Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

30. október 2022

Hvernig eyðileggja skal samfélag

Þóarinn Eyfjörð, formaður Sameykis.

Það er augljóst hver stefna ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttir er. Hún felst í að auka álögur á láglauna- og millitekjuhópana í samfélaginu og láta þá bera byrðarnar en hlífa hálaunafólki.

Eftir Þórarin Eyfjörð

Efnahagsmálin eru í ólestri hjá ríkisstjórninni og stefna hennar einkennist af úrræðaleysi. Rúmlega 38 þúsund heimili eiga erfitt með að ná endum saman og 52 prósent af þeim hópi eru einstæðir foreldrar. Það blasir við að sá hópur sem nær ekki endum saman fer vaxandi þar sem kaupmáttarrýrnun er 4 prósent á þessu ári á meðan verðbólgan mældist 9,3 prósent á ársgrundvelli nú í september. Það er augljóst hver stefna ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttir er. Hún felst í að auka álögur á láglauna- og millitekjuhópana í samfélaginu og láta þá bera byrðarnar en hlífa hálaunafólki, sem greiðir hlutfallslega lægri skatta vegna fjármagnstekna. Þá boðar ríkisstjórnin enn meiri hækkanir á opinberum gjöldum í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2023, sem leiðir til þess að vísitala neysluverðs hækkar enn frekar. Þessa keðjuverkun hækkandi framfærslukostnaðar skulu láglauna- og millitekjuhóparnir greiða fyrir. Þetta er dauðans alvara fyrir almenning.

 

Þeim ríku hlíft við að bera byrðarnar
Þá stendur ríkisstjórnin fyrir enn frekari aðhaldsaðgerðum í fjárlagafrumvarpinu með því að skerða styrkjakerfin okkar; húsnæðisbætur, vaxtabætur og barnabætur. Það sér hver Íslendingur að ríkisstjórnin lætur almenning blæða fyrir óreiðu í ríkisfjármálum á meðan hálaunafólk og þeir ríkustu á meðal okkar, efsta lagið í samfélaginu, greiða hlutfallslega minna í skatta af tekjum sínum.

Þessi pólitík kapítalismans sem ríkir á stjórnarheimilinu er andfélagsleg. Þetta er pólitík sérhagsmuna þeirra efnameiri sem skemmir samfélagið og hafnar velsæld fyrir alla landsmenn. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur velur að nýta ekki þá tekjustofna sem blasa við til að skapa betra samfélag. Hún velur að styrkja ekki innviðina og almannaþjónustuna með því að nýta sjálfsagða tekjumöguleika ríkisins innan fjárlaganna. Tekjumöguleika eins og hátekjuskatt, bankaskatt, hvalrekaskatt og hækkun fjármagnstekjuskatts – svo ekki sé talað um sanngjarnari skattlagningu fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Ríkisstjórnin er augljóslega andfélagsleg í eðli sínu og almennt launafólk skal greiða fyrir þeirra hagstjórnarmistök og niðurrif grunnþjónustunnar. Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar er uppskrift að hvernig eyðileggja skal samfélag.

 

Heilbrigðiskerfið fjársvelt
Heilbrigðiskerfið hefur verið undir miklu álagi eins og alþjóð veit undanfarin ár og erfitt er að manna ýmsar fagstéttir innan þess. Gríðarlegt langvarandi álag ríkir í heilbrigðiskerfinu og í nýlegri könnun kemur fram að 70 prósent hjúkrunarfræðinga hafa íhugað af alvöru að hætta störfum á síðustu tveimur árum. Við bætist mikill mönnunarvandi sem þegar er uppi í heilbrigðiskerfinu og hefur alvarleg áhrif á starfsemi heilbrigðisstofnana. Lausn ríkisstjórnarinnar er að fjársvelta stofnanir heilbrigðiskerfisins og einkavæða þær eins nýleg dæmi sýna, meðal annars í áætlun um að einkavæða þjónustuna að Vífilsstöðum. Þessi stefna ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum gengur þvert á stjórnarsáttmála hennar. Fram kemur í umsögn BSRB um fjárlagafrumvarpið að fjárframlög ríkisins til heilbrigðismála á verðlagi hvers árs frá árinu 2021, miðað við íbúafjölda, hafa dregist saman um 176 þúsund á hvern íbúa landsins miðað við fjárframlög til ársins 2023. Á meðan eykst þrýstingurinn á heilbrigðiskerfið, m.a. vegna öldrunar þjóðarinnar. Sú spurning er áleitin hvort þessi vegferð sé hugsuð á stjórnarheimilinu til að veikja heilbrigðiskerfið af ráðnum hug.

 

Bótakerfin fjársvelt
Barnabótakerfið gagnast fyrst og fremst tekjulægstu fjölskyldunum. Ríkisstjórnin stendur fyrir því að ungar barnafjölskyldur og einstæðir foreldrar ná vart endum saman vegna þess að þær eru tekjutengdar og skerðast hjá sambúðarfólki við sameiginlegar mánaðartekjur umfram 760.000 kr. á mánuði og hjá einstæðum foreldrum með 380.000 kr. á mánuði. Lágmarkslaun eru 368.000 kr. á mánuði og því skerðast barnabætur hjá nærri öllu launafólki. Það sjá allir að hjá ríkisstjórnina skortir skilning og umhyggju fyrir láglaunafólki og ungum barnafjölskyldum sem ekki ná endum saman. Því er nauðsynlegt að ríkisstjórnin styrki barnabótakerfið með því að breyta því á þann veg að barnabætur byrji ekki að skerðast fyrr en meðaltekjum er náð.

Útgjaldakafli fjárlagafrumvarpsins endurómar áherslu á aðhald og niðurskurð. Þar birtist með skýrum hætti sú stefna að jafnvægi í ríkisfjármálum eigi að ná með skertri opinberri þjónustu en ekki aukinni tekjuöflun þar sem sannarlega er svigrúm til staðar. Því vaknar sú spurning hvort ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sé ekki umhugað að styrkja samfélagið okkar og kjósi fremur að rækta garða nýfrjálshyggjunnar með hagsmuni hinna efnameiri að leiðarljósi.

Höfundur er formaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu.

Greinin birtist fyrst á vef Kjarnans.