27. september 2022
„Lífeyrissjóðir eiga að fjárfesta í húsnæðisuppbyggingu“
Fulltrúar BSRB og ASÍ skoða uppbyggingu húsnæðis Bjargs í Reykjavík. Ljósmynd/Axel Jón
Ólafur Margeirsson, doktor í hagfræði, segir að íslenskir lífeyrissjóðir eigi að fjárfesta í húsnæðisuppbyggingu verkalýðsfélaganna með tilkomu íbúðafélagsins Blæs.
Ólafur segir það mikið framfaraskref fyrir heilbrigðan og þjóðhagslega hagkvæman leigu- og fasteignamarkað þegar Blær íbúðafélag var stofnað, en fyrir reka bandalögin Bjarg íbúðafélag sem er húsnæðissjálfseignarstofnun stofnuð af ASÍ og BSRB. Bjarg íbúðafélag er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.
„Blær er næsta þrep fyrir ofan Bjarg þegar kemur að hagnaðarsjónarmiðum á leigumarkaði: Á meðan Bjarg er rekið án hagnaðarsjónarmiða er ætlunin með Blæ að reka það sem lághagnaðarfélag.“
Þá segir hann að stóraukið magn af íbúðum til leigu, jafnvel þó þær íbúðir séu ekki sérstaklega leigðar til hinna fátækustu, heldur leigu- og fasteignaverði niðri sem aftur hjálpar þeim helst sem eru með lægstu tekjurnar í viðkomandi samfélagi.
„Minni þrýstingur verður í kjölfarið á launakröfur því laun þurfa nú að hækka um færri prósentur á ári til þess að skila sömu raunlaunahækkuninni að teknu tilliti til húsnæðiskostnaðar. Verðbólguþrýstingur lækkar einnig, sem aftur leiðir til lægra vaxtastigs. [...] Fjárfestarnir sjálfir, þ.e. lífeyrissjóðir og sjóðfélagar þeirra, hagnast að sama skapi líka því fasteignir skila öruggum leigutekjum og ávöxtun. Áhættuleiðrétt ávöxtun sjóðfélaga lífeyrissjóðanna batnar.“
Lestu grein Ólafs Margeirssonar hér.