Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

16. september 2022

Formaður BSRB segir fjárlagafrumvarpið boði niðurskurð í velferð

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

„BSRB hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að styrkja almannaþjónustuna og tekjutilfærslukerfin til að efla velferð hér á landi. Fjárlagfrumvarpið svarar ekki þessu ákalli heldur boðar þvert á móti niðurskurð í opinberri þjónustu og stefnuleysi í tekjutilfærslukerfunum“, segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB í pistli á vef bandalagsins.

Þrátt fyrir að í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2023 sé teiknuð upp mynd af hagkerfi á blússandi siglingu er staðreyndin sú að kaupmáttur hefur rýrnað verulega frá áramótum og stýrivextir hækkað sem hefur rýrt kaupmátt enn frekar.

Í nýlegri greiningu ASÍ kemur fram að tekjuójöfnuður hefur vaxið og skattbyrði allra hópa aukist nema efstu tekjutíundinni. Könnun Vörðu sem framkvæmd var í árslok 2021 sýndi ennfremur fram á að þriðjungur launafólks í aðildarfélögum BSRB og ASÍ átti erfitt með að ná endum saman.

En fjárlagafrumvarpið boðar niðurskurð í velferð og lítið er gert til að tryggja viðunandi lífskjör fyrir fyrir þá hópa sem helst þurfa á því að halda.

Heilbrigðisþjónustan er fjársvelt og líður fyrir skort á starfsfólki en í frumvarpinu er fjárveiting til reksturs sjúkrahúsþjónustu lækkuð um rúmlega 700 milljónir króna að raunvirði. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að bæta mönnun og starfsaðstæður svo hægt sé að veita öllum viðeigandi þjónustu óháð efnahag og búsetu með lægri fjárveitingum til sjúkrahúsþjónustu?

Ekki er að sjá neinar breytingar barnbótakerfinu svo nokkru nemi og húsnæðisstuðningur felst í óljósum fyrirheitum um að efna gefin loforð.

Styrkur hvers samfélags birtist í stöðu viðkvæmustu hópa þess. BSRB kallar eftir því að almannaþjónustan verði styrkt og tryggt verði aukið fjármagn til barnabóta og húsnæðismála. Það fæli í sér raunverulega stefnumörkun um fjárfestingu í fólki og friði.

Pistil Sonju Ýr má lesa hér