19. september 2022
Tímarit Sameykis á leið til félagsfólks
Tímarit Sameykis er nú leið úr prentsmiðjunni og er væntanlegt í pósti til félagsfólks í lok vikunnar.
Tímarit Sameykis er nú leið úr prentsmiðjunni og er væntanlegt í pósti til félagsfólks í lok vikunnar. Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, segir m.a. í leiðaragrein að í komandi kjarasamningum þurfi að vanda vel til verka. Það þurfi að lyfta hinum tekjulægri verulega og það verði að tryggja eðlilegar, sanngjarnar og nauðsynlegar launahækkanir til millitekjuhópanna.
„Áskoranir vinnandi fólks og stéttarfélaga þeirra eru augljóslega að berjast fyrir auknum jöfnuði hér á landi, aukinni velsæld, sterkara heilbrigðiskerfi, verulegri hækkun launa þess fólks sem lægst hefur launin, auknum kaupmætti fyrir félagsmenn alla og betri húsnæðismarkaði fyrir almenning.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB skrifar grein í tímaritið, Í aðdraganda kjarasamninga og segir: „Almannaþjónustan myndar grunnstoðir samfélagsins og skapar gríðarleg samfélagsleg verðmæti. Það er hins vegar flóknara og minni hefð fyrir því að meta þessi verðmæti í krónum og aurum en þau verðmæti sem fyrirtæki skapa og selja sem vöru og þjónustu á markaðsverði. Þetta veldur því að sumum stjórnmálamönnum og forsprökkum í atvinnulífinu hættir til að tala um almannaþjónustu sem bagga á efnahagslífi þjóðarinnar en ekki grunnforsendu allrar frekari verðmætasköpunar.“
Ólafur Margeirsson, doktor í hagfræði, skrifar um húsnæðismál, hvernig stærri leigumarkaður hjálpi tekjulágum. Þá segir hann í greininni að lífeyrissjóðir ættu að fjárfesta í húnæðisuppbyggingu verkalýðsfélaganna í húsnæðisfélögunum Bjarg og Blæ. „Stór leigumarkaður, þar sem stórir fjárfestar byggja íbúðir til þess að leigja þær út, hjálpar þannig flestum, sérstaklega þeim fátækustu. Fjárfestarnir sjálfir, þ.e. lífeyrissjóðir og sjóðfélagar þeirra, hagnast að sama skapi líka því fasteignir skila öruggum leigutekjum og ávöxtun. Áhættuleiðrétt ávöxtun sjóðfélaga lífeyrissjóðanna batnar.“
Ingibjörg Jónsdóttir, prófessor og forstöðumaður Institutet för Stressmedicin í Gautaborg, fjallar um afleiðingar streitu á heilsu fólks á vinnumarkaði og segir: „Flestir einstaklingar sem glíma við kulnun lýsa álagi tengdu bæði vinnustað og heimilisaðstæðum sem vefst saman við aðra þætti eins og t.d. persónuleika og fyrri lífsreynslu. Konur eru að öllu jöfnu undir meira álagi, fyrst og fremst af því að fleiri konur vinna á vinnustöðum þar sem andlegt vinnuálag er mikið, eins og á heilbrigðisstofnunum, skólum eða í öldrunarþjónustu.“
Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, skrifar í tímarit Sameykis og segir að sátt á vinnumarkaði feli ekki einungis í sér samninga um kaup og kjör heldur einnig að fólki finnist það búa í réttlátu samfélagi. Tugmilljónagreiðslur sem samið er um í starfslokasamningum forstjóra fyrirtækja skipta litlu máli í þjóðhagslegu samhengi en stangast á við réttlætistilfinningu stórs hluta þjóðarinnar og eru ekki til þess fallnar að skapa frið á vinnumarkaði. „Heilbrigðisstarfsfólk sinnti störfum af mikilli samviskusemi og dró ekkert undan [...] Það er kaldhæðnislegt að einstaka stjórnmálamenn tala eins og sumar þessara stétta séu byrði á samfélaginu vegna þess að þær starfa innan opinbera geirans.“
Margt fleira efni er í tímaritinu. Fjallað er um stöðu fangavarða í fangelsum landsins, Gott að vita námskeið, kjaramál og kjarasamninga, skoðanapistlar frá félagsfólki í Sameyki, af vettvangi Sameykis í norrænu samstarfi, stappað í matargatið, skop Halldórs Baldurs o.m.fl.