26. september 2022
Um laun og kjarasamninga
Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson
Heilbrigðisstarfsfólk sinnti störfum af mikilli samviskusemi og dró ekkert undan ... Það er kaldhæðnislegt að einstaka stjórnmálamenn tala eins og sumar þessara stétta séu byrði á samfélaginu vegna þess að þær starfa innan opinbera geirans.
Á næstu mánuðum verður samið um kaup og kjör fyrir þorra launafólks. Þá er samið um skiptingu þeirra verðmæta sem verða til í hagkerfinu á milli eigenda fjármagns og launafólks og einnig um skiptingu launa á milli hinna ýmsu hópa launafólks.
Þótt margir eigi erfitt að ná endum saman um þessar mundir þá eru lífskjör engu að síður góð hér á landi í samanburði við allflest önnur ríki, tekjur jafnari og eignir umfram skuldir heimila miklar að meðaltali í alþjóðlegum samanburði. Atvinnuleysi er sömuleiðis lítið, atvinnuþátttaka mikil og kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aldrei verið meiri en á síðasta ári. Landsmenn njóta hitaveitu sem aldrei fyrr en verð á húshitun í Evrópu hefur hækkað mikið vegna styrjaldarinnar í Úkraínu.
Ósætti á vinnumarkaði getur leitt til verðbólgu
Ef litið er til vinnumarkaðarins þá batna lífskjör til langs tíma þegar framleiðni vinnuafls eykst. Framleiðnivöxturinn stafar af tækniframförum, bættri menntun og þjálfun starfsfólks og einnig af því að framleiðsluþættir leita í hagkvæmari atvinnugreinar, nýjar verða til og aðrar hverfa. Af þessu leiðir þó ekki að kaupmáttur launa þurfi að fylgja meðaltalsframleiðnivexti frá ári til árs. Framleiðni er mismunandi á milli atvinnugreina og hún getur vaxið hraðar í sumum greinum en öðrum.
Frá ári til árs skiptir máli að sátt ríki á vinnumarkaði, eigendur fjármagns (fyrirtækja) sættist við launafólk um skiptingu verðmætanna og launafólk sé sátt innbyrðis þegar kemur að hlutfallslegum launum á vinnumarkaði. Ósætti getur leitt til verðbólgu þegar launafólk fer fram á meiri launahækkanir en fyrirtæki eru reiðubúin að samþykkja og fyrirtækin velta þeim út í verðlagið sem síðan kallar á frekari launahækkanir.
Laun ákvarðast af samningsstyrk
Flestar starfsstéttir búa ekki við þær aðstæður að laun mótist af framboði og eftirspurn. Í mörgum atvinnugreinum er einungis einn atvinnurekandi eða fáeinir, svo sem í heilbrigðiskerfinu, í fiskvinnslu úti á landi og í skólakerfinu svo nokkur dæmi séu tekin. Laun ákvarðast þannig einungis að litlu leyti af framboði og eftirspurn heldur fremur af samningsstyrk aðila. Það er helst í greinum eins og ferðaþjónustu og smásöluverslun að mörg fyrirtæki keppa um þjónustu starfsfólks og framboð og eftirspurn ná að leika saman.
Ef laun ákvarðast einungis að takmörkuðu leyti af framboði og eftirspurn, getum við þá verið viss um að tekjuskiptingin sé réttlát í einhverjum skilningi? Að hún sé hagkvæm? Tökum sem dæmi störf slökkviliðsmanna. Í þjóðhagsreikningum er verðmæti þjónustu þeirra metið með þeim launum sem hið opinbera greiðir þeim og ákvörðuð eru í kjarasamningum og taka væntanlega tillit til launa viðmiðunarstétta – en hvert er raunverulegt verðmæti þessara starfa? Ein leið til þess að meta það væri að spyrja hvern borgarbúa hvað viðkomandi væri tilbúinn að greiða fyrir að hafa slökkvilið. Án efa kæmi þá út upphæð sem væri mun hærri en sú sem greidd er á ári hverju til slökkviliðsins. Hið sama mætti segja um heilbrigðisþjónustuna og skólana svo tvö dæmi séu nefnd. Laun kennara eru í litlum tengslum við verðmæti starfa þeirra. Hvers virði er kennari sem hefur jákvæð áhrif á uppeldi og þroska ungu kynslóðarinnar?
Atvinnugreinar hafa þó ekki einungis bein áhrif á þá sem njóta þjónustu þeirra, þær hafa einnig óbein áhrif. Kennarar sem kenna nemendum að lesa, að sýna öðrum virðingu og vera ábyrgir þjóðfélagsþegnar bæta þjóðfélagið með því að búa til upplýsta og ábyrga þjóðfélagsþegna. Heilbrigðisstarfsfólk sem hlúir að sjúkum bætir einnig lífsgæði, ekki aðeins þeirra sem njóta heilbrigðisþjónustunnar heldur einnig ættingja og vina. Vel heppnuð læknismeðferð hefur langvarandi áhrif á lífsgæði fólks.
Stéttir opinberra starfsmanna eru ekki byrði á samfélaginu
Í COVID-19 farsóttinni hefur mikilvægi ýmissa starfsstétta komið skýrar í ljós. Þetta eru þær stéttir sem kalla má grunnstoðir samfélagsins. Heilbrigðisstarfsfólk sinnti störfum af mikilli samviskusemi og dró ekkert undan, kennarar reyndu sitt besta að láta ekki farsóttina bitna á nemendum sínum, sjómenn fóru á miðin þótt hætta væri á að þeir smituðust af sóttinni í lokuðum rýmum togara og þannig mætti lengi telja. Það er kaldhæðnislegt að einstaka stjórnmálamenn tala eins og sumar þessara stétta séu byrði á samfélaginu vegna þess að þær starfa innan opinbera geirans. Opinber rekstur skóla og heilbrigðisstofnana tryggir jafnan aðgang að þjónustunni en framlag til samfélagsins er engu minna en ef um einkarekna skóla og heilbrigðisstofnanir væri að ræða.
Sátt á vinnumarkaði felur ekki einungis í sér samninga um kaup og kjör heldur einnig að fólki finnist það búa í réttlátu samfélagi. Tugmilljónagreiðslur sem samið er um í starfslokasamningum forstjóra fyrirtækja skipta litlu máli í þjóðhagslegu samhengi en stangast á við réttlætistilfinningu stórs hluta þjóðarinnar og eru ekki til þess fallnar að skapa frið á vinnumarkaði. Hið sama má segja um launakjör margra þeirra. Milljarða arðgreiðslur úr fyrirtækjum sem veita grunnþjónustu eru heldur ekki líklegar til að skapa sátt.
Gjá milli þjóðfélagshópa
Gjá hefur smám saman myndast á milli hinna ýmsu þjóðfélagshópa. Lægst settir eru innflytjendur sem sinna ýmsum grunnstörfum í heilbrigðiskerfinu, starfa í byggingageiranum, í ferðaþjónustu og í fiskvinnslu. Þeir eru orðnir ómissandi hlekkur í hagkerfi okkar. Kjör eru samt oft mjög bág og dæmi eru um að gengið sé á réttindi þessa fólks. Næst má finna ófaglærða (innfædda) Íslendinga, síðan þá sem hafa lengri menntun að baki, starfsnám eða bóknám. Stjórnendur í stórum fyrirtækjum eru betur launaðir og einnig háttsettir yfirmenn í ráðuneytum. Efst sitja svo „eigendur“ náttúruauðlinda sem virðast smám saman vera að eignast stóran hluta atvinnulífsins.
Launahækkanir mega ekki velta út í verðlagið
Hlutverk verkalýðsfélaga og atvinnurekenda er að semja um laun í hinum ýmsu atvinnugreinum. Frá þjóðhagslegu sjónarmiði er mikilvægt að launasamningar séu ekki gerðir með þeim hætti að launahækkanir velti jafnóðum út í verðlagið sem síðan kalli á enn frekari launahækkanir. Þá getur reynst erfitt að vinda ofan af verðbólguskrúfunni og hækkandi vextir koma illa niður á þeim sem veikast standa á húsnæðismarkaði. Það er þó hægt að láta sum laun hækka meira en önnur ef afkoma atvinnugreina leyfir án þess að verðbólga aukist.
Það er óskandi að aðilar vinnumarkaðar, bæði launafólk og atvinnurekendur, sýni ábyrgð við gerð kjarasamninga í vetur þannig að verðbólga fari ekki vaxandi og hjálpist að við að byggja upp réttlátara samfélag. Vonandi munu þeir fylgja þeirri gullnu reglu að koma fram við aðra eins og þeir vilja að aðrir komi fram við sig.
Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.
Greinin birtist fyrst í september útgáfu Sameykis.