Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

14. september 2022

Ríkið stendur ekki við samninga um jöfnun launa

„Það verður aldrei nein sátt um að launagreiðendur svíki þetta samkomulag.“

Sameyki hefur í greinaskrifum og í fréttaflutningi vakið athygli á því að stjórnvöld hafa ekki staðið við loforð í samkomulagi sem undirritað var 19. september 2016 á milli BSRB, BHM, KÍ, ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um breytingar á skipan lífeyrismála og jöfnun launa á milli opinbera vinnumarkaðarins og almenna vinnumarkaðarins. Í samkomulaginu segir m.a.: „Að vinna þurfi sérstaklega að því að jafna laun einstakra hópa milli almenns og opinbers vinnumarkaðar.“ Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra skipaði í kjölfarið samráðshóp í apríl 2017 og var verkefnið að að meta tölfræðigöng til grundvallar mati á launamuninum.

 

Ríkið reynir að svæfa verkefnið
Í samkomulaginu var fjallað um að launakjör opinberra starfsmanna yrðu jöfnuð við þau sem tíðkast á almennum vinnumarkaði. Samkvæmt samkomulaginu átti að vera búið að jafna launin á milli vinnumarkaða innan áratugar en iðgjöld áttu að hækka á móti í almenna kerfinu í 15,5 prósent. Þá áttu opinberir starfsmenn á móti að samþykkja breytingar á lífeyrisréttindavinnslu sinni. Stærstu breytingarnar voru þær að lífeyristökualdur var hækkaður úr 65 í 67 ár, sjóðssöfnun myndi byggja á föstum iðgjöldum í lífeyrissjóð og ávinnsla réttinda yrði aldurstengd. Samhliða yrði ábyrgð launagreiðenda, ríkis og sveitarfélaga, á sjóðunum afnumin.

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, segir að ríkið hafi ekki staðið við loforð sín um að jafna laun á milli markaða sem nú er um 17 prósenta munur á milli opinberra starfsmanna og þeirra sem starfa á almennum vinnumarkaði. „Nú sé svo komið að ríkið hefur sofnað í þessari vinnu og snúið sér á blindu hliðina í þeirri von að opinberir starfsmenn raski ekki þeim svefni.“

BSRB samþykkti á þingi sínu í mars sl. ályktun um jöfnun launa á milli markaða. Þar segir: „Það verður aldrei nein sátt um að launagreiðendur svíki þetta samkomulag. Skilgreiningin á jöfnun launa milli markaða í samkomulaginu er fortakslaus og ef launagreiðendur standa ekki við samkomulagið mun það hafa víðtæk og alvarleg áhrif á þær kjarasamingsviðræður sem fram undan eru.“