17. júní 2022
Gleðilegan þjóðhátíðardag
Sameyki óskar félagsfólki sínu og landsmönnum öllum til hamingju á þjóðhátíðardegi Íslendinga í dag 17. júní. Við fögnum þessum hátíðisdegi á fæðingardegi Jóns Sigurðssonar sem valinn var þegar lýðveldið var stofnað formlega 1944 og haldinn hefur verið hátíðlegur ár hvert síðan.
Í grein eftir Hallgrím Sveinsson, fyrrverandi staðahaldara á Hrafnseyri, skrifar hann um Jón Sigurðsson:
„Í skrifum sínum þar barðist hann fyrir stjórnfrelsi, kjörfrelsi, málfrelsi, verslunarfrelsi og atvinnufrelsi til handa Íslendingum og birti ótal hvatningargreinar til Íslendinga um hvaðeina sem verða mátti landinu til viðreisnar. Hann taldi þó að frelsi án banda, án takmörkunar, væri ekki frelsi, heldur agaleysi og óstjórn.“
Á 17. júní eru gjarnan þjóðhátíðarsöngvarnir Hver á sér fegra föðurland og Land míns föður sungnir þegar ættjarðarinnar er minnst. Textarnir fjalla á hátíðlegan hátt um ættjörðina. Við birtum hér textann Hver á sér fegra föðurland eftir Huldu sem var skáldanafn Unnar Benediktsdóttur Bjarklind sem var fædd 1881 á Auðnum í Laxárdal. Hulda fékk verðlaun fyrir hátíðaljóð sitt, Hver á sér fegra föðurland, í tilefni af stofnun lýðveldisins 17. júní 1944.
Hulda byrjaði snemma að yrkja og var hún einn af frumkvöðlum nýrómantísku stefnunnar og segja má að hún hafi endurreist þuluformið á tuttugustu öldinni. Hún fékkst einkum við ljóðagerð en skrifaði einnig smásögur og skáldsöguna Dalafólk.
Hver á sér fegra föðurland,
með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?
Með friðsæl býli, ljós og ljóð,
svo langt frá heimsins vígaslóð.
Geym, drottinn, okkar dýra land
er duna jarðarstríð.
Hver á sér meðal þjóða þjóð,
er þekkir hvorki sverð né blóð
en lifir sæl við ást og óð
og auð, sem friðsæld gaf?
Við heita brunna, hreinan blæ
og hátign jökla, bláan sæ,
hún uni grandvör, farsæl, fróð
og frjáls - við ysta haf.
Ó, Ísland, fagra ættarbyggð,
um eilífð sé þín gæfa tryggð,
öll grimmd frá þinni ströndu styggð
og stöðugt allt þitt ráð.
Hver dagur liti dáð á ný,
hver draumur rætist verkum í
svo verði Íslands ástkær byggð
ei öðrum þjóðum háð
Svo aldrei framar Íslands byggð
sé öðrum þjóðum háð.