29. september 2022
Kröfugerð á kjaramálaráðstefnu
Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis.
Stjórnvöld hafa skapað þennan vanda og að auki veikt tekjustofnana og svelt innviðina eins og blasir við þjóðinni í heilbrigðiskerfinu.
Í dag var haldinn kjaramálaráðstefna trúnaðarmannaráðs Sameykis. Tilgangur ráðstefnunnar er að kynna fyrir félagsfólki kjarasamningagerðina, umræðu um efnahagsmál, áróður Samtaka atvinnulífsins gegn opinberum starfsmönnum o.fl. Metfjöldi gesta var á ráðstefnunni sem haldin var í Gullhömrum í Grafarholti.
Þórarinn Eyfjörð rifjaði upp orð seðlabankastjóra frá 17. júlí 2020: „Verðtryggingin var upphaflega sett á vegna þess að við réðum ekki við verðbólguna. Núna eru tímarnir breyttir. Í fyrsta sinn er það raunverulegur valkostur fyrir heimilin að skipta yfir í nafnvexti og þannig afnema verðtrygginguna að eigin frumkvæði af sínum lánum. Þetta eru mikil tímamót og fela í sér að verðtryggingin mun deyja út.“
Þórarinn ræddi við fundargesti um stöðuna sem blasir við í dag.
„Í dag er staðan sú að kaupmáttur launa hefur dregist mikið saman, íbúðaverð hefur rokið upp í hæstu hæðir frá árinu 2018 þegar íbúðaverð, verðlag og kaupmáttur launa hélst nánast í hendur. Kaupmátturinn er á leið lóðbeint niður á við miðað við íbúðaverð og verðbólgan hefur valdið almenningi stórskaða. Stjórnvöld hafa skapað þennan vanda og að auki veikt tekjustofnana og svelt innviðina eins og blasir við þjóðinni í heilbrigðiskerfinu. Það er gert til að koma því í hendur einkaaðila. Þá er fólk sem lifir eingöngu á fjármagnstekjum og tekur ekki þátt í samfélaginu því það greiðir ekki útsvar af fjármagnstekjum. Það greiðir ekki fyrir innviðina; vegina, skólana, leikskólana, velferðarkerfið o.fl. Þetta eru þeir ofurríku hér á landi sem stjórnvöld hlífa á meðan launafólki blæðir.“
Nú er yfirstandandi þjóðfundarform á ráðstefnunni þar sem fjallað verður um kröfugerðir fyrir komandi kjarasamninga.