26. september 2022
Sannarlega svigrúm til launahækkana
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Ljósmynd/Haraldur Jónasson
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir í grein í nýjasta tímariti Sameykis að sannarlega sé svigrúm til launahækkana og allt tal um annað sé úr lausu lofti gripið.
„Á opinbera markaðnum snýst svigrúmið hins vegar um stefnumörkun í opinberum fjármálum. Hvaða grunnþjónustu við viljum veita, hvort við viljum tryggja aðgengi allra að nauðsynlegri þjónustu, hvað fólk á að borga fyrir slíka þjónustu og hvernig við tryggjum gæði þjónustunnar. Á undanförnum árum hafa ýmsir skattar verið lækkaðir án þess að ríkið hafi fundið aðrar leiðir til tekjuöflunar. Ófjármagnaðar skattalækkanir síðustu ára fela því í raun í sér þá stefnu að ríkið vilji veita minni þjónustu, takmarka aðgengi að henni eða láta þá sem þurfa á þjónustunni að halda borga meira.“
Þá segir Sonja Ýr að stjórnvöld hafi ekki enn efnt loforð um að jafna laun milli vinnumarkaða.
„Þá má ekki gleyma því að samhliða breytingum á skipan lífeyrismála á opinberum vinnumarkaði lofuðu stjórnvöld að laun yrðu jöfnuð milli vinnumarkaðanna tveggja. Sömuleiðis vitum við að ein meginástæðan fyrir kynbundnum launamun er hversu kynskiptur vinnumarkaðurinn er og fleiri konur starfa á opinberum vinnumarkaði en hinum almenna. Til þess að tryggja grunnstoðir samfélagsins er mikilvægt að við greiðum þeim stéttum sem sinna opinberri þjónustu sanngjörn og réttlát laun. Í aðdraganda kjarasamninga er óhjákvæmilegt að litið sé til stöðu ríkissjóðs og sveitarfélaganna og að tekjuöflunarkerfi þeirra geti tryggt þá velferð, jöfnuð og kjarabætur sem samfélagsgerð okkar hverfist um.“
Formaður BSRB segir að margar mikilvægar stofnanir séu vanfjármagnaðar og eiga sífellt erfiðara með að laða til sín starfsfólk vegna lakra launakjara og erfiðs starfsumhverfis. Nærtækustu dæmin séu Landspítalinn og leikskólarnir og fjölmargar opinberar stofnanir. Þá hafi þessi staða valdið því að álag á starfsfólk vex stöðugt og þjónustan skerðist smám saman með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á samfélagið.
„Almannaþjónustan myndar grunnstoðir samfélagsins og skapar gríðarleg samfélagsleg verðmæti. Það er hins vegar flóknara og minni hefð fyrir því að meta þessi verðmæti í krónum og aurum en þau verðmæti sem fyrirtæki skapa og selja sem vöru og þjónustu á markaðsverði. Þetta veldur því að sumum stjórnmálamönnum og forsprökkum í atvinnulífinu hættir til að tala um almannaþjónustu sem bagga á efnahagslífi þjóðarinnar en ekki grunnforsendu allrar frekari verðmætasköpunar. Það segir sig eiginlega sjálft að góð heilbrigðis- og félagsþjónusta og öflugt menntakerfi eru ekki síður mikilvæg fyrir fyrirtækin en fólkið í landinu.“
Lesa má grein formanns BSRB hér.