28. júlí 2022
Fjársýsla ríkisins leggi ekki stein í götu launafólks
Sameyki harmar ákvörðun Fjársýslu ríkisins að greiða ekki opinberum starfsmönnum laun síðasta virka dag mánaðar nú fyrir verslunarmannahelgina eins og tíðkast hefur. Afleiðingarnar eru þær að starfsfólk ríkisins mun ekki getað staðið við skuldbindingar sínar. Fjársýsla ríkisins heldur því fram að laun hafi verið greidd áður með þessum hætti. Launaseðlar starfsmanna ríkisins sanna að svo er ekki.
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, segir í frétt um málið á visir.is að réttir og góðir starfshættir séu að ganga frá greiðslu launa á síðasta virka degi fyrir fyrsta virka dag nýs mánaðar. Þannig að launafólk sé komið með greiðslu inn á sína launareikninga til að geta borgað reikninga og staðið við sínar skuldbindingar. Þá segir Þórarinn að framkoma Fjársýslu ríkisins sé ótrúleg framkoma og ósómi gagnvart heilbrigðisstarfsfólki í ljósi þess hve vel starfsfólkið hafi staðið sig á erfiðum tímum í COVID-19 faraldrinum.
Sameyki skorar á Fjársýslu ríkisins að breyta starfsháttum sínum, greiða starfsfólki laun á réttum tíma, og huga að því hvernig stofnunin vinnur í sínum mannauðsmálum. Mikilvægt er að Fjársýsla ríkisins leggi ekki stein í götu launafólks með þessari óvilhöllu mannauðsstjórnun.