Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

17. október 2022

Félagsfólk norðan heiða krefst kjarabóta

Sameyki á fundi með félagsfólki á Blönduósi. Ljósmynd/Guðmundur Freyr Sveinsson

Fundaröð með félagsfólki Sameykis er í fullu gangi og sl. föstudag voru haldnir fundir með félagsfólki á Blönduósi og Sauðárkróki.

Góð mæting var á fundina sem er mikilvægt bæði þannig að upplýsingar frá skrifstofunni komist til skila en ekki síður til að fá að heyra hvaða málefni brenna á starfsmönnum fyrir komandi kjaraviðræður í vetur. Mikill samhljómur var á milli félagsfólks á fundunum t.d. varðandi krónutöluhækkanir, ,,skreppreglur“ og rétti vegna veikinda nákominna, jöfnun launa milli markaða, styttingu vinnuvikunnar, heimavinnu og rétt til aðbúnaðar, og að barist verði fyrir því að bótakerfin verði bætt og hætt verði að skerða krónu á móti krónu.

Á fundunum á föstudaginn sl. kom einnig fram sjónarmið sem varða stuðning við að sækja t.d. læknisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu s.s. með ferðastyrk og gistimöguleikum sem félagið gæti haft aðkomu að. Þó fólk hafi komið frá mörgum mismunandi starfsstöðum er áberandi hvað félagsfólk Sameykis er samstíga og tilbúið til að standa vörð um hagsmuni launafólks. Þessir fundir eru því mjög mikilvægir til að gefa öllu félagsfólki kost á að vera saman og stilla saman strengina fyrir kjaraveturinn sem framundan er.