10. ágúst 2022
Að loknu sumarfríi
Félagsfólk í Sameyki snýr nú margt aftur til vinnu að loknu sumarfríi vel úthvílt og ánægt, en svolítið ryðgað í rútínunni og með hugann jafnvel enn við sumarbústaðaferðina, fjallgöngur og sund, jafnvel útlönd. Þá hefur svefnmynstrið örugglega riðlast til hjá mörgum, tölum ekki um matarræðið; grillmatur og bakaðar kartöflur og sósur með því hjá sumum, sem er líklega ekki eins og einkaþjálfarinn vill hafa það. Í stuttu máli er félagsfólk Sameykis aftur mætt til vinnu en er jafnvel enn í sumarfríinu í huganum. Til að koma mannskapnum aftur í vinnugírinn eftir sumarfríið eru hér þrjú góð ráð sem Fræðslusetrið Starfsmennt leggur til að loknu vel heppnuðu sumarfríi.
1. Byrjaðu á að hreinsa skrifborðið
Byrjaðu á einföldu verkefni til þess að koma boltanuum af stað. Hreinsaðu vinnurýmið þitt svo þú hafir umhverfi þar sem þér líður sem best.
2. Búðu þér til verkefnalista og forgangsraðaðu
Það getur reynst gott að setjast niður og skrifa niður öll þau verkefni sem þarf koma í verk. Þegar búið er að skrifa niður það sem viðkomandi vill, eða þarf að koma í verk, er gott að setjast niður með kaffibollann eða vatnsglasið og vega og meta hvenær þessum verkefnum þarf að vera lokið, hversu mikilvæg þau eru, og forgangsraða þeim eftir því.
3. Flýttu þér hægt
Það er ljómandi gott að forðast það eins og heitann eldinn að ætla sér að afkasta strax jafn miklu og gert var fyrir fríið þegar allt var á fullu. Það er skínandi hugmynd að gefa sér tíma og skilning til að mynda rútínuna á ný eftir frí.