27. október 2022
Einkavæðingarstefnan og verkalýðspólitík til umræðu á Fulltrúaráðsfundi Sameykis í dag
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, fór yfir málefni félagsins á Fulltrúaráðsfundi í dag.
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, setti fund í fulltrúaráði félagsins í dag. Fór hann yfir málefni Sameykis á árinu. Helst ber að nefna verkefnið um styttingu vinnuvikunnar sem er í ákveðnum farvegi. Sameyki fundar í hverri viku um samkomulag sem gert var milli BSRB, BÍ og BHM og ríkis og sveitarfélaga um jöfnun launa milli markaða. Sameyki mun fylgja eftir samkomulaginu sem gert var 2016 um jöfnun launa milli markaða við aðila ríkis og sveitarfélaga.
Þórarinn kynnti málefni félagsins á árinu og í hverju starfið hefur verið fólgið, eins og t.d. að Sameyki reki verkalýðspólitík og að félagið taki varðstöðu með grunnþjónustunni gegn einkavæðingarstefnu stjórnvalda.
„Verkalýðspólitíkin er í því fólgin að sækja kjarabætur, verja áunnin réttindi launafólks og vara við ákvörðunum stjórnvalda sem hafa slæm áhrif á almenning. Við sjáum að fjölmargar ákvarðanir stjórnvalda skaða okkar félagsfólk. Ákvarðanir eins og hækkun stýrivaxta, niðurskurður í grunnþjónustunni, niðurskurður í málaflokkum sem veldur kynbundnum launamun, sem þarf að útrýma eins og ríkisstjórnin hefur lofað en ekki staðið við, fjársvelti og einkavæðing í heilbrigðiskerfinu o.m.fl. Stjórnvöld hafa mörg önnur úrræði en að sækja tekjur í ríkissjóð í vasa láglauna- og millitekjufólks. Hún hlífir þeim ríku við sanngjarnri skattheimtu og sækir ekki í tekjustofna stórfyrirtækja og auðlinda. Verkalýðspólitík er mikilvæg og við eigum hiklaust að halda áfram af krafti að minna stjórnvöld á að launafólk í landinu býr að því afli sem mest áhrif hefur til að móta samfélagið – ekki stjórnmálamenn. Verkalýðshreyfingin hefur mótað íslenskt samfélag eins og sagan sýnir okkur. Í gegnum hana hafa mestu umbæturnar orðið á samfélaginu sem við búum í. Við tökum varðstöðu með heilbrigðiskerfinu og við spornum við ýmsum áróðri stjórnvalda sem varðar réttindi og kjör okkar félagsfólks.“
Fundargestir óskuðu eftir nánari útskýringu á samkomulaginu frá 2016 þegar samið var um að jafna lífeyrisréttindi til jafns við almenna vinnumarkaðinn og laun milli markaða sem átti að leiðrétta í kjölfarið. Formaður Sameykis svaraði því til, að vegna krónutöluhækkana í síðustu kjarasamningum á lægstu launin, hefðu áróðursmeistarar talað um og umbreytt þeim í umræðunni í prósentuhækkanir og þannig haldið því fram að opinberi launamarkaðurinn leiddi launaþróunina. Þórarinn sagði þetta vera „lygaþvælu og áróður“ sem Sameyki hefði gagnrýnt harðlega með greina- og pistlaskrifum.
Skrifstofustjóri Sameykis, Gunnsteinn R. Ómarsson, fór yfir rekstraryfirlit, tekjur og gjöld, Félagasjóðs og Orlofssjóðs. Fulltrúaráðsfundur sendir frá sér tvær ályktanir síðar í dag, um einkavæðingu sveitarfélaganna á Strætó bs. og einkavæðingu ríkisstjórnarinnar á rekstri Vífilsstaða.