Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

26. september 2022

Verið úti!

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis. Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson

Í komandi kjarasamningum þarf að vanda vel til verka. Það þarf að lyfta hinum tekjulægri verulega og það þarf að tryggja eðlilegar, sanngjarnar og nauðsynlegar launahækkanir til millitekjuhópanna.

Það hefur verið aumkunarvert að sjá og heyra forystufólk þjóðarinnar og sendisveina atvinnurekenda senda launafólki tóninn fyrir komandi kjarasamninga.

Forystufólk atvinnurekenda kyrjar sömu möntruna um nauðsynlega hógværð vinnandi fólks og innan úr Seðlabanka og Stjórnarráðinu heyrast nú raddir um að ekkert sé til í ríkiskassanum, ekkert svigrúm til launahækkana sé til staðar, reiknað launahlutfall sé alltof hátt: Það sé bara ekkert til skiptanna! Við sjáum á sama tíma hvernig eigendur fyrirtækja á almennum markaði hafa fitað launatékkana til stjórnenda en á sama tíma blásið í herlúðra gegn hugsanlegum launakröfum almennings.

Síðasta ár var metár fyrir mörg fyrirtæki og fjármagnseigendur. Stór hluti þeirra græddi á tá og fingri. Þvílík veisla var á hlutabréfamarkaði að menn höfðu bókstaflega ekki séð annað eins. Menn ryksuguðu til sín stórgróða og nýttu hann meðal annars til að sópa til sín fasteignum á markaði þannig að framboð datt niður í nánast ekki neitt og verð fasteigna hækkaði með áður óséðum hraða. Með ofvaxið eigið fé og lánsfé á gjafverði var íbúðaverð sprengt upp þannig að samfélagið verður án efa mörg ár að jafna sig eftir þessa atlögu.

Með góðum stuðningi Seðlabankans, með sínum vaxtalækkandi og -hækkandi skautadansi, hefur fjöldi fjölskyldna komist í veruleg vandræði. Það var gert með vanhugsuðum stýrivaxtabreytingum og fullyrðingum um að verðtryggingin væri dauð. Nú væri heldur betur gósentíð og fjármagn kostaði svo gott sem ekki neitt. Ríkisstjórnin hefur á sama tíma staðið fyrir skattalækkunum og breytingum á tekjustofnum, sem hafa bæði rýrt möguleika ríkisins til að standa fyrir nauðsynlegri uppbyggingu á innviðum og styrkja velferðarkerfi okkar þannig að það standist eðlileg gæðaviðmið.

Það er vel sýnilegt hvernig sjávarútvegurinn, stóriðjan og ferðaþjónustan hafa blásið út. Arðgreiðslur eru í hæstu hæðum og greiðslur til samfélagsins fyrir aðgang að náttúruauðlindum eru í engu samræmi við ofurhagnað stórútgerða. Skattlagning á hagnaði og arðgreiðslum er út úr öllu korti og tími til kominn til að færa þjóðinni aftur það sem þjóðin á. Svo ekki sé minnst á að skila á aftur til þjóðarinnar þeim hagnaði að stærstum hluta þegar eignir eru fluttar frá nýtingaraðila auðlinda til næstu kynslóðar eða óskyldra aðila. Hugmyndin um efnahagsstefnu fyrir almannahag er víðs fjarri á stjórnarheimilinu og fjármálaelítan hlær með kreppta stálhnefa í silkihönskum.

Það er deginum ljósara að í okkar ágæta landi búa tvær þjóðir – almenningur og hinir ríku. Núverandi ríkisstjórn hefur séð til þess að gjáin milli þessara tveggja þjóða hefur í hennar tíð gliðnað. Hér er ekki um að ræða að byggja brýr. Þessa gjá þarf að fylla upp í. Það þarf að stöðva eignatilfærsluna sem hefur átt sér stað og ná fjármunum almennings til baka. Það þarf sanngjarna skattlagningu á ofurhagnað og hina efnameiri. Það þarf tilfærslu fjármuna og tækifæra til hinna ungu og efnaminni og það þarf að ná fram jöfnuði og jafnræði á ný í okkar ágæta samfélagi. Nýfrjálshyggjan og hugmyndafræði hennar, ásamt varðstöðu þeirra efna- og valdameiri um hagsmuni sjálfra sín hefur skaðað samfélag okkar nóg. Það er löngu tímabært að koma hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar, og forréttindum hinna ofurríku, undir græna torfu.

Í komandi kjarasamningum þarf að vanda vel til verka. Það þarf að lyfta hinum tekjulægri verulega og það þarf að tryggja eðlilegar, sanngjarnar og nauðsynlegar launahækkanir til millitekjuhópanna. Áskoranir vinnandi fólks og stéttarfélaga þeirra eru augljóslega að berjast fyrir auknum jöfnuði hér á landi, aukinni velsæld, sterkara heilbrigðiskerfi, verulegri hækkun launa þess fólks sem lægst hefur launin, auknum kaupmætti fyrir félagsmenn alla og betri húsnæðismarkaði fyrir almenning. Aukinheldur þarf að knýja opinbera atvinnurekendur til að standa við gerða samninga. Samningurinn um jöfnun launa milli markaða sem gerður var 2016 hefur verið fótum troðinn af hálfu opinberra atvinnurekenda. Það er ekki hyggilegt fyrir ríki, Reykjavíkurborg og sveitarfélögin að gera ráð fyrir að samningar náist ef ekki verður búið að tryggja efndir samningsins í tíma.

Verkalýðshreyfingin þarf nú að sýna samstöðu og samtakamátt. Það er óþarfi að taka því þegjandi að vera sagt að vera úti meðan valda- og fjármálaelítan gleypir í sig kræsingarnar innan dyra og almenningur er fastur í framfærslukrísu.

 

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis.

Leiðaragreinin birtist fyrst í tímariti Sameykis 3. tbl. 2022