Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

28. október 2022

Öll í sama bátnum?

Heiður Margrét Björnsdóttir. Ljósmynd/BSRB

Nú þegar þrengir að hjá tekjulægri heimilum kveður við annan tón. Það á ekki að styðja þau heldur hækka gjöld á almenning og beita aðhaldi á ríkisútgjöld næstu árin.

Eftir Heiði Margréti Björnsdóttur

Staða hagkerfisins í kjölfar heimsfaraldurs er mun betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þannig hefur hagkerfið tekið fyrr við sér, skuldir ríkissjóðs eru lægri og tekjur umtalsvert hærri en búist var við. Það eru því vonbrigði að stjórnvöld ætli ekki að nýta þessa jákvæðu þróun til að styrkja heilbrigðiskerfið, bregðast við vaxandi ójöfnuði og stuðla að aukinni velferð.

Í stað þess að styrkja margvíslega tekjustofna ósjálfbærs ríkissjóðs boðar tekjubreytingarfrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2023 nær eingöngu hækkun gjalda á almenning í takt við verðlagshækkanir. Sú aðgerð er verðbólguhvetjandi og mun koma verst niður á þeim sem hafa lægstu launin og þyngstu framfærslubyrðina. Staða margra atvinnugreina og fjármagnseigenda er sterk og hluti þeirra kom mjög vel undan farsóttinni. Það er því illskiljanlegt að ekki sé litið til þessara aðila við tekjuöflun fremur en að leggja frekari álögur á almenning. Það er þvert á þau markmið sem ríkisstjórnin hefur sjálf sett sér í stjórnarsáttmála þar sem segir að stuðla eigi að skattkerfi sem standi undir samneyslu og gegni tekjujöfnunarhlutverki.


Verðbólguhvetjandi aðgerðir
Í áformum ríkisstjórnarinnar um hækkun almennra gjalda felst meðal annars hækkun krónutöluskatta um 7,7% á næsta ári. Það eru skattar eins og: áfengis-, tóbaks-, bensín-, olíu-, kolefnis-, bifreiða- og kílómetragjald ásamt gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra og útvarpsgjaldi. Í ljósi þess að verðbólga mældist 9,3% á ársgrundvelli í september sl. með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á kaupmátt launafólks, er óheppilegt að ríkisstjórnin boði jafn mikla hækkun gjalda á almenning. Reynsla undanfarinna ára sýnir að það er langt frá því að vera lögmál að opinber gjöld hækki í samræmi við verðlagsforsendur. Leggja mætti aukna áherslu á að gjöld fylgi verðlagsþróun þegar vel árar en ekki þegar skóinn kreppir hjá almennu launafólki.

Gjaldahækkunin er rökstudd með þeim hætti að hún eigi að sporna gegn þenslu, þó hún sé í sjálfu sér verðbólguhvetjandi. Hér er því um mótsögn að ræða og vert að árétta í þessu sambandi að það er neysluhegðun tekjuhærri hópa sem hefur sérstök áhrif á verðbólguna en ekki þeirra tekjulægri. Á síðasta ári áttu 38 þúsund heimili erfitt með að ná endum saman, það er áður en verðbólga og vextir tóku að hækka. Það sama átti við um 52% einstæðra foreldra. Þessir hópar áttu því mjög takmarkaðan hlut í sterkustu einkaneyslu íslenskrar hagsögu en þurfa nú að bera byrðarnar með auknum álögum og kaupmáttarrýrnun. Nær væri að stjórnvöld myndu beita ríkisfjármálastjórninni til að auka stuðning við tekjulægstu hópana, jafna byrðarnar og beina fjármunum þangað sem þörfin er mest.

 

Stuðningur við atvinnulíf en ekki einstaklinga?
Þegar efnahagslegar afleiðingar COVID-19 byrjuðu að láta á sér kræla krafðist atvinnulífið skjótra viðbragða og ríkulegs stuðnings frá stjórnvöldum. Ríkisafskipti voru talin bráðnauðsynleg og aukin útgjöld með tilheyrandi skuldsetningu ríkissjóðs þótti réttlætanleg. Stjórnvöld hlýddu kallinu og gripu til aðgerða. Árangur þeirra aðgerða má meðal annars sjá á skjótri aðlögun atvinnulífsins við aukinni eftirspurn þegar faraldrinum lauk.

Nú þegar þrengir að hjá tekjulægri heimilum kveður við annan tón. Það á ekki að styðja þau heldur hækka gjöld á almenning og beita aðhaldi á ríkisútgjöld næstu árin. Nú er bráðnauðsynlegt að stemma stigu við skuldasöfnun og vaxtakostnað vegna skulda sem stofnað var til, m.a. vegna stuðnings ríkisstjórnarinnar við atvinnulífið.

Þessi viðbrögð ríkisstjórnarinnar eru í algerri andstöðu við það sem boðað er í skýrslu sem Katrín Ólafsdóttir hagfræðingur vann fyrir þjóðhagsráð og var birt í ágúst sl. Þar kemur fram að það sé hlutverk ríkisfjármálanna að bregðast við neikvæðum aðstæðum og aðstoða þá sem verst verða úti með auknum stuðningi. Það er á þeirra valdi að mæta þörfum einstakra hópa en ekki hins hagstjórnartækisins sem er stjórn peningamála.

 

Það er nóg til
Ríkisstjórnin virðist alfarið hafa horft fram hjá uppgangi fyrirtækja og félaga þrátt fyrir að sett markmið sé að minnka skuldir ríkissjóðs. Í eftirfarandi töflu má sjá hagnað og arðgreiðslur meðal stærstu fyrirtækja landsins í sölu nauðsynjavara og fjármálastarfsemi fyrir árið 2021 og fyrri hluta árs 2022.

 

 

Þessi fimm fyrirtæki eru meðal þeirra fyrirtækja sem móta viðskiptakjör almennings. Samanlagðar arðgreiðslur þeirra vegna síðasta árs, þegar faraldurinn stóð sem hæst, námu rúmum 38 milljörðum króna og nema áætluð endurkaup hlutabréfa tugum milljarða á næstu tveimur árum. Það stefnir í enn meiri hagnað á árinu 2022 miðað við rekstrarniðurstöðu fyrri helmings ársins. Jákvæð afkoma einskorðast þó ekki við ofangreind fyrirtæki og má í því samhengi nefna að hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja landsins jókst um 124% á milli áranna 2020 og 2021. Þessar niðurstöður sýna svo ekki verður um villst að það er nóg til. Í þessu ljósi er erfitt að skilja af hverju ríkisstjórnin leggur til að afla tekna með frekari álögum á almenning í stað fyrirtækja.

 

Grundvallaratriði að standa vörð um velferð
BSRB gerir þá kröfu nú þegar rykið er að setjast í kjölfar heimsfaraldursins að stjórnvöld geri jöfnuð, velsæld og velferð að meginmarkmiðum sínum. Þau markmið má fjármagna með breyttri forgangsröðun við tekjuöflun t.d. með hátekjuskattþrepi, innleiðingu stóreignaskatts, hækkun bankaskatts og fjármagnstekjuskatts og aukinni hlutdeild almennings í tekjum af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar með hærri auðlindagjöldum. Ennfremur að krónutöluskattar ríkissjóðs hækki um 2,5% til samræmis við verðbólgumarkmið Seðlabankans í stað 7,7%.

Það er bæði miklvægt og brýnt að byggja upp félagslega innviði sem hafa ekki verið fullfjármagnaðir á síðustu árum og reynt hefur verulega á í heimfaraldrinum. Nú er tíminn til að efla og fjölga tekjustofnum ríkisins, styrkja almannaþjónustuna og leiðrétta tilfærslukerfin. Það ýtir undir velsæld og jöfnuð og mun skila sér í þróttmeira hagkerfi til lengri tíma.

Höf­undur er hag­fræð­ingur hjá BSRB.

Greinin birtist fyrst á vef Kjarnans.