Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

26. september 2022

Ríkisstjórnin rekur ekki efnahagsstjórn fyrir almannahag

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis. Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, segir í leiðaragrein í nýjasta tímariti Sameykis að það hafi verið aumkunarvert að sjá og heyra forystufólk þjóðarinnar og sendisveina atvinnurekenda senda launafólki tóninn fyrir komandi kjarasamninga.

„Forystufólk atvinnurekenda kyrjar sömu möntruna um nauðsynlega hógværð vinnandi fólks og innan úr Seðlabanka og Stjórnarráðinu heyrast nú raddir um að ekkert sé til í ríkiskassanum, ekkert svigrúm til launahækkana sé til staðar, reiknað launahlutfall sé alltof hátt: Það sé bara ekkert til skiptanna! Við sjáum á sama tíma hvernig eigendur fyrirtækja á almennum markaði hafa fitað launatékkana til stjórnenda en á sama tíma blásið í herlúðra gegn hugsanlegum launakröfum almennings.“

Þá segir Þórarinn að síðasta ár hafi verið metár fyrir mörg fyrirtæki og fjármagnseigendur og að stór hluti þeirra hafi grætt á tá og fingri á meðan hafi ríkisstjórnin á sama tíma staðið fyrir skattalækkunum og breytingum á tekjustofnum, sem hafa bæði rýrt möguleika ríkisins til að standa fyrir nauðsynlegri uppbyggingu á innviðum og styrkja velferðarkerfi okkar þannig að það standist eðlileg gæðaviðmið.

Einnig segir hann að það sé vel sýnilegt hvernig sjávarútvegurinn, stóriðjan og ferðaþjónustan hafa blásið út og á stjórnarheimilinu sé ekki rekin efnahagsstefna fyrir almannahag.

„Arðgreiðslur eru í hæstu hæðum og greiðslur til samfélagsins fyrir aðgang að náttúruauðlindum eru í engu samræmi við ofurhagnað stórútgerða. Skattlagning á hagnaði og arðgreiðslum er út úr öllu korti og tími til kominn til að færa þjóðinni aftur það sem þjóðin á. Svo ekki sé minnst á að skila á aftur til þjóðarinnar þeim hagnaði að stærstum hluta þegar eignir eru fluttar frá nýtingaraðila auðlinda til næstu kynslóðar eða óskyldra aðila. Hugmyndin um efnahagsstefnu fyrir almannahag er víðs fjarri á stjórnarheimilinu og fjármálaelítan hlær með kreppta stálhnefa í silkihönskum.“

Hægt er að lesa leiðaragrein formanns Sameykis í heild hér.