Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

12. október 2022

Afleiðingar streitu á heilsu fólks á vinnumarkaði

Frekar ætti að huga að því að koma í veg fyrir meginvandann, nefnilega sjálft álagið sem tengist starfsskipulagi, stjórnun og samskiptum.

Þær breytingar sem hafa átt sér stað eru meira tengdar aukinni skriffinnsku, tölvuvæðingu sem er illa aðlöguð að starfseminni, óljósum starfslýsingum, óskýrri stjórnun og lélegum samskiptum.

Eftir Ingibjörgu Jónsdóttur

Undanfarin misseri hefur umræða um afleiðingar streitu á heilsu fólks á vinnumarkaði aukist. Sú umræða er þó oft einfölduð þar sem um flókið fyrirbæri er að ræða. Rannsóknir síðustu ára hafa sýnt fram á að langvarandi streituálag getur aukið líkurnar á bæði líkamlegum og andlegum heilsufarsvandamálum. Til dæmis er vitað að langvarandi streituálag er einn af mörgum þáttum sem geta aukið líkur á hjartaáfalli en það er mikilvægt að benda á að mismunandi áhættuþættir ásamt líffræðilegum og erfðafræðilegum þáttum eru alltaf samofnir. Heilsueflandi þættir eru líka margir og því mjög einstaklingsbundið hvaða áhrif langvarandi streituálag hefur á mismunandi einstaklinga. Flestir einstaklingar þróa ekki með sér heilsufarsvandamál þó álag sé mikið, fyrst og fremst vegna þess að líkaminn fær oftast nægjanlega hvíld á milli álagspunkta.

Andleg heilsufarsvandamál sem afleiðing langvarandi streituálags eru oft tengd einkennum kvíða og þunglyndis. Sálræn þreyta er einnig þekkt sem ein helsta afleiðing langvarandi streitu og í þessu samhengi er hugtakið kulnun (e. burnout), eða sjúkleg streita oft notað. Skilningur á hugtakinu kulnun hefur breyst nokkuð frá því að rannsóknir á kulnun hófust fyrir um það bil 50 árum og hugtakið túlkast á mismunandi hátt. Sumir tengja orðið kulnun við aðstæður einstaklinga á vinnustað þar sem er mikið andlegt streituálag, meðan kulnun er einnig notuð til þess að lýsa sjúkdómseinkennum. Í sumum löndum er hugtakið „klínísk kulnun“ (e. clinical burnout) notuð á meðan í öðrum löndum eins og Svíþjóð eru hugtökin „utmattningssyndrom (UMS)“ eða „exhaustion disorder“ notuð.

 

Hvaða einstaklingar geta lent í klínískri kulnun og af hverju?
Flestir einstaklingar sem upplifa mikla streitu þurfa ekki að leita hjálpar hjá fagaðilum. Vægari streitutengd einkenni svo sem magatruflanir, svefntruflanir, pirringur, höfuðverkur og áhyggjur eru merki um að huga þurfi að álagspunktum og að nægjanleg hvíld sé tryggð. Þegar um klíníska kulnun er að ræða eru þreytueinkenni alvarlegri og í þessum tilvikum er nauðsynlegt að leita til fagaðila. Verulegar svefntruflanir, kvíða- og þunglyndiseinkenni og áhrif á heilastarfsemi hvað varðar gleymsku og einbeitingartruflanir eru algeng einkenni og bati getur tekið tíma.

Rannsóknir síðustu ára hafa sýnt fram á að margir einstaklingar sem greindir eru með klíníska kulnun/sjúklega streitu eru í raun að glíma við annað eins og til dæmis geðhvörf, áfallastreituröskun, þunglyndi eða athyglisbrest. Oftar en ekki koma einkenni þessara greininga fram þegar um mikið álag er að ræða, bæði á vinnustað og í einkalífinu. Það er mikilvægt að fólk fái rétta greiningu og að kulnunargreining sé ekki notuð ef um aðrar greiningar er að ræða. Ferlið hvað varðar kulnun er mjög einstaklingsbundið og margt bendir til að huga þurfi að mismunandi þáttum. Samkvæmt nýjustu rannsóknum glíma t.d. margir einstaklingar með kulnun við miklar einstaklingsbundnar kröfur á sjálfa sig, eru svokallaðir fullkomnunarsinnar. Aðrir bera með sér atferli frá uppeldinu sem tengist að taka allt inn á sig og biðja aldrei um hjálp. Sumir einstaklingar eru að glíma við aðstæður heima fyrir sem þarf að huga að til að koma í veg fyrir of mikið álag.

 

Vinnuaðstæður og jafnréttismál
Flestir einstaklingar sem glíma við kulnun lýsa álagi tengdu bæði vinnustað og heimilisaðstæðum sem vefst saman við aðra þætti eins og t.d. persónuleika og fyrri lífsreynslu. Það er ekki alltaf hægt að aðskilja mismunandi þætti í lífi fólks og sjaldan hægt að einblína á einn þátt sem orsök kulnunar. Algengara er að konur lendi í kulnun en rannsóknir hafa ekki getað sýnt fram á að þetta sé skýrt út frá kyni, þ.e.a.s. líffræðilegum mun kynjanna. Konur eru að öllu jöfnu undir meira álagi, fyrst og fremst af því að fleiri konur vinna á vinnustöðum þar sem andlegt vinnuálag er mikið, eins og á heilbrigðisstofnunum, skólum eða í öldrunarþjónustu. Einstaklingur sem er að glíma við mikið álag bæði á vinnustað og heima fyrir er líklegri til þess að þróa með sér kulnunareinkenni og meiri líkur eru á að konur frekar en karlar séu í þeirri aðstöðu. Rannsóknir sýna fram á að sáralítill munur er á körlum og konum hvað varðar einkenni og ferli kulnunar. Eini munurinn er að hlutfallslega fleiri konur lenda í kulnun og meginástæðan er að fleiri konur en karlar eru undir álagi sem getur valdið kulnun.

Miklar breytingar hafa átt sér stað í atvinnumálum á síðustu áratugum og störf sem áður voru talin vera heilbrigð störf eru núna skilgreind sem álagsstörf. Sérstaklega á þetta við um störf innan heilbrigðiskerfisins en einnig störf innan menntakerfisins og félagsmálageirans. Streituálag á vinnustöðum er flókið fyrirbæri og tengist ekki alltaf sjálfu starfinu, þ.e.a.s. aðhlynningu sjúklinga eða kennslu nemenda. Þær breytingar sem hafa átt sér stað eru meira tengdar aukinni skriffinnsku, tölvuvæðingu sem er illa aðlöguð að starfseminni, óljósum starfslýsingum, óskýrri stjórnun og lélegum samskiptum. Sérfræðingar í vinnuvísindum vilja meina að sú þróun sem orðið hefur hvað varðar stjórnun og skipulagningu á opinberum stofnunum þar sem unnið er með fólk samsvari ekki þeim störfum. Vöntun á starfsfólki í þessum geirum flækir stöðuna og því mikilvægt að hugað sé að breytingum hvað varðar stjórnun og starfsskipulag á þessum vinnustöðum.

 

Mikilvægi forvarna og eflingar á öllum sviðum
Forvarnir gegn streitu á vinnustöðum miða fyrst og fremst að því að auka getu einstaklinga til að takast á við álag með nálgunum eins og streitustjórnun, núvitund og hreyfingu. Frekar ætti að huga að því að koma í veg fyrir meginvandann, nefnilega sjálft álagið sem tengist starfsskipulagi, stjórnun og samskiptum. Þættir á vinnustað eru líka samofnir öðrum þáttum lífsins þannig að heildarsýn verður alltaf að vera til staðar. Forvarnarstarf á vinnustöðum er mikilvægt en mikilvægasta forvarnar- og eflingarstarfið tengist auknu jafnrétti á milli kynjanna og aukinni meðvitund í samfélaginu um streitu og andlega heilsu fólks. T.d. hefur kvíði meðal ungs fólks breyst frá því sem áður var og er oftar en ekki tengdur tilvistarlegum áhyggjum um framtíðina, samfélagsmáli sem takast verður á við á einhvern hátt. Forvarnir þurfa ekki alltaf að vera flóknar! Rannsóknir sýna að einföld samtöl geta skipt miklu máli. Samtöl á vinnustað um vinnuaðstæður þar sem vinnuhópurinn ræðir umbætur á skipulagi og vinnuaðstæðum, samtöl innan fjölskyldunnar um álag innan heimilisins og jafnrétti og samtöl innan þjóðfélagsins sem stuðla að aukinni meðvitund fólks um streituálag og andlega heilsu.

Höfundur er prófessor og forstöðumaður Institutet för Stressmedicin í Gautaborg.