Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

28. október 2022

Vagnstjórar reiðir vegna áforma stjórnar að einkavæða Strætó bs.

Pétur Karlsson vagnstjóri hjá Strætó bs. Ljósmyndir/Axel Jón

Eftir Axel Jón Ellenarson

„Við erum mjög reiðir vegna þess að útvista á til einkaaðila öllum leiðum Strætó bs. á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Pétur Karlsson vagnstjóri hjá Strætó bs. Pétur er einnig trúnaðarmaður Sameykis á vinnustaðnum og segir að með einkavæðingu aksturshluta Strætó bs. muni reynsla tapast, þjónustan minnka og fólk missa vinnuna.

„Með einkavæðingu aksturshlutans fylgir verkstæðið og þvottastöðin með. Þessu starfsfólki og vagnstjórunum verður sagt upp störfum og við vitum ekkert hvað tekur við vegna þess að útséð er með að þeir ráða inn fólk á lægri launum.“ Pétur segir að skrifstofan standi þá eftir til að sinna þjónustunni fyrir landsbyggðarbílana.

 

„Framkvæmdastjórinn hleypti illu blóði í okkur“
Pétur segir að það sem hafi hleypt illu blóði í vagnstjóra Strætó bs. hafi verið viðtal við Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóra fyrirtækisins í fjölmiðlum þar sem hann sagðist vilja einkavæða þessa grunnþjónustu sem fyrst en hefði áður alltaf haldið því fram að fyrirtækið yrði ekki einkavætt í nánustu framtíð, eða ekki fyrir tilkomu borgarlínunnar.

„Vegna þessa viðsnúnings framkvæmdastjórans hleypti hann öllu upp í háaloft á vinnustaðnum og menn eru mjög ósáttir og reiðir. Nú vofir yfir okkur atvinnumissir en framkvæmdastjórinn er að vinna verkið núna, að einkavæða Strætó bs., samkvæmt beiðni stjórnar og hægt er að sjá í fundargerð á vef Strætó bs. Á skrifstofunni vinna um 30 manns og líklega heldur það sínum störfum áfram en við hin eigum að fara út af örkinni í önnur störf eða í sama starf á lægri launum. Okkur verður sagt upp af opinbera hlutanum og launin lækkuð í kjölfar einkavæðingarinnar og verður það ábyggilega kallað skipulagsbreyting eða eitthvað álíka,“ sagði Pétur, leiður yfir þessum ásetningi sveitarfélaganna.

 

 

Svikin loforð
Hann segir að innviðaráðherra og ríkisstjórnin hafi lofað fé í reksturinn vegna heimsfaraldursins en það loforð hafi verið svikið.

„Ég held að því hafi verið lofað að Strætó fengi nær milljarð, sem var svo svikið og fyrirtækið fékk bara 120 milljónir. Sigurður Ingi segir svo í fjölmiðlum að þetta sé lygi. Svo spila þeir þetta þannig, fyrirtækið er fjársvelt í heimsfaraldrinum og að koma þurfi rekstrinum í hendur einkaaðila undir því yfirskini að þeir geti rekið þetta fyrir minna fé. Það er auðvitað rangt því þjónustan muni skerðast og fargjöld hækka. Það er bara verið að eyðileggja þessa grunnþjónustu,“ segir hann.

 

Stjórnin kyndir undir einkavæðinguna
Þá segir Pétur að stjórn Strætó bs. kyndi undir þessi áform og hafa skuli í huga að í stjórninni sitja Sjálfstæðismenn, fyrir utan fulltrúa Viðreisnar sem er mjög fylgjandi einkavæðingunni, og svo fulltrúi Pírata sem spyrnir við áformunum að einhverju leyti.

„Formaður stjórnar Strætó bs. er af Seltjarnarnesi og hann vill ekki sjá Strætó í opinberum rekstri. Hann vill bara einkavæða þetta strax. Hinir í stjórninni ætla að ganga undir líka. Aðeins í Reykjavík er staðið í lappirnar gegn þessum áformum með okkur. Alexandra Briem er varaformaður stjórnar en borgarstjórinn, Dagur B. Eggertsson, sem er forsvarsmaður fyrir eigendastefnu stjórnar Strætó bs., tekur að því virðist enga afstöðu. Hugsa sér það! Ég held að hann hafi ekki yfirsýn á starfsemina og á fundum með okkur hefur hann bara hrokkið í kút og viljað slíta þeim þegar við mótmælum einhverjum ákvörðunum sem varða Strætó bs. Þessir pólitísku fulltrúar okkar, sumir hverjir, hafa ekki nauðsynlega yfirsýn á reksturinn og láta bara millistjórnendur Strætó bs. mata sig á upplýsingum. Þannig missa þeir þetta úr höndunum á sér og tapa yfirsýn. Stjórnin stuðlar að því að vagnstjórarnir missa vinnuna.“

 

Verið að rétta Kynnisferðum Strætó
Kynnisferðir og Hópbílar eru í svipuðum rekstri og Pétur segir einfaldlega verið að reyna að rétta þeim þetta. Reykjavík Excursions á rútudeildina innan Kynnisferða og svo eiga m.a. lífeyrissjóðir hlut í vagnaflota Kynnisferða.

„Þeir vilja bara fá þetta, þetta er bara pólitík og verið að rífa af almenningi eigur þeirra. Það er ekkert verið að hugsa um almenning, fólkið sem nýtur þjónustunnar. Þetta er vegferð til einkavæðingar því þjónustustigið hjá Strætó bs. síðustu tíu árin hefur verið lóðbeint niður á við. Þetta finna notendur þjónustunnar og einhverra hluta vegna er hætt að mæla þjónustustig og ánægju farþeganna með þjónustuna fyrir einhverjum árum síðan. Sennilega vegna þess að slíkar kannanir meðal farþeganna kæmu illa út.“

 

Glórulausar ákvarðanir sem ekki eru til peningar fyrir
Pétur segir að stjórn fyrirtækisins hafi farið út í fjárfestingar sem ekki séu til peningar fyrir, eins og að búa til app sem notendur þjónustunnar eigi að finna út úr sjálfir. Þá hafa fleiri ákvarðanir verið teknar þar sem sótt er fé innan úr fyrirtækinu sem ekki er til fyrir; frítt í strætó og næturakstur.

„Fólk veit ekki lengur hvaða vagn er að koma eða fara. Það er búið að skera þjónusta þannig niður að fólk getur ekki spurt neinn um neitt. Það á bara að finna sjálft út úr því á netinu í gegnum app. Það eru engar miðasölur lengur í borginni, engar skiptistöðvar opnar eins og var, og ekki er hægt að kaupa farmiða hjá vagnstjóra heldur eins og áður. Þessari þjónustu var bara hent út í hafsauga. Rekstur Strætó bs. er furðulegur og mætti vera betri. Teknar eru ákvarðanir um alls konar sem sveitarfélögin leggja ekki til fjármagn með. Það er alveg ótrúlegur hugsanagangur. Það má líkja þessu við að fara að út í að byggja hús og eiga ekki peninga fyrir því,“ segir Pétur að lokum.