eru að breytingin felur í sér veikingu á samtryggingarþætti lífeyriskerfisins, veldur ósamræmi í kerfinu og dregur úr sjálfbærni þess.
Umrædd 3,5% af iðgjaldsstofni hafa verið hluti af heildariðgjaldi sem hefur farið til samtryggingarhluta lífeyrissjóða á opinberum vinnumarkaði í áratugi. Í þeirri vegferð að jafna lífeyrisréttindi milli markaða var ákveðið að jafna réttindi meirihluta fólks á almennum vinnumarkaði upp á við til að þau væru í samræmi við réttindi fólks á opinberum vinnumarkaði, en það var gert með hækkun iðgjalda til lífeyrissjóða um 3,5%. Árið 2016 sömdu ASÍ og SA um að ráðstafa mætti þessari viðbót til tilgreindarar séreignar. Sú ákvörðun var ekki gerð í samráði við opinbera vinnumarkaðinn og myndi fela í sér grundvallar-breytingu á skipan lífeyrismála á opinberum vinnumarkaði.
Sú ráðstöfun tilgreindrar séreignar sem um ræðir hér mun að mati BSRB leiða til rýrnunar á samtryggingarþætti lífeyriskerfisins. Val einstaklinga á milli tilgreindrar séreignar og samtryggingar felur í sér aukna áhættu og getur leitt til lakari tryggingaréttar úr sjóðum ef einstaklingur verður t.d. fyrir áfalli ungur að árum en hefur valið að nýta möguleika til greiðslu í tilgreinda séreign að fullu. Þá krefst valið á milli sparnaðarleiða þess að fólk sé vel upplýst um þá áhættu sem slíku vali fylgir. Það mun bitna sérstaklega á tekjulægra fólki og konum sem lifa að meðaltali rúmum þremur árum lengur en karlar og treysta því á lífeyriskerfið til framfærslu mun lengur. Í þessu sambandi er rétt að benda á að konur eru yfir 65% félagsmanna í BSRB og þess má geta að engin greining liggur fyrir á mismunandi áhrifum tilgreindar séreignar fyrir kynin, lífslíkur, ævitekjur o.þ.h.
II. Markmiðið með jöfnun lífeyrisréttinda á milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins var að samræma lífeyrisréttindi og auka sjálfbærni kerfisins. Lögfesting tilgreindrar séreignar gengur þvert á þau markmið.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir m.a. um lífeyrismál:
Grænbók um lífeyrismál verður unnin í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóði á fyrri hluta kjörtímabilsins í því skyni að skapa grundvöll fyrir umræðu, stefnumörkun og ákvarðanir um lífeyriskerfið og framtíðarþróun þess með heildstæðum hætti. Meðal annars verður horft til einföldunar kerfsins og fjallað um grundvallarforsendur varðandi hlutverk, uppbyggingu, sjálbærni og umfang sjóðanna í efnahagslífnu, uppbyggingu réttinda og samspil milli ólíkra stoða lífeyriskerfsins, nauðsynlega hækkun lífeyrisaldurs og sveigjanleika til töku lífeyris í samhengi við hækkandi lífaldur, tryggingafræðilegar forsendur, fárfestinga-heimildir, starfsumhverf og eftirlit.
BSRB lagði því til í umsögn sinni til fjármála- og efnahagsráðuneytisins að ráðherra myndi ekki leggja frumvarp fram á Alþingi sem felur í sér tilgreinda séreign, eins og nú hefur verið gert, heldur verði sú umræða og útfærsla hluti af þeirri heildarendurskoðun á lífeyriskerfinu sem ríkisstjórnin hefur boðað.
Frá því frumvarpið birtist í samráðsgátt, og fjölmargar athugasemdir voru gerðar við efni þess, hafa orðið þrenns konar breytingar á frumvarpinu. Ein þeirra er sú breyting að gefa lífeyrissjóðum heimild til þess að kveða á um 3,5% ráðstöfun af iðgjaldsstofni til tilgreindrar séreignar í samþykktum sínum, í stað lagalegrar skyldu þess efnis. Þannig munu lífeyrissjóðir hafa það í hendi sér að ákveða sjálfir hvort sjóðsfélagar þeirra hafi heimild til ráðstöfunar til tilgreindrar séreignar af iðgjaldsstofni sínum. Að mati BSRB er fyrirséð hvernig lífeyrissjóðir munu verða fyrir þeim þrýstingi að breyta samþykktum sínum eftir lögin hafa tekið gildi og mun sá þrýstingurinn ekki síst byggja á þeim grunni að ráðstafa megi tilgreindri séreign til kaupa á fyrsta húsnæði.
Markmið lífeyriskerfisins felst ekki í því að vera húsnæðisstuðningur en sú staðreynd að staðan á húsnæðismarkaði er grafalvarleg, vegna skorts á húsnæði og að verulega er búið að draga úr húsnæðisstuðningi ríkisins í gegnum vaxtabótakerfið í gegnum árin, skapar þá stöðu að það eru fá úrræði fyrir hendi fyrir fyrstu kaupendur eða þau sem ekki hafa átt fasteign í 5 ár til að koma sér inn á húsnæðismarkað.
Þá sýnir reynslan af ráðstöfun séreignarsparnar til húsnæðiskaupa eða lána undanfarinn áratug að hún gagnast helst þeim tekjuhærri. Ef taka á mið af tillögum starfshóps Þjóðhagsráðs varðandi húsnæðismál, þar sem kom fram að efla þurfi sérstaklega félagslegan hluta húsnæðismarkaðarins, þá samrýmist efni frumvarpsins vart framtíðarstefnu stjórnvalda í húsnæðismálum.
III. BSRB telur breytinguna eins og hún kemur fram í frumvarpinu grafa undan samtryggingarmætti lífeyriskerfisins með sama hætti og frumvarpið gerði fyrir breytinguna, eins og það var lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda. Jafnframt hafnar bandalagið þeirri stefnu stjórnvalda að lífeyriskerfið sé nýtt til að fólk geti komið þaki yfir höfuðið í ljósi þess að stjórnvöld hafa lítið sem ekkert gert til að tryggja önnur stuðningsúrræði að því markmiði.
Afstaða BSRB er því óbreytt frá því sem verið hefur og leggst bandalagið alfarið gegn tillögu um heimild til sparnaðar í formi tilgreindrar séreignar.