Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

30. september 2022

Samtök atvinnulífsins vilja veikja verkalýðshreyfinguna

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.

Formaður Samtaka atvinnulífsins, Eyjólfur Árni Rafnsson, sagði á ársfundi samtakanna að breyta þurfi vinnulöggjöfinni og tekur í sama streng og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sem sagði nýverið í Morgunblaðinu, „[...] að uppfæra þyrfti íslenska vinnumarkaðsmódelið í samræmi við breytingar hagkerfisins og nauðsynlegt að taka meira tillit til þarfa atvinnulífsins.“ Sagði Bjarni að laun væru greidd í dagvinnu og yfirvinnu, sem að hans mati hentaði ekki í atvinnugreinum þar sem fólk þyrfti að vera á vaktinni allan sólarhringinn og fyrir fyrirtæki sem réðu til sín námsmenn.

Þessar skoðanir fjármálaráðherra þýða að hann vilji, líkt og formaður SA, meira svigrúm til að lækka launin hjá þeim lægst launuðu og launafólk sem vinnur vaktavinnu taki á sig sjálft kostnað artvinnurekandans við reksturinn með sömu laun fyrir dagvinnu og vaktavinnu.


Þá vék formaður SA sögunni að ársreikningum fyrirtækja og sagði m.a.:

„Öllum fyrirtækjum er nú gert að skila ársreikningum sem eru aðgengilegir þeim sem áhuga hafa. Á sama tíma búa verkalýðsfélögin yfir milljarða sjóðum sem lúta fáum reglum og nánast engri innsýn hvorki fyrir félagsmenn, almenning eða eftirlitsstofnanir. Skipulag verkalýðshreyfingarinnar er einnig verulega frábrugðið því sem tíðkast umhverfis okkur. Allt kallar þetta á heildarendurskoðun vinnulöggjafarinnar og verður það brýnna með hverju árinu sem líður.“

Formaður SA virðist ekki gera sér grein fyrir því að verkalýðshreyfingin er ekki fyrirtæki heldur félagasamtök launafólks í landinu – grasrótarhreyfing. Samið er um greiðslur atvinnurekenda í sjóðina í kjarasamningum og eru þeir því augljóslega gegnsæir. Þessa sjóði á félagsfólk sjálft og nýtir rétt sinn til heilsueflingar, vegna veikinda, til að mennta sig o.s.frv. Þessi orðræða formannsins og fjármálaráðherra snýr að því að veikja verkalýðsfélög og þar með samfélagið hér á landi sem byggir á grasrótarstarfi launafólks, sem sækir réttindi og kjarabætur í gegnum verkalýðsbaráttu.

Það rangt að halda því fram að ekki sé eftirlit með verkalýðsfélögum. Þau skila sínum ársreikningum og uppgjöri á hverju ári þar sem félagsfólk stéttarfélaga og opinberar stofnanir hafa greiðan aðgang að. Um er að ræða styrktarsjóði, orlofssjóði og starfsmenntunarsjóði verkalýðsfélaga og kynntir eru ársreikningar þeirra á aðalfundum ár hvert.

Eyjólfur Árni kvartar í ávarpi sínu undan kröfum verkalýðsfélaganna og reynir að sverta málstað þeirra vegna komandi kjarasamninga. Hann líkir baráttu stéttarfélaganna fyrir betri kjörum og auknum réttindum við það sem verst gerist á samfélagsmiðlum. Þá hefur verkalýðshreyfingin ítrekað bent á slæma þróun vegna sveltistefnu stjórnvalda í heilbrigðiskerfinu og styrktarkerfum ríkisins og það telur formaður SA verkalýðshreyfingunni til hnjóðs – hún á að gefa eftir í kröfugerðum sínum.

Eyjólfur Árni segir: „Við fylgjumst með átökum innan verkalýðshreyfingarinnar og orðræðu sem líkist mest því sem verst er á samfélagsmiðlunum. Kröfugerðir stéttarfélaganna hafa verið að koma fram og auk mikilla launahækkana er þar farið fram á breytingar á heilbrigðiskerfi þjóðarinnar, millifærslum ríkis og sveitarfélaga og fjármálastefnu ríkisins svo dæmi séu tekin. Þetta líkist meira því að forystumenn stéttarfélaganna vilji taka fram fyrir hendurnar á stjórnvöldum sem kjósendur velja í þing- og sveitarstjórnarkosningum en að gera kjarasamninga. En til þess hefur þetta fólk takmarkað umboð – hvort sem er í skjóli vinnulöggjafarinnar eða frá félagsmönnum sínum sem taka sjálfir þátt í kosningum til þings og sveitastjórna.“

Að lokum er margkveðin sú þreytta vísa að launahækkanir muni renna beint út í verðlag. Það er á valdi stjórnmálanna að leysa í gegnum hagstjórn landsins. Það væri auðvitað líka gott ef Eyjólfur Árni og sveit hans, fyrirtækin sjálf innan Samtaka atvinnulífsins, tækju þátt í þeirri ábyrgð að vernda kaupmáttinn.

Lesa má ávarp formanns SA hér.