20. október 2022
Félagsfólk af útlendum uppruna illa upplýst á vinnustöðum um réttindi sín
Frá morgunverðarfundi með félagsfólki í Sameyki í morgun.
Í morgun var haldinn í sérstakur morgunverðarfundur hjá Sameyki með félagsfólki af útlendum uppruna. Farið var yfir kjara- og réttindamál félagsfólks og fjallað um komandi kjarasamninga. Þá var rætt um ástandið í þjóðfélaginu m.t.t. komandi kjarasamninga og reynslan af síðustu kjarasamningum rifjuð upp. Gafst félagsfólki kostur á að ræða saman og koma á framfæri skoðunum sínum á launa- og kjaramál og hvað Sameyki ætti að leggja áherslu á við gerð næstu kjarasamninga.
Þetta var kærkomið tækifæri til að koma á nánari tengslum við útlent félagsfólk, sagði Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis. Starfið fór fram í hópum og boðið var upp á morgunverð á fundinum.
„Okkar félagsfólk af útlendum uppruna sem skilur takmarkaða íslensku er ekki upplýst um réttindi sín inn á vinnustöðunum hjá Reykjavíkurborg. Það lýsti því fyrir okkur sem sátu fundinn í morgun að vinnuveitendur upplýstu ekki starfsfólk sitt af útlendum uppruna um réttindi og skyldur og það er alls ekki gott fyrir okkar fólk. Slíkt gerir vinnustaðina verri og því verður að breyta,“ sagði Þórarinn.
Sagði hann fundinn hafa verið góðan og félagsfólk hefði verið mjög ánægt með umræðurnar sem sköpuðust á honum. Þá sagði hann að Sameyki muni halda svona fundi reglulega og einnig stefnt sé að því að mæta óskum félagsfólks að heimsækja vinnustaði til að kynna fyrir því réttindi sín og ræða um kjaramál. Hann sagði að loknum fundi að nauðsynlegt væri að félagsfólk væri vel upplýst um kjara- og réttindamál sín og hefði skoðanir á því hvernig kjarasamningar eru mótaðir hjá félaginu. Sagði hann að Sameyki muni nýta það sem fram kom á fundinum í körfugerðirnar í komandi kjarasamningum. Mikil ánægja var hjá félagsfólki með fundinn sem haldinn var í félagamiðstöðinni á Grettisgötu 89. Túlkur var á fundinum og sem þýddi jafnóðum efni fundarins.
„Samtalið við félagsfólk af útlendum uppruna mun halda áfram og eflast hjá Sameyki,“ sagði Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis.