19. júní 2022
Til hamingju með kvenréttindadaginn
Bríet Bjarnhéðinsdóttir. Ljósmynd/Kvennasögusafn Íslands
Vegna baráttu kvenna eins og Bríetar hefur samfélagið mótast til meira jafnréttist, en baráttan heldur áfram í dag gegn misrétti.
Sameyki stendur með jafnréttisbaráttunni og í dag höldum við upp á kvenréttindadaginn sem helgaður er baráttudegi kvenna. Bríet Bjarnhéðinsdóttir átti ríkan þátt í að koma á réttarbótum konum til handa á Íslandi og efla þannig lýðræðissamfélagið í heild sinni. Hún barðist fyrir því að íslenskar konur fengju fullt jafnrétti á við karlmenn; kosningarétt, kjörgengi svo og embættisgengi og rétt til atvinnu með sömu skilyrðum og karlmenn.
Fyrir hennar baráttu m.a. fengu giftar konur kosningarétt og kjörgengi og öðluðust þar með sjálfstæði frá eiginmönnum sínum til pólítískrar þátttöku, en ekkjur og ógiftar konur höfðu þá haft kosningarétt í um aldarfjórðung.
Á Íslandi er í dag kynbundinn launamunur á tekjum. Vegna baráttu kvenna eins og Bríetar hefur samfélagið mótast til meira jafnréttist, en baráttan heldur áfram enn í dag gegn misrétti. Viðkenna þarf að kvennastörf séu metin til launa til jafns við karla, og það þarf að viðurkenna að laun kvenna hafa verið röng alveg frá upphafi. Í störfum þar sem karlar eru í meirihluta er almennt meira tækifæri til að hækka launin.
Breytum þessu og jöfnum kynbundinn launamun!