26. september 2022
Í aðdraganda kjarasamninga
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Þetta veldur því að sumum stjórnmálamönnum og forsprökkum í atvinnulífinu hættir til að tala um almannaþjónustu sem bagga á efnahagslífi þjóðarinnar en ekki grunnforsendu allrar frekari verðmætasköpunar.
Flestir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði eru lausir 1. nóvember nk. en á opinbera vinnumarkaðnum í lok mars 2023. Fjölmiðlaumfjöllun í aðdraganda kjarasamninga er þegar hafin þar sem gjarnan er haft eftir atvinnurekendum, Seðlabankanum og ríkisstjórninni að svigrúm til launahækkana sé lítið. Hér verður fjallað aðeins nánar um svigrúmið og sýn BSRB á umræðuna.
Hvað er svigrúm?
Svigrúmið svokallaða vísar til mælieininga eins og launahlutfalls, framleiðni og samkeppnishæfni. Þau sem telja svigrúmið lítið minnast ekkert á að launahlutfallið, eða hlutdeild launafólks í verðmætasköpun fyrirtækja, var lægra á árinu 2021 en 2018 í flestum öðrum greinum almenna markaðarins en ferðaþjónustu (Sjá: Kjaratölfræðinefnd (2022) og Vorskýrslu 2022 á vef Kjaratölfræðinefndar, ktn.is). Þetta þýðir að fyrirtækin hafa svigrúm til að hækka laun og þurfa ekki að velta þeirri hækkun út í verðlag. Framleiðni, eða framleiðsla á hverja vinnustund, hefur líka aukist á Íslandi og ef litið er aftur til aldamóta má segja að vöxtur launa og framleiðni hafi haldist nokkurn veginn hönd í hönd þó heldur halli á launin í því sambandi (Sjá: Arnaldur Sölvi Kristjánsson og Róbert Farestveit. (2022). Launaþróun og framleiðni. Vísbending, 6(40), bls. 2-3). Hvað samkeppnishæfni varðar þá er samkeppnisstaða stærstu útflutningsgreinanna á Íslandi mjög hagfelld um þessar mundir og eftirspurn mikil eftir sjávarafurðum, áli og Íslandi sem áfangastað. Svigrúm til launahækkana er því svo sannarlega til staðar og allt tal um annað er úr lausu lofti gripið.
Hvers virði er opinber þjónusta?
Á opinbera markaðnum snýst svigrúmið hins vegar um stefnumörkun í opinberum fjármálum. Hvaða grunnþjónustu við viljum veita, hvort við viljum tryggja aðgengi allra að nauðsynlegri þjónustu, hvað fólk á að borga fyrir slíka þjónustu og hvernig við tryggjum gæði þjónustunnar. Á undanförnum árum hafa ýmsir skattar verið lækkaðir án þess að ríkið hafi fundið aðrar leiðir til tekjuöflunar. Ófjármagnaðar skattalækkanir síðustu ára fela því í raun í sér þá stefnu að ríkið vilji veita minni þjónustu, takmarka aðgengi að henni eða láta þá sem þurfa á þjónustunni að halda borga meira.
BSRB hefur ítrekað varað við þessari stefnu sem hefur nú þau áhrif að tekjur hins opinbera standa ekki undir því þjónustustigi sem við teljum viðunandi til að tryggja velferð og jöfnuð. Þetta er m.a. staðfest af ríkisstjórninni í fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027 og í álitsgerð fjármálaráðs um áætlunina. Margar mikilvægar stofnanir eru því vanfjármagnaðar og eiga sífellt erfiðara með að laða til sín starfsfólk vegna lakra launakjara og erfiðs starfsumhverfis. Nærtækustu dæmin eru Landspítali og leikskólar þó það sama eigi við um fjölmargar opinberar stofnanir. Þessi staða veldur því að álag á starfsfólk vex stöðugt og þjónustan skerðist smám saman með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á samfélagið.
Almannaþjónustan myndar grunnstoðir samfélagsins og skapar gríðarleg samfélagsleg verðmæti. Það er hins vegar flóknara og minni hefð fyrir því að meta þessi verðmæti í krónum og aurum en þau verðmæti sem fyrirtæki skapa og selja sem vöru og þjónustu á markaðsverði. Þetta veldur því að sumum stjórnmálamönnum og forsprökkum í atvinnulífinu hættir til að tala um almannaþjónustu sem bagga á efnahagslífi þjóðarinnar en ekki grunnforsendu allrar frekari verðmætasköpunar. Það segir sig eiginlega sjálft að góð heilbrigðis- og félagsþjónusta og öflugt menntakerfi eru ekki síður mikilvæg fyrir fyrirtækin en fólkið í landinu. Áhrifin á einstaklingana eru þó miklu skýrari. Lenging biðlista eftir nauðsynlegum aðgerðum bitnar harðast á sjúklingum og fjölskyldum þeirra og skortur á leikskólaplássum bitnar á ungum börnum og aðstandendum þeirra.
Veiking grunnþjónustunnar gerir starfsaðstæður þeirra sem henni sinna verri. Hún kemur líka verst niður á þeim sem hafa lægstu launin og eru í störfum sem bjóða upp á lítinn sveigjanleika. Grunnþjónustu er að miklu leyti sinnt af konum sem treysta jafnframt á hana til þess að geta sinnt störfum sínum. Skerðing á nauðsynlegri þjónustu takmarkar getu kvenna til þess að sinna starfi sínu og eykur álag á þær utan vinnutíma.
Bæta þarf kjörin á opinbera vinnumarkaðnum
Í vorskýrslu Kjaratölfræðinefndar 2022 kemur fram að laun innan hverra heildarsamtaka launafólks eru alltaf hæst á almenna markaðnum. Á kjarasamningstímabilinu hafa laun á opinbera markaðnum hækkað hlutfallslega meira að meðaltali en á þeim almenna. Hvað varðar BSRB má einna helst rekja þá þróun til þess að krónutöluhækkanir valda hlutfallslega meiri hækkunum fyrir lægri launin og svo hefur stytting vinnuvikunnar haft áhrif til hækkunar launavísitölu.
Þá má ekki gleyma því að samhliða breytingum á skipan lífeyrismála á opinberum vinnumarkaði lofuðu stjórnvöld að laun yrðu jöfnuð milli vinnumarkaðanna tveggja. Sömuleiðis vitum við að ein meginástæðan fyrir kynbundnum launamun er hversu kynskiptur vinnumarkaðurinn er og fleiri konur starfa á opinberum vinnumarkaði en hinum almenna.
Til þess að tryggja grunnstoðir samfélagsins er mikilvægt að við greiðum þeim stéttum sem sinna opinberri þjónustu sanngjörn og réttlát laun. Í aðdraganda kjarasamninga er óhjákvæmilegt að litið sé til stöðu ríkissjóðs og sveitarfélaganna og að tekjuöflunarkerfi þeirra geti tryggt þá velferð, jöfnuð og kjarabætur sem samfélagsgerð okkar hverfist um. Hið opinbera þarf styrka tekjustofna og ábyrga skattlagningu svo hægt sé að manna þær mikilvægu stöður sem starfsfólk almannaþjónustunnar sinnir og af þeim gæðum sem samfélagið gerir kröfu um.
Höfundur er formaður BSRB.