17. ágúst 2022
Engin töfralausn á mönnunarvandanum
Afar mikilvægt er að breytingar sem þessar séu gerðar á forsendum og út frá sjónarhóli starfsfólksins en ekki atvinnurekenda. Ljósmynd/Axel Jón
Fram kemur í umsögn BSRB um áform stjórnvalda að hækka hámarksaldur heilbrigðisstarfsmanna ríkisins í 75 ár að það sé ekki nein töfralausn á vanda spítalans og að fleiri mikilvæga þætti þurfi að huga að áður en slík ákvörðun er tekin.
Að mati BSRB mun hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsmanna ríkisins ekki leysa þann vanda sem breytingunum er ætlað að gera. Samkvæmt þeim upplýsingum sem bandalagið hefur þá hefur ekki farið nein könnun fram meðal þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem nú nálgast starfslokaaldur á því hvort þau hafi hug á að starfa lengur en til 70 ára aldurs. Þau störf sem um ræðir eru mörg hver slítandi störf þar sem mikið mæðir á starfsfólkinu alla daga og undanfarin ár hafa verið gífurlega erfið fyrir þennan sama hóp. Það er því vandséð að hér sé um einhvers konar töfralausn að ræða.
Breytingar út frá sjónarhóli starfsfólksins, ekki atvinnurekenda
Það þarf að huga vel að þeim atriðum sem hafa verið nefnd hér að framan varðandi lífeyrismál og önnur réttindi en einnig þarf að tryggja að starfsfólk sé ráðið á sömu eða betri kjörum en það hefur starfað samkvæmt. Það gengur ekki að starfsfólk sem ákveður að starfa lengur en til 70 ára aldurs sé ráðið í tímavinnu og sé þar með á mun lakari kjörum og með lakari réttindi en það hafði áður en það náði 70 ára aldri.
Afar mikilvægt er að breytingar sem þessar séu gerðar á forsendum og út frá sjónarhóli starfsfólksins en ekki atvinnurekenda.
Lesa má umsögn BSRB í heild sinni hér.